10.03.1931
Neðri deild: 20. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í C-deild Alþingistíðinda. (1928)

95. mál, sjóveita í Vestmannaeyjum

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Þetta frv. hefir verið sent frá bæjarstj. Vestmannaeyja með þeim tilmælum að leggja það fyrir Alþingi.

Eins og kunnugt er, var stj. heimilað í fjárl. 1929 að láta 50 þús. kr. úr viðlagasjóði til sjóveitu í Vestmannaeyjum. Sjóveita þar er nauðsynleg til fiskverkunar, og þarf ekki hér að endurtaka rök þau, er fram voru borin fyrir nauðsyn hennar 1928, þegar stj. var veitt heimild þessi. Stj. hefir því miður ekki séð sér fært að nota þessa heimild, og í vetur kom loks endanlegt afsvar frá henni. Samt er verið að hugsa um að koma sjóveitunni upp, og er gert ráð fyrir, að hún kosti 73 þús. kr. samkv. áætlun, er gerð hefir verið af vitamálastjóra eða verkfræðingum hans. Bænum er því nauðsynlegt að tryggja sér afrakstur af þessu fyrirtæki, en með því að svo er litið á, að engin gildandi lög eigi hér við, nema vatnalögin að nokkru leyti, álítur bæjarstj., að þurfi sérstök lög um sjóveituna og gjald af henni. Ég mun ekki fara hér út í einstakar greinar frv., en legg til, að því verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og allshn.