09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í C-deild Alþingistíðinda. (1923)

94. mál, sauðfjármörk

Benedikt Sveinsson:

Ýmsir hv. þm., þeir er betur kunna skil á þessu máli en ég, hafa nú tekið til máls. Skal ég því vera fáorður og fara fljótt yfir, þótt hér liggi fyrir merkilegt mál og margþáttað.

Vil ég fyrst flytja hv. flm. frv. þakkir fyrir atorku þá, er þeir hafa beitt til þess að búa frv. úr garði. Er þetta hvorttveggja: ið vandasamasta mál úr að ráða til gagnsmuna almenningi, vegna vandræða þeirra, er hlotizt geta af sammerkingum, en á hinn bóginn oft og einatt nokkuð viðkvæmt mál einstökum mönnum, markeigendum, er oft hafa fengið mörkin að erfðum, langt úr ættum eða að vingjöfum. Er mikill vandi á að sigla hér milli skers og báru.

Frv. er sprottið af góðum vilja hv. flm., en þess er eigi von, að þessir tveir hv. þm. beri svo kennsl á staðháttu alls Íslands, sem til þess þarf að semja lagafrv. um svo vandasamt efni, er hvarvetna megi við hlíta í landinu.

Hér er langa nót að að draga, og skal ég ekki þar um segja, hvort nefnd og þingdeildir megi giftu til bera að ljúka svo mikilvægu máli á þessu þingi. Hygg ég og, að eigi muni allbrýn þörf að hrapa frv. þessu til framkvæmda.

Hitt er mér engu að síður fullkunnugt, að sammerkingar valda stundum vandræðum og óvissu, og stafa þær stundum af því, að menn taka upp mörk með hæpnum heimildum. Verður að gjalda varhug við þessu, enda er jafnan reynt að bæta úr slíku milli aðilja, svo sem ótal dæmi sanna. Þetta kemur nær eingöngu fram þeirra sveita í milli, er saman liggja eða eiga sameiginlegt upprekstrarland, og er markeigendum í lófa lagið að leysa vandræðin heima fyrir, án þess að koma þurfi til kasta allsherjar þjóðardómstóls.

Einkennilegar þykja mér þær staðhæfingar, sem hér hafa verið bornar fram, að inar miklu samgöngur síðustu ára valdi nauðsyn þessarar löggjafar. Ég kannast fullkomlega við það, að miklar vegabætur hafa verið gerðar á landi voru, en ég hugsaði nú, satt að segja, að nokkuð annað lögmál gilti um „samgöngur“ manna en sauðkinda. Mannkindin fer ríðandi, akandi í bifreiðum og fljúgandi. En sauðkindin fer sínar eigin götur á fjórum fótum og tekur lítt í sína þjónustu samgöngutæki nútímans, ef svo mætti að orði kveða.

Víst er svo, að margar ár hafa verið brúaðar, en brýrnar eru þó fæstar á leiðum afréttafjár. Og þær brýr, sem eru við heiðar og á fjallvegum, eru oftast lokaðar með grindum, ef hætta þykir, að hross eða fénaður fari þar yfir annars kostar. Þó skal ég ekki synja fyrir það, að einstaka kind slæðist yfir brýrnar, sem ella mundi ekki yfir ána fara.

En ég vil benda á það, að umbætur þær, er gerðar hafa verið in síðari ár, miða yfir höfuð í alveg gagnstæða átt við það, sem bent hefir verið til, því að þær miða einmitt að því að torvelda samgöngur hinna ferfættu dýra.

Langar og miklar girðingar eru settar meðfram vegum, um heimalönd og milli afrétta héraða mjög víða um land allt, svo að afréttarfé er hamlað að rása sveita og héraða milli miklu fremur en áður. Þetta mikilvæga atriði kemur mjög til greina í efni því, er hér liggur fyrir.

Þrátt fyrir þetta vil ég alls eigi halda því fram, að hér sé um alóþarft og ómerkilegt mál að ræða, heldur hitt, að mjög mun vafasamt, hvort reisa þurfi slíkt þjóðbákn til þess að við megi una, sem frv. hefir í sér fólgið.

Ég vil einkanlega biðja hv. n. að athuga það, að ákvæði þau í frv., er varða Þingeyjarsýslur, eru af nokkrum ókunnugleika sett. Þar fara alls eigi saman sýslumörk og fjallskilahéraðstakmörk, eins og frv. vill vera láta. Kelduneshreppur í Norður-Þingeyjarsýslu heyrir til fjallskilahéraði með Suður-Þingeyjarsýslu. Jökulsá á Fjöllum deilir þar fjallskilahéruðum, en ekki sýslum í byggð. Eru því ákvæði frv. um markaskrár í þessum byggðum alveg röng og út í hött, sakir ókunnugleika þeirra, er um hafa fjallað.

Óska ég, að þetta sé tekið til greina.

Ég vil svo að lokum leyfa mér að biðja landbn., sem fær frv. þetta væntanlega til meðferðar, að athuga þetta mál allt grandgæfilega og hafa ekki um of hraðann á. Skal nefndin ekkert álas frá mér hljóta, þótt hún lúki ekki því starfi á þessu þingi.