23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í C-deild Alþingistíðinda. (2003)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Sigurjón Á. Ólafsson:

Enda þótt hér sé um að ræða 1. umr. þessa máls og þess vegna kunni að líta út fyrir, að óþarft sé að lengja hana mjög, þá vildi ég samt fara nokkrum orðum um þetta frv., sem talið var af einum hv. þm. vera eitthvert mikilvægasta mál þingsins. Eru það þó sérstaklega nokkur ummæli hv. ræðumanna og undirtektir þeirra undir þetta mál, er gefa mér ástæðu til að kveða mér hljóðs, svo og afstaða hv. form. sjútvn., er hann fann ástæðu til að lýsa nú þegar.

Eins og ástatt er um markað fyrir íslenzkan fisk í útlöndum, verður eigi sagt, að það sé í ótíma, að athugað sé þetta mál, og mér finnst einmitt, að með þessu frv. sé farin heppilegasta leiðin í öllum höfuðatriðum, sem um er að ræða, því með því er einmitt ákveðið, að framleiðendur fiskjarins fái jafnan sannvirði fyrir hann. Þetta er meginhugsun frv., og til þess að hún komist í framkvæmd, er með frv. gert ráð fyrir, að ríkisvaldið gripi hér í taumana. Komið hafa fram raddir á móti frv., sem telja, að heppilegra sé, að einstaklingum sé ætlað að sjá fyrir útflutningi fiskjarins.

Mér dettur í hug að benda á það, að ekki eru mörg ár síðan megn óánægja var hér í landi yfir því, að saltfiskverzlunin skyldi vera á höndum erlendra manna og þar með, að arðurinn af henni færi út úr landinu. Meðfram út af þessu fóru Íslendingar smátt og smátt að taka saltfiskverzlunina að nokkru í sínar hendur. Af hálfu Íslendinga eru tvö félög enn, sem hafa meginhluta þeirrar verzlunar í sínum höndum, og fulltrúar þeirra félaga eru andmælendur frv. Ég er ekki í neinum vafa um það, að farsælla hefði verið fyrir fiskframleiðendur, að landið hefði þá tekið verzlun á saltfiski í sínar hendur. Annars var það ekki ætlun mín að fara að gagnrýna saltfiskverzlunina hér að þessu sinni.

Ef nú ekki verður horfið að því ráði, að ríkið styðji viðleitni smærri útvegsmanna um útflutning á nýjum fiski, er mjög líklegt, að rík erlend félög sjái sér leik á borði með að ná þessari verzlun í sínar hendur. Það er meira að segja þegar farið að brydda á þessu, því bæði Englendinaar og Þjóðverjar hafa sent hingað togara til þess að kaupa fisk af útgerðarmönnum í einstökum verstöðvum smábáta nú á síðustu vetrarvertíð. Það má nærri geta, að þessar ferðir útlendinga hingað til þess að kaupa fisk eru farnar í von um hagnað, því vitanlega dettur engum í hug að fara að senda skip sín til að sækja vörur til annara landa í öðrum tilgangi en að græða á þeim siglingum, og sá gróði er vitanlega tekinn af framleiðendunum hér í stærri og minni stíl.

Með frv. er farið fram á það, að tryggja framleiðendum sannvirði fyrir fiskinn eins og fyrir hann fæst á erlendum markaði, að frádregnum kostnaði við að koma honum þangað og selja hann. Áhætta ríkissjóðs af ákvæðum frv. yrði ekki ýkja mikil. Það er gert ráð fyrir því, að ríkið kaupi eða leigi skip til þess að flytja út nýjan fisk, sem aðallega er aflaður á smábáta. Hvora leiðina væri rétt að fara, geta náttúrlega verið skiptar skoðanir um; má vel vera, að réttara sé að svo stöddu að leigja skipin þangað til reynsla er fengin um það, hver stærð skipa væri heppilegust o. s. frv. Kostnað af rekstri skipanna yrði auðvitað að leggja á fiskinn, er þau flytja, en að þessu sinni skal ég ekki fara lengra út í það atriði.

Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að komið geti til mála að ríkið styðji menn til að byggja kælihús í kaupstöðunum í sambandi við þennan útflutning. Mér virðist að þessi krafa sé mjög eðlileg, og þarf raunar ekki að setja hana í samband við það, hvort ríkissjóður eða einhverjir aðrir önnuðust útflutning fiskjarins, því þörfin fyrir frystihúsin eða kælihúsin væri hin sama, hvort sem væri, — því sennilegast er, að útvegsmenn yrðu að koma þessum húsum upp, án tillits til þess, hver útflutning og sölu fiskjarins hefði með höndum. Um það verður ekki deilt, að í sambandi við útflutning á nýjum fiski þarf vitanlega kælihús.

Það er einkennilegt, að ákveðnustu andmælin gegn þessu frv. hafa einmitt komið frá hv. þremur þm., sem eru togaraeigendur. Það er engu líkara en að þeim finnist, að með þessu frv. sé á einhvern hátt stefnt til sín og þess atvinnurekstrar, er þeir nú reka. En þetta er algerður misskilningur, því að með frv. er eingöngu átt við smærri útvegsmenn, og því ekkert seilzt inn á þeirra verksvið.

Hv. þm. G.-K. hélt því fram, að ríkið ætti ekki að blanda sér inn í þetta mál, heldur ætti að láta einstaklingana um það. Ég held ég verði að svara hv. þm. með því, að einstaklingunum muni alls ekki vera treystandi til þess að gera neitt í þessu máli, er að fullun notum mætti koma, eða leysa það á nokkurn þann hátt, sem bezt mætti henta. Það er því eðlilegt, að slá því föstu, að hagnaðurinn af því að flytja fiskinn nýjan út mundi eingöngu renna til þeirra manna, er flyttu hann út, en ekki til þeirra, er afla hans. Ein sterk ástæða til þess, að hafizt verði handa í þessu efni, er einmitt sú, að með útflutningi á nýjum fiski yrði nokkuð létt á saltfiskmarkaðinum, sem sannarlega veitir ekki af, eins og viðurkennt er. Aftur á móti eru skilyrði fyrir markaði á nýjum fiski nálega ótakmörkuð. —

Í skýrslu, er birzt hefir í tímaritinu Ægi, er sagt frá því, að fiskneyzla á mann í Englandi sé 30 kg. yfir árið, í Þýzkalandi 10 kg. á mann, en í Japan 100 kg. á mann, en þar býr fiskiveiðaþjóð mikil. Það virðist ekki svo óálitlegt fyrir okkur Íslendinga að selja okkar holla og góða fisk til þessara milljónaþjóða, og það er augljóst, að við eigum í framtíðinni það verkefni fyrir höndum að kenna þeim að borða og meta að verðleikum þessa hollu og góðu fæðu.

Ég hefi nú lýst skoðun minni á þessu frv. í aðalatriðum, en hirði eiga að fara út í einstök atriði, þar sem ég á líka sæti í þeirri nefnd, er ég geri ráð fyrir, að fái þetta frv. til meðferðar.

Ég vildi áður en ég lýk máli mínu fara örfáum orðum um þá vítaverðu ráðstöfun útgerðarmanna fyrir skemmstu, sem hefir verið reynt að verja hér í deildinni, sem er stöðvun togaraflotans, og sem er reynt að verja með þeirri afsökun, að með stöðvuninni hafi verið reynt að draga úr saltfiskframleiðslunni. Það liggur í augum uppi, að frá sjónarmiði heildarinnar er hér um sannarlega vandræðaráðstöfun að ræða, svo ekki sé kveðið sterkara að orði. Það er vitanlegt, að fiskveiði til söltunar stendur oft fram í miðjan júní, en síðari hluta tímabilsins er fiskurinn, sem veiðist, ætíð rýrari og verðminni. Það sýnist vera augljóst mál, að hafi eigi verið fært að láta togarana veiða allan tímann, þá lá þó nær að draga úr veiðinni þann tímann, sem veiðin er verðminni og lélegri. En ég lít hinsvegar svo á, að lítil nauðsyn hafi verið til þessa, hvað minnkun framleiðslunnar snertir. En þó ég með öllum vilja líti á málið frá sjónarhól útvegsmanna, þá er þess að geta, að á þeim sama tíma, sem stöðvun togaranna stóð yfir, var ágætur markaður fyrir nýjan fisk í Englandi og auðséð, að fisksala togaranna þar mætti veita útgerðarmönnum og heildinni mikil verðmæti og sjómönnunum fasta atvinnu. (ÓTh: Var þetta allt vitanlegt fyrirfram?). Já, það var vitanlegt, að í Jökuldjúpinu er alltaf nógur fiskur á þessum tíma árs, er afla má á örskömmum tíma og flytzt því óvenjulega nýr á markað erlendis. Ráðstöfun þessi var engum til hagnaðar og því óverjandi, en hún var til skaða fyrir alla aðila.

