13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

116. mál, heimild til að veita Jóni Þorleifi Jósefssyni vélstjórnarskírteini

Flm. (Jón Ólafsson):

Frv. þetta fer fram á að heimila atvmrh. að veita Jóni Þorleifi Jósefssyni skirteini til vélstjórnar á íslenzkum skipum.

Maður þessi hefir að norskum l. réttindi til vélstjórnar á norskum skipum, og þykir því sanngjarnt, að hann njóti sömu réttinda hér. Eins og af grg. frv. sest, hefir þessi maður fengið mjög mikla æfingu í iðn sinni, og auk þess hefir hann mjög gott orð á sér og er reglusamur og passasamur í sínu starfi. Hygg ég, að ekki yrðu vandfengin honum til handa meðmæli frá skipaeftirlitsmanni ríkisins eða vélaeftirlitsmanni, ef til þyrfti að taka.

Það, sem gerir þessum manni nauðsynlegt, að þessi heimild verði veitt, er það, hversu atvinna hans er stopul og óviss, vegna þess, að undanþága sú, sem hann verður að fá til þess að mega gegna vélstjórastörfum á íslenzkum skipum, er bundin því skilyrði, að vöntun sé á hæfum vélstjórum. Þar sem þessi maður er hinsvegar mjög fær í sinni grein, virðist ekki nema sjálfsagt, að honum séu veitt sömu réttindi hér eins og hann hefir í Noregi, enda er ekkert útlit fyrir annað en að hörgull verði á góðum vélstjórum hér á næstunni. Þó að nokkuð hafi raknað úr í þessu efni í seinni tíð, vantar samt mikið á, að nóg sé af vélstjórum hér enn sem komið er.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar og vænti þess fastlega, að hv. d. geti fallizt á þetta sanngirnismál. Óska ég þess, að málinu verði vísað til allshn., að lokinni umr.