21.03.1931
Neðri deild: 30. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í C-deild Alþingistíðinda. (1994)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, er talið, að ekki blási byrlega með fiskveiðar okkar og fisksölu, ef byggja á eingöngu á saltfiskveiðum og Spánarmarkaði. Saltfiskverðið er nú svo lágt, að til fullrar tvísýnu horfir um fiskveiðar okkar og sjávarútveg, ef ekki eru gerðar stórfelldar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi eða söluaðferðum eða hvorutveggju. Eftir því sem ég veit bezt, hefir fullverkaður stórfiskur verið seldur fyrir 70–75 kr. skpd. undanfarið. Hvað verðið verður í ár, er ekki hægt að segja eins og er, en ekki er útlitið þar glæsilegt, eftir því að dæma, að togaraflotinn hefir legið í höfn allt þangað til í dag eða gær. Og ef togaraeigendunum þykir ekki gróðavænlegt að gera út með þeim afla, sem verið hefir undanfarið, verður ekki sagt, að glæsilega horfi fyrir bátaútveginum. Þegar svo er komið, er ekki nema um tvennt að gera. Annaðhvort að koma betra og hentugra skipulagi á þessa atvinnugrein, eða þá snúa að því ráði að gera aflann verðmeiri og tryggja söluna betur en nú er gert. Hvorugt þetta verður í skyndi gert svo að til fullnustu sé.

Við jafnaðarmenn lítum svo á, að eina varanlega lausnin á þessum málum sé sú, að stórútgerðin verði rekin af því opinbera undir einni stj., og bátaútveginum komið í það horf, að bátaeigendur og fiskimenn hafi samvinnu um útgerðina. En eins og þing er nú skipað, er vonlaust um, að þetta komist á. Um hitt atriðið er svipað að segja. Við jafnaðarmenn teljum, að söluvandræðin verði bezt leyst með því, að hið opinbera hafi með höndum sölu á öllum útfluttum fiski. Eins og þingið nú er skipað, fæst því eigi á komið. Er því ekki um annað að gera í bili, en að snúa sér að því, sem hægt er að gera til umbóta í þessu efni án gagngerðra breytinga á skipulagi útvegsins og verzlunarrekstrinum. Þetta frv. er spor í þá átt. Einn megingallinn á fiskverkun okkar og útgerð er sá, að allt kapp er lagt á það að rífa upp sem mest af fiski, stundum fyrirhyggjulitið og án tillits til kostnaðar, taps á skipum, veiðarfærum og jafnvel mannslífum, en minni eða engin áherzla lögð á hitt, að gera aflann að fjölbreyttri vöru, með vísa kaupendur sem allra víðast. Því nær allur aflinn hefir svo verið verkaður á sama hátt og seldur til sömu staða. Þessi einhæfni í verkun er nú að koma okkur í koll. Nær því ekkert hefir verið að því unnið skipulega að gera fiskinn að fjölbreyttri vöru, sem auðvelt væri að selja sem viðast, heldur hefir öll aukning aflans komið fram sem aukin saltfiskframleiðsla fyrir takmarkaðan markað í Miðjarðarhafslöndum. Framleiðslan hefir aukizt mjög síðustu árin, 5 hin síðustu var aflinn þessi:

1926 .. 238 þús. skpd.

1927 .. 216 — —

1928 .. 410 — —

1929 .. 417 — —

1930 .. 441 — —

í árslok 1928 voru óseldar birgðir 45 þús. skpd., 1929 52 þús. skpd., 1930 127 þús. skpd.

Af skýrslum frá 1930 sést, að selt hefir verið til Spánar, Portúgal og Ítalíu 58 þús. tonn (350 þús. skpd.) verkuð; til annara landa (Englands, Danmerkur, Noregs, Þýzkalands) verkuð 1244 tonn, og óverkuð 8499 tonn. Þannig sést, að þó framleiðsluaukningin sé gífurleg, þá vex ekkert útflutningur af öðrum fiski eða öðruvísi verkuðum en saltfiski, og öll aukningin bætist á markaðina, sem fyrir voru. Jafnvel þótt ekki væri litið á verðfall síðasta árs, þá er ljóst, að ekkert vit er að byggja eingöngu á markaði á Spáni, Portúgal og Ítalíu. En verðfallið hlýtur að herða á því, að gert verði nú þegar eitthvað til þess að bæta úr þessu. Það er óhjákvæmileg nauðsyn.