Þá hefir verið minnzt á þær tilraunir, sem hafa verið gerðar með útflutning á saltfiski til Suður-Ameríku og útgerðarmenn hafa staðið fyrir. Þær hafa síðastl. ár heppnast mjög illa, en það er ekki sök útflytjenda hér, þó að íhald þess lands sé nú búið að sigla öllum viðskiptamálum í strand í ríki sínu.

Annars langar mig til að spyrja hv. 2. þm. G.-K. um tilraunir þess félags, sem hann er mikið riðinn við, til þess að flytja út kældan fisk, og sömuleiðis vildi ég spyrja hann sem sérstaklega kunnugan mann, að hve miklu leyti hið stóra sænska frystihús, sem reist var hér í Reykjavík fyrir nokkrum árum, hefir uppfyllt þær vonir, er menn gerðu sér um nytsemi þess. Mér er sagt, að það sé nú svo fullt af freðnum fiski, að þar verði engu við bætt, og að þann fisk eigi útgerðarfélag hv. 2. þm. G.-K. Menn skilja yfirleitt ekki þessa ráðstöfun, en ég beini fyrirspurninni til hv. þm., af því að kunnugt er, að allnáið samband er milli hv. þm. og þess félags, er á frystihúsið. Enda hefir hv. þm. látið þá skoðun uppi, að hann vænti mikils af útflutningi á frosnum fiski eftir þeirri aðferð, sem þetta hús notar. En því er það ekki starfrækt nú?

Þá var nokkuð minnzt á kolaveiðar af sumum hv. andmælendum frv. sem eina aðaltegund af útflutningsfiski samkv. frv. Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að lítið væri hægt að veiða af honum vegna takmarkana frá löggjafarinnar hendi. Nú eru hér á landi um 40 togarar, sem vitanlega hafa alveg sömu aðstöðu og útlendir togarar um kolaveiðar utan landhelginnar. En nú má sjá af nýjustu skýrslum, að Englendingar veiða hér við land allt að 10 þús. smálestir af kola á ári, en Íslendingar aðeins 6–700 smál. Þessi mikli mismunur getur ekki legið í stærðarmismun á flotanum sjálfum hjá okkur og Englendingum, heldur í því, að okkar togarar leggja minni áherzlu á að afla þessa verðmæta útflutningsfiskjar. Það er því auðséð, að Bretar leggja mikla áherzlu á að veiða flatfisk. Og slíkt ætti að vera einmitt hagkvæmt fyrir okkur líka á þeim tíma, sem þorskurinn er minnst verðmætur til söltunar, eða á þeim tíma, sem minnst veiðist af honum og sala á ísvörðum fiski er hagkvæmust. En út í þetta skal ég ekki fara frekar að sinni. Til þess gefst væntanlega tækifæri síðar, undir umr. um annað mál, er væntanlega verður til umr. hér í deildinni.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að algert bann væri gegn því að veiða kola í landhelgi. Þetta er nú ekki rétt. Hinsvegar hefi ég ekki upplýsingar um það, hve mikið smábátar veiða af kola innan landhelgi á þeim tíma, sem þeim er það leyfilegt.

