13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í C-deild Alþingistíðinda. (1974)

117. mál, útsvör

1974Jón Auðunn Jónsson:

Hv. 2. þm. Eyf. talaði um þá hættu, sem stafaði af því, að menn í útkjálkahéruðum flyttu peninga sína til bæjanna, og taldi, að frv. þetta myndi koma í veg fyrir slíkt að einhverju leyti. En ég er alveg sannfærður um, að mörg bæjarfélög myndu alls ekki nota sér þann rétt, sem frv. veitir. Þau eru skynsamari en svo, að þau fari að bægja peningum utanhéraðsmanna frá sér.

Um forkaupsrétt sveitarfélaga er það að segja, að vart munu vera til þau sveitarfélög á landinu, er eigi geti fengið fé að láni til þess að nota sér hann, ef þau kæra sig um. Ég treysti því, að hv. 2. þm. Eyf. verði sveitarfélögum hjálplegur í slíkum efnum sem bankastjóri, því að þeim verður oft eigi meiri greiði gerður á annan hátt.