Eina ráðið, sem útgerðarmönnum og fiskikaupmönnum virðist koma í hug, er þetta gamla, en ekki góða, að takmarka framleiðsluna með því að láta svo og svo mikið af skipastólnum liggja aðgerðarlaust og svipta mikinn hluta landsmanna allri atvinnu. Sú leið er óhæf og aðeins til þess að gera illt verra. Í stað þess að draga úr veiðunum þegar tregða er á saltfisksölu, verðum við að leggja allt kapp á það að selja fiskinn nýjan, ísvarinn eða frystan, yfirleitt þannig verkaðan, að hann sé seljanlegur víðar en á Spáni, Ítalíu og Portúgal. Þótt ekkert verðfall hefði orðið á síðasta ári, þá er samt sem áður brýn nauðsyn að taka upp breytta fiskverkunaraðferð og fyrirkomulag á sölunni. Séu athugaðar yfirlitsskýrslur um meðalverð á fiskafla Norðurálfuþjóðanna, sést, að við Íslendingar erum þar neðstir á blaði, fáum ekki nema tæpan 1/3 verðs fyrir hvert kíló af aflanum á við Dani, Þjóðverja og Englendinga. Og fari maður lengra suður á bóginn, er munurinn ennþá meiri. En það liggur í augum uppi, að flutningskostnaðurinn þarf ekki að vera og getur ekki verið ástæðan til þessa gífurlega verðmunar. Ástæðan er að nokkru sú, að við leggjum nær eingöngu stund á þorskveiðarnar, en flestar aðrar þjóðir engu síður á að veiða aðrar og dýrari tegundir fiska. En aðalástæðan er þó sú, að við seljum nær allan okkar afla sem saltfisk, en hinar mikinn hluta hans nýjan eða ísvarinn og því fyrir margfalt hærra verð.

Ef frv. yrði samþ., þá væri bátaútveginum svo víða um land, sem fært þætti, gert kleift að koma afla sínum á markað í Englandi og Þýzkalandi, einkum þeim hluta aflans, sem er nú verðminnstur, t. d. kola, lúðu og steinbít, sem nú er sama sem einskis virði með núverandi verkunarmáta, og a. m. k. á Vestfjörðum myndi það gera það að verkum, að haustvertíðin yrði miklu vissari.

Loks er á það að líta, að með hverju ári, sem líður, verða áhöld og aðferðir til þess að geyma og flytja nýjan fisk fullkomnari, og leiðir af því, að stöðugt eykst neyzla á nýjum fiski. En af því leiðir aftur það, að saltfisksalan vex ekki eða jafnvel minnkar frá því, sem nú er, eftir því sem tímar líða. Kröfurnar til nýmetis verða ríkari og ríkari, eftir því sem auðveldara reynist að verða við þeim, en að sama skapi minnkar eftirspurnin eftir saltmeti.

Ef bátaútgerðarmenn gætu komið afla sínum í verð á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, er mjög líklegt, að bráðlega tækist með þeim meiri samvinna en til þessa hefir verið, bæði um innkaup og sölu, og tel ég vel farið, ef svo yrði, og bátaútgerðin færðist í það horf, að samvinnufélög fiskimannanna sjálfra hefðu hana að sem mestu leyti.

Ef þessi tilraun sýndist ganga sæmilega vel og á kæmust fastar og reglulegar hraðferðir til tveggja landa, Englands og Þýzkalands, þá má ætla, að í sambandi við þetta myndi margvíslegur iðnaður rísa upp smátt og smátt, því það mun sýna sig, að það er nauðsynlegt að geta gert fiskinn sem fjölbreyttasta vöru, sem getur selzt yfirleitt á heimsmarkaðinum, en ekki aðeins í örfáum löndum. Af sömu samgöngum myndu og samhliða spretta margvísleg viðskipti og betri aðstaða fyrir landsmenn, er þeirra njóta.

