21.03.1931
Neðri deild: 30. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í C-deild Alþingistíðinda. (1999)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég býst við, að það verði eins um þetta mál og ýms önnur, að mig og hv. 2. þm. G.- K. greini mjög á um, hvort heppilegra sé að treysta eingöngu á einstaklingsframtakið eða hið opinbera skerist í leikinn að meira eða minna leyti. Mín skoðun er sú, að einmitt fyrir það, að einstaklingsframtakið hefir verið látið leika lausum hala og verið einrátt um þessi mál, sé komið eins og komið er. Hitt get ég vel skilið, að hann sé sjálfum sér samkvæmur í því að halda, að því lánist að ráða fram úr þessum vanda. Ég hefi ekki trú á því, að það takizt, a. m. k. ekki eins vel og því opinbera, ef tekið er tillit til hagsmuna alls almennings í landinu.

Reyndar er hér ekki um tvennt andstætt að ræða. Því að þótt frv. verði samþ. og stj. noti heimildina og komi á ferðum með t. d. 6 skipum eða fleiri, þá er samt nægilegt svigrúm fyrir einstaklingsframtakið í landinu til þess að reyna líka þessa aðferð.

Hv. þm. segir, að þær tilraunir, sem byrjað hafi verið á, beri þess glöggan vott, að einstaklingsframtakinu sé til þess treystandi að ráða nokkurnveginn fram úr vandanum. Ég verð alveg að vefengja þetta. Ég verð þvert á móti að álíta, að það, sem gert hefir verið af einstaklingum í ár, sýni, að það, sem þeir gera til þess að leysa málið, verði alltaf ófullnægjandi.

Þetta frv. á að hjálpa bátaútvegsmönnum, sem eiga þess engan kost að koma sjálfir hver í sínu lagi afla sínum kældum til útlanda. Þeir geta ekki eins og nú standa sakir leigt sér skip og haft menn til þess að selja fyrir sig í útlöndum. Ég játa, að togarafélög, sem ráða yfir mörgum skipum, geta þetta. En þetta frv. er flutt til að liðsinna bátaútvegsmönnum, en ekki togaraeigendum. Ekki neita ég því, að svo geti farið, að einhverjir framtakssamir menn gerist til þess að senda skip öðru hverju hingað til lands, til þess að kaupa nýjan fisk af bátaútvegsmönnum. En slíkt væri þá auðvitað gert í því skyni einu að græða á kaupunum, en ekki til þess að hjálpa þeim. Er því hætt við, að lítt yrði á slíku byggjandi fyrir smábátaeigendur og fiskimenn yfirleitt.

Ég skal þá drepa á annað atriði, sem hv. þm. nefndi. Hann sagði, að ég hallmælti togaraeigendum fyrir stöðvun flotans, en viðurkenndi þó, að stöðvunin hefði verið nauðsynleg. Minni helmingurinn af þessu er sannleikur, en stærri helmingurinn hrein ósannindi og tilbúningur. Ég hallmælti togaraeigendum fyrir að stöðva togarana, þótt saltfiskverðið væri lágt. Sýndi fram á, að ísfiskurinn hefði í vetur selzt svo vel, að það hefði áreiðanlega borgað sig vel fyrir togaraútgerðarmenn að gera út á ísfisk, ekki sízt þegar þess er gætt, að togararnir gátu fyllt sig á fáum dögum með því að kaupa bátafisk frá ýmsum stöðum á landinu til viðbótar, og þannig alltaf komið út með glænýjan fisk. En íhaldssemi togaraeigenda sumra virðist svo rík, að þeir eru ófáanlegir til að lengja ísfiskveiðitímann, þótt gróði virðist alveg viss. Hv. þm. talaði um, að febrúarmánuð hefði verið slæm sala. En meðalsala ísfiskjar hefir þó á þessu ári orðið miklu betri en áður. Mér er óskiljanlegt, að það hafi verið af fjárhagslegum ástæðum einum, að togararnir voru stöðvaðir. Seinasti togarinn seldi fyrir £1700, annar fyrir £1100–1200 og enn annar fyrir £1200–1300. Það kann að vera, að þeir hafi hitt vel á. En ég man ekki eftir neinni sölu, sem er undir £700. (MG: Einn á £375!). Já, en þá mun hafa staðið sérstaklega á. Og ég er undrandi yfir því, að ef einstaklingsframtakinu er eins vel treystandi og hv. þm. lætur, þá skuli togararnir hafa verið bundnir allan þennan tíma.

Hv. þm. tók svo til orða, að meðan ekki væri útséð um, hvort einstaklingsframtakinu tækist ekki að leysa þetta verkefni vildi hann ekki, að ríkissjóður hæfist handa. Ég er á gagnstæðri skoðun um þetta. Biðin getur orðið okkur löng og dýr, lengri og dýrari en svo, að við þolum hana. Og ég hygg, að einstökum fiskkaupmönnum geti ekki lánast eins vel að leysa vandræðin og ef hið opinbera hjálpar fiskimönnunum sjálfum til þess að koma aflanum á markað.

