21.03.1931
Neðri deild: 30. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í C-deild Alþingistíðinda. (1998)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Sveinn Ólafsson:

Ég get verið hv. flm. þakklátur fyrir að koma fram með þetta frv., enda þótt ég sé honum ekki sammála í öllu um aðferðir og fyrirkomulagsatriðin við byrjunina. Ég heyrði ekki nema nokkurn hluta af ræðu hans, en mér heyrðist á hv. flm., að ýms erindi hefðu borizt þinginu, sem lytu að sama efni. Það er víst, að til og frá um landið eru allmikil tilþrif í þá átt að koma á kæliflutningi fiskjar eða sendingu ísfiskjar, eftir því, sem við horfir í hvert sinn og á hverjum stað. En þetta er fyrsta erindið, sem þinginu berst í frumvarpsformi og með ákveðnum fyrirmælum um það, hvernig framkvæmdum skuli haga. Ég verð að segja, að mér þætti æskilegast, eins og hv. 2. þm. G.-K. tók fram, að þetta mætti takast með fulltingi útvegsmanna sjálfra og án þess að stofna ríkissjóði í alvarlega áhættu þegar í byrjun. En ef það sýndi sig, að einstaklingsframtakið næði ekki því marki, sem til er ætlazt, eða að tilraunirnar mistækjust, þá mundi ég telja sjálfsagt, að ríkissjóður styddi að því, að koma þessu í framkvæmd og legði lið við fyrstu tilraunir og undirbúning. Í þessu efni, eins og endranær, skiptir mestu að hjálpa einstaklingunum til að hjálpa sér sjálfum.

Með því móti væri þó fyrirfram hægt að meta þá hættu, sem ríkissjóður tæki að sér, en hún verður ekki fyrirfram metin, ef ætti að fylgja fyrirmælum frv. um þetta. Því ef ríkið á annað borð tæki að sér rekstur á nokkrum skipum, þá tel ég víst, að kröfur mundu berast úr fiskiverum landsins um atbeina í ýmsum myndum. Ég óttast helzt, að þær kröfur leiddu til of mikillar áhættu fyrir ríkissjóðinn. En að sama skapi yrði kannske minna um framkvæmdir hjá einstaklingunum en annars, því að þeir vörpuðu áhyggjum sínum á forsjón ríkisins.

Ég vildi aðeins koma fram með þessar bendingar, áður en lengra er komið málinu.