Þrennt tel ég, að strax myndi vinnast við það að koma ferðum þessum á:

1. Að betra verð fengist fyrir fisk, sem nú er verðlítill, ef verkaður er sem saltfiskur, og veiðar eins og t. d. kolaveiðar ættu að geta gefið sæmilegt af sér.

2. Að aflinn fengist borgaður svo að segja jafnóðum, í stað þess að bíða óseldur 8–12 mánuði.

3. Að því meira, sem selt yrði af nýjum fiski, því minna þyrfti að verka sem saltfisk og senda á saltfiskmarkaðinn, sem virðist þegar of þröngur og mjög óviss.

Enn eru engin samtök að ráði komin á meðal bátaútgerðarmanna og fiskimanna hér á landi yfirleitt. Sé ég ekki annað ráð vænlegra en að ríkisstj. sjái um útflutning og sölu, a. m. k. þangað til útflutningsfélög eru mynduð og hafa gert með sér sæmilega öflugt sölusamband. Nokkrar tilraunir í þessa átt voru gerðar í vetur og tókust vel. Samvinnufélag Ísfirðinga byrjaði, sendi í desember um 100 smálestir með Esju í kössum. Reyndist fiskurinn alveg ágætur og fékk hið mesta lof, þótti hinn bezti, sem þá var fáanlegur. Síðar hefir félagið sent nokkrum sinnum með togurum og að mestu án kassa. Hefir það reynst æðidýrt að leigja togara eina og eina ferð, en þó hefir verðið jafnað sig upp og orðið betra en áætlað saltfiskverð.

Eigi því að gera þessa tilraun þannig, að byggja megi á henni, þá verður að koma á föstu skipulagi og reglulegum ferðum. En þetta fæst eigi gert nema ríkisstj. beiti sér fyrir þessu.

Ég hygg ekki, að ástæða sé til að óttast, að ríkissjóður þurfi að verða fyrir halla af þessu, en ég geri ráð fyrir, að 2% af söluverðinu verði lagt í sjóð, ef halli yrði. Þegar litið er til þess, hvern stuðning hið opinbera hefir veitt bændum til þess að koma kjötinu frystu til útlanda, bæði með framlagi til kæliskipsins og ábyrgð fyrir lánum til frystihúsa, þá verður eigi annað sagt en að sjálfsagt sé, að ríkissjóður veiti fyllsta stuðning til að beina fiskverzluninni inn á svipaðar brautir, þar sem hér er um margfalt meira verðmæti að ræða.

Eitt er enn, sem rétt er að benda á í þessu sambandi: síldveiðarnar. Fyrir hv. Ed. liggur till. um að skora á stjórnina að taka ábyrgð á Rússavíxlunum. Ég þori engu að spá um það, hvernig þetta fer, en ætla í lengstu lög að vona, að till. verði samþ., því ef ekki er hægt að auka síldarsöltunina frá því, sem verið hefir, og bræðslusíldarverð batnar ekki, þá hlýtur að draga úr síldveiðum næsta sumar. En í sambandi við útflutning á kældum fiski, væri sjálfsagt að gera tilraunir með útflutning á nýrri síld. Ég geri ráð fyrir, að það minnsta sem gagn er að til að byrja með, séu 4–6 skip. Ef tilraunin gæfist vel, tel ég víst, að leiguskipunum yrði fjölgað, enda nú auðvelt að fá skip á leigu með góðum kjörum. Það skal tekið fram, að ég álít ekki útilokað, að ríkisstj. gæti samið við skipafélag eða félög um að taka að sér flutninga. Má vera, að Eimskipafélagið vildi taka þetta að sér. Fyndist mér rétt að rannsaka það. Óska ég svo, að frv. verði vísað til sjútvn.