Hv. þm. minntist á tilraunir, sem gerðar hafa verið með útflutning á nýjum fiski, og taldi, að tap hefði orðið á þeim tilraunum. Ég vil ekki deila við hv. þm. um, að þetta hafi getað átt sér stað, en því má ekki gleyma, að þær tilraunir, sem gerðar hafa verið, hafa flestar verið með gömlu aðferðinni, að ísa í skipin sjálf. En ég vil aðeins benda á, að samvinnufélag Ísfirðinga hefir meðal hinna fyrstu gert tilraun með að flytja út ísvarinn fisk, aflaðan á lóð af bátum fyrir vestan. Á ég þar við farminn með Esju um síðustu áramót. Sá fiskur var fluttur út í kössum; var fiskurinn þannig fluttur óhreifður úr kössunum til neytenda í London og víðar. Fiskurinn var seldur mjög háu verði, miðað við venjulegt markaðsverð. Ég veit ekki til, að fleiri hafi reynt að flytja út fisk á þennan hátt í stærri stíl. Eftir viðtali, sem ég hefi átt við menn, sem flutt hafa út ísvarinn fisk í lest, eins og venja er til á togurum, þá hefi ég sannfærzt um það, að sá fiskur, sem verður að umskipast þannig, er miklu frekar háður aðfinnslum kaupenda, og þar af leiðandi fæst minna verð fyrir hann, meðfram af því, að á hann er litið eins og hvern annan togarafisk. En þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til þessa, eru einmitt gerðar á þennan hátt að mestu leyti.

Hv. þm. N.-Ísf. benti á, að nauðsynlegt væri vegna enska markaðarins, að útflutningurinn væri miðaður við ýsu og flatfisk. Það er rétt, að þessar tegundir eru verðmætastar á enskum markaði. En góður þorskur er líka verðmætur á þeim markaði oft og einatt, þegar hæfilegt framboð er af fiski. En vitanlega verður verðfallið fyrst á honum, vegna þess að mest veiðist af honum á flestum tímum árs, eins og kunnugt er. En tilraunir um útflutning fiskjar af innlendum smábátum eru svo skammt á veg komnar enn, að þær gefa enga hugmynd um hvernig þeim muni bezt fyrir komið. Er því nauðsynlegra að gera tilraunir, er byggjast á fullkomnum útbúnaði og skipulagi, er séu sniðnar með hagsmuni smábátaútvegsins fyrir augum.

Hv. þm. benti á það í sambandi við það, sem hann talaði um flatfiskinn, að Færeyingar hirtu bróðurpartinn af þeim fiski hér við land. Þetta er ekki rétt. Það hefir a. m. k. ekki verið svo síðastliðin ár, meðfram vegna þess, að þeir geta ekki hagnýtt sér veiðarnar innan landhelgi, vegna þeirra takmarkana, sem á þeim eru.

Hv. 1. þm. S.-M. virtist vilja frekar hníga að því ráði, að betra væri fyrir ríkissjóð að greiða halla, sem yrði á þeim tilraunum, sem einstaklingar gerðu, heldur en að ríkið styddi smábátaútvegsmenn í viðleitni til þess, að þeir sjálfir komi fiskinum á markað erlendis. Ég er honum ósamþykkur í þessu, eins og ég er honum ósamþykkur um að lýsa nokkru yfir, sem bindur nefndina í þessu máli. Ég held, að nógu mörg milljónatöp séu þegar orðin á ýmsum þeim sviðum tilrauna, sem einstaklingar hafa verið riðnir við á undanförnum árum, þótt ekki sé bætt við nýjum milljónatöpum. Ef hv. þm. lítur í kringum sig, þá mun hann koma auga á nóg af slíkum stórtöpum, og það jafnvel í sínum eigin fjórðungi. Er einkennilegt, ef hann vill bæta við þær upphæðir meiru en orðið er og hægt er að komast hjá.

Ég mun svo ekki fara lengra út í þetta að sinni. Ég veit ekki, hvert fylgi frv. þetta kann að hafa hér í deildinni. Það kemur í ljós síðar. Hér er um það að ræða, hvort varpa beri allri sinni áhyggju upp á einstaklingsframtakið eða þá að ríkið geri skipulagsbundna tilraun til bjargar smáútgerðinni. Ég álít, að á þessu sem öðrum sviðum muni ríkið verða miklu drýgra til að hjálpa smærri framleiðendum. Í því sambandi má minna á það, að ríkið varð að skipulagsbinda síldarsöluna. Ég býst ekki við, að neinn hv. þm. æski þess, að erlendir auðhringar eða innlendir spekúlantar verði látnir sitja að arðinum af útflutningi ísvarins fiskjar og veita þeim þannig aðstöðuna til þess að arðræna alla fiskimenn og smábátaútvegsmenn landsins.