Hv. þm. talaði um tilraunir eins fyrirtækis með útflutning á frosnum fiski. Mér er ekki vel um þær kunnugt, en vel má vera, að það hafi mikið og gott verk unnið, þótt ekki sjáist árangurinn enn, og tel ég líklegt, að hann komi í ljós síðar. En eftir því, sem ég bezt veit um verzlun með frosinn fisk, þá hygg ég, að þessi breyting á verzluninni hljóti að taka langan tíma og kosti mikið fé og ýmsar aðgerðir. Eftir því sem ég bezt veit, er tryggasta sala á frosnum fiski þannig, að fiskurinn sé seldur beinlaus, skorinn niður í stykki og pakkaður í söluumbúðir af ákveðinni þyngd. Mér er sagt, að eitthvað sé líka selt af fiskinum heilum, en yfirleitt aukist eftirspurnin því nær eingöngu eftir beinlausum frosnum fiski. Þetta kostar verksmiðjur til að vinna úr úrganginum í sambandi við íshúsin, og auk þess þarf að vera nóg af íshúsum, kælivögnum og sölubúðum með kælitækjum í neyzlulöndunum. Og það tekur að sjálfsögðu tíma að koma þessu öllu í lag. En ég er sammála hv. þm. um, að ef skipulega er að þessu unnið, þá megi tryggja sér sölu á talsvert miklu af fiski á þennan hátt. Ef þetta lánast, er opnaður markaður, ekki aðeins við hafnarborgir, heldur og inni í meginlöndunum.

Hv. þm. taldi, að meginhættan, sem lögð sé á ríkissjóð, stafi af ábyrgð fyrir kælihúsbyggingum. Það er rétt, að skv. frv. má ábyrgðin fara upp í allt að 50% af stofnkostnaði. En ég vil benda þessum þm. og öðrum á það, að í frv. er ráðgert að endurskoða lögin þegar á næsta þingi. Ég er ekki nægilega kunnugur þessum málum til þess að vita, hvort brýn nauðsyn er strax í byrjun til þess að hafa frystihús viðar en nú er. Má vera, að á flestum stöðum, þar sem um útflutning yrði að ræða, séu til íshús, svo að þar mætti geyma fiskinn milli ferða. Auk þess er hér aðeins um heimild að ræða, sem ekki er ástæða til að óttast, sízt á þessu eina ári.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði að ýmsu svipað og hv. 2. þm. G.-K., og kvaðst sérstaklega vera því mótfallinn, að ríkissjóður tæki að sér nokkrar aðgerðir eða áhættu, meðan allt væri á tilraunastigi. Ég álít hinsvegar, að meðan þetta mál er á tilraunastigi, sé brýnust þörf til að létta hér undir af hálfu hins opinbera og stuðla að því, að tilraunir séu gerðar, sem ætla megi, að komi að einhverju haldi.

Hv. þm. sagði, að ástæðan til þess, að verðmæti fiskafla Englendinga væri þrefalt hærra pr. kg. en afla Íslendinga væri sú, að þeir hefðu meira af flatfiski en við. Nokkuð er eflaust til í þessu, en þó er ekki nema örlítið, sem munar á þessu. Megin-verðmunurinn skapast af því, að fiskur þeirra er mestur seldur nýr eða ísvarinn. En ég er honum sammála um, að það væri líklegt til þess að gera okkar afla verðmeiri að veiða meira af kola, lúðu og þess háttar fiski. En þann tíma árs, sem dragnótaveiðar eru bannaðar, er lítils að vænta af kola. Þess vegna hefi ég borið fram frv. um að lengja tímann, sem dragnótaveiðar eru leyfðar, upp í 7 mánuði á ári. Myndi þá kolaveiðin án efa aukast mjög, og það verða til að hækka meðalverð aflans, sem seldur er í ís.

Það er líka alveg rétt hjá hv. þm., að vinna við saltfiskinn er talsvert meiri en við ísfisk. Ennþá er þó óséð, hve mikil vinna verður við ísvarinn fisk. Það fer eftir því, hvort fiskurinn verður fluttur í stíum eða í kössum. Þetta er framkvæmdaratriði, og er ekkert um það sagt í frv. En mér er sagt, að það borgi sig betur að leggja góðan fisk í kassa, þótt það verði nokkru dýrara.

Hv. þm. sagði, að þrátt fyrir ítarlegar tilraunir fengist hvergi jafngóður saltfiskmarkaður og á Spáni og þar í kring. Þetta undirstrikar bara, hvílíkt óvit það er að byggja jafnmikið á saltfiskmarkaðinum og gert hefir verið til þessa, úr því Spánarmarkaðurinn, sem nú bregzt, er beztur og öruggastur.

Hv. 1. þm. S.-M. tók þessu frv. vel í orði eins og reyndar hinir tveir líka. En hann óskaði þess mjög, að einstaklingsframtakinu lánaðist að leysa þennan vanda, þannig að ekki þyrfti að koma til kasta ríkisins. Ég hefi bent á það áður, að þó að þetta frv. verði samþ., þá er engu að siður opin leið fyrir allt einstaklingsframtak, sem nokkrar líkur eru til að láti sig varða þessi mál, til að sigla skipum með ísvarinn fisk og kaupa í þau. En með þessu er þeim bátaeigendum, sem sjálfir eiga þess ekki kost að koma aflanum í verð í útlöndum, gert það kleift.