13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í C-deild Alþingistíðinda. (1971)

117. mál, útsvör

Bernharð Stefánsson:

Það er alger rangfærsla hjá hv. þm. Borgf., að ég hafi sagt, að ég vildi láta leggja útsvör á eignir, sem að engum notum koma. Ég tók einmitt fram, að jarðirnar gætu verið notaðar sem afréttir, þótt þær væru komnar í eyði. Hv. þm. Borgf. hafði hér eftir mér það, sem ég aldrei hafði talað.

Hann vék ennfremur að frv. um byggðarleyfi, sem ég flutti hér á þinginu fyrir nokkrum árum, og taldi, að ég hefði heykzt á að fylgja því fram. Ég verð nú að segja, að mér þótti hv. þm. höggva nokkuð nærri sjálfum sér. Hann var nefnilega meðflm. minn að þessu frv., og hlýtur því það sama að eiga við um hann í þessu efni eins og um mig. (JAJ: Hv. 2. þm. Eyf. var 1. flm.). Já, það er rétt, og hitt einnig, að ég undirbjó málið í hendur stjórninni. Hv. þm. Borgf. sá frv. og lauk lofsorði á. Annars er ekki loku fyrir skotið að þetta mál geti komið inn á þingið ennþá. (HG: Það vona ég að verði ekki). Ég veit um hug sósíalista til þessa máls, en vel getur svo farið, ef stefna þeirra og starfsaðferðir beinast í sömu áttina og undanfarið, að óhjákvæmilegt verði að setja slíka löggjöf.

Hv. þm. N.-Ísf. gaf í skyn, að þótt frv. þetta yrði að lögum, myndu menn keppast um að flytja peninga sína til kaupstaðanna eftir sem áður, og lét jafnframt á sér heyra, að kaupstaðirnir, eða Rvík að minnsta kosti, myndu misnota svo rétt þann til útsvarsálagningar, sem í þessu frv. felst, að dvalarsveitin fengi ekki neitt. Hann sagði ennfremur, að fyrirbyggja mætti, að hin efnaðri sveitar- og bæjarfélög keyptu jarðeignir í öðrum sveitum, til að koma yfir á þær fátæklingum, með forkaupsrétti hreppa á jarðeignum. En hv. þm. veit vel, að hin fátækari sveitarfélög geta alls ekki notað sér þennan forkaupsrétt oft og tíðum, og auk þess vita bæði hann og aðrir, hve oft er farið kringum þau lög.

Broslegast var þó, er hv. þm. fann það ráð gegn sveitfesti fátæklinga úr öðrum hreppum, að leggja á þá svo há útsvör, að þeir yrðu að flæmast burt úr hreppnum. Slíkt er vitanlega með öllu óheimilt samkv. útsvarslögunum, og enginn sveitarstjórn myndi geta verið þekkt fyrir að beita slíkri aðferð.