13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í C-deild Alþingistíðinda. (1962)

117. mál, útsvör

Magnús Guðmundsson:

Þegar útsvarsl. voru endurskoðuð 1925–26, var það gert samkv. áskorun Alþingis. Þá var l. fundið það til foráttu, hve langt væri gengið í því að gera menn útsvarsskylda þar, sem þeir leituðu sér atvinnu. Væri jafnvel svo langt gengið í þessu efni, að ekkert væri skilið eftir handa heimilissveitum manna. Hin nýja útsvarslöggjöf var byggð á þeirri reglu, að heimilissveitirnar ættu að njóta sem mests af útsvarsboli sinna manna. Leit Alþingi svo á, að eftir þeirri reglu ætti fyrst og fremst að fara. Nú sé ég, að gagnstæð stefna er að skjóta hér upp höfðinu aftur. Er það ef til vill eðlilegt, því að það er erfitt að finna reglu í þessum efnum, sem sé svo að enginn geti að fundið. Út af þessu frv. vil ég hinsvegar benda á það, að það hefir aldrei verið í l. hér á landi, að maður, sem á fasteign á öðrum stað en hann er búsettur, og leigir hana út, verði útsvarsskyldur þar, sem eignin er. Frá 1905–24 var svo að segja alltaf verið að breyta útsvarslöggjöfinni að einhverju leyti, en aldrei tókst að gera öllum til hæfis. Bólar á þessu sama nú, þar sem fyrir þinginu liggja 3 frv. til breytinga í þessu efni. Þætti mér rétt, að þessum 3 frv. væri steypt saman, svo að ekki væru 2 eða fleiri breyt. á sömu l. frá sama þinginu.

Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að það væri illt, svo sem og rétt er, að menn gætu komizt undan því að greiða útsvör með því að látast eiga heima annarsstaðar en þeir í raun og veru búa. Þetta má heldur ekki líðast, og er að kenna slælegri framkvæmd útsvarsl., ef mönnum helzt þetta uppi. Ég minnist þess, að oddvitar hafa komið til mín sem lögfræðings af þessum ástæðum. Hefi ég ráðlagt þeim að fara í mál við slíka menn. Man ég sérstaklega eftir 2 tilfellum, og er hlutaðeigandi gjaldendur fengu vitneskju um þetta, vildu þeir heldur borga en skjóta málinu til dómstóla. Það er ekki útsvarsl. að kenna, þó að menn losni við útsvör með því að gefa upp rangt heimilisfang. Er hér um bil alltaf hægt að vinna slík mál fyrir dómstólunum.

Ég vildi með þessum orðum vara menn við að láta gallana, sem þeim sýnist vera á þessum l., en eru þar þó ekki í raun og veru, verða til þess, að löggjöfinni í þessum efnum verði breytt í sama horf og var fyrir nokkrum árum, og þá þótti óhæft.