23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í C-deild Alþingistíðinda. (2006)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Benedikt Sveinsson:

Það hefir mikið verið talað um, að þessar umr. væru óþarfar og að sízt ættu menn úr sjútvn. að taka til máls. Á þetta get ég ekki fallizt. Það kemur öllum saman um, að hér er um nýmæli að ræða, sem flestum er áður lítt kunnugt. Menn hafa enn ekki komið á föstu fyrirkomulagi um leit nýrra markaða. Eins og þegar hefir verið tekið fram, hafa ýmsar málaleitanir í þessu efni borizt þinginu. Og þar sem hér er um að ræða nýmæli, þá er sérstök ástæða fyrir nefndina að fá að heyra skoðanir manna, sem tala frá ýmsum sjónarmiðum, til þess að hún megi kynnast skoðunum þeirra, er helzt hafa um það hugsað, til þess að hafa þær til athugunar og hliðsjónar við störf sín, þegar hún tekur málið fyrir. Mér finnst ekki á glæ kastað þeim tíma, sem varið hefir verið til að ræða þetta mikilsverða mál hér í deildinni einmitt nú við 1. umr., til þess að málið verði því betur undirbúið, er til 2. umr. kemur.

Það þýðir lítið að fleygja vandasömum nýmælum í nefnd, sem hefir ekki nema 1. klukkustundar fundartíma annanhvern dag, til þess að hún leysi úr þeim málum án þess að áður hafi fram farið rökræður í deildinni, svo sem þingsköp ætlast og til.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu, aðeins drepa á fáein atriði, sem hafa komið fram við umr. Eins og tekið hefir verið fram og flm. tók fram berum orðum, telur hann frv. frumsmið, sem standi til bóta.

Til þess eru umr., og sést bezt, að ekki er vanþörf á þeim, á því, hve sundurleitar skoðanir menn hafa um málið. Fyrst og fremst kemur mönnum ekki saman um, hvernig bezt sé að koma fyrir útflutningi á nýjum fiski, hvort hann eigi að vera frystur eða ísaður, laus í ís eða í kössum af ákveðinni stærð. Eins og hefir verið tekið fram, hefir hér verið ráðizt í stórfyrirtæki af útlendingum, um að flytja út frystan eða kældan fisk. Ég hefi heyrt, og ekki sízt utan þings, að menn hafi heldur misst trú á þeirri aðferð. Ég legg samt engan dóm á það, lítil reynsla fengin enn fyrir því, hvernig reiði af tilraunum þess fyrirtækis. Einnig hafa menn flutt út nýjan fisk með tvennu móti. Annaðhvort með því að hafa hann lausan í lestinni, og er hann þá verr farinn en með hinni aðferðinni, að flytja hann í smákössum. Með þeim hætti merst hann síður og ísinn helzt betur að; svo er fiskurinn þá ekki seldur í sjálfum höfnunum, heldur fluttur á járnbrautarlestum og seldur inni í landi. En sá ljóður er á þessari aðferð, að kostnaðurinn er mikill, umbúðirnar eru dýrar og fyrirferð aflans verður meiri í lestum skipanna. Hver kassi tekur ekki nema 50 kg., og mér hefir verið sagt, að kassarnir kosti nú 7 kr., og þeir koma stundum ekki aftur, svo að kaupa þarf ógrynni þessara kassa. Sennilega mætti fá kassana nokkuð ódýrari, ef farið væri að gera þetta í stærri stíl. Svo er líka sá kostur við þessa aðferð, að flytja fiskinn í kössum, að þá er líklegra, að hægt sé að fá betra og hærra verð, svo að vinnast megi upp að meira eða minna leyti sá viðbótarkostnaður, sem á fiskinn leggst með dýrari umbúðum, meiri vinnu o. fl.

Ég ætla aðeins að víkja að nokkrum atriðum, sem ef til vill verða gerðar frekari skýringar við, og ég vildi benda á, að ekki voru alveg rökrétt hjá þeim, sem báru þau fram.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) sagði, að þingið hefði bannað að veiða kola með því eina veiðarfæri, sem hægt væri að veiða hann í. Þetta þykir mér undarlegt að heyra úr þessari átt, þar sem um svo reyndan mann er að ræða viðvíkjandi fiskveiðum og útflutningi á fiski. Hvernig stendur á því, að Englendingar veiða utan landhelgi mikið af ýmsum kolategundum, miklu meira en Íslendingar gera? Þeir nota sömu veiðarfærin sem Íslendingar utan landhelgi. (ÓTh: Þeir veiða hann allan í landhelgi). Ekki er því haldið fram í skýrslu fiskifræðingsins, að þeir veiði kolann innan landhelgilínunnar, heldur er þar byggt á því sem sjálfsögðu, að hann sé veiddur utan landhelgi, enda heldur kolinn sig mest þar, þegar hann er vaxinn upp. Ef þessi fiskur er svo dýrmætur, sem hv. þm. (JÓl) sagði, hvers vegna veiða þá Íslendingar fisk, sem lítið fæst fyrir, á sama svæði sem Englendingar veiða dýran fisk? Það hlýtur að stafa af því, að Íslendingum þykir borga sig betur að veiða annan fisk.

Íslendingum er í lófa lagið að veiða hlutfallslega til móts við Englendinga af kola hér við land, því að þeir hafa jafngóð veiðarfæri og eru engu ókunnari fiskigöngum hér en Bretar. Það er því hreinasti óþarfi að kenna því um, að íslendingum standi fyrir þrifum að bönnuð er dragnótaveiði í landhelgi hluta úr árinu, úr því að aðrar þjóðir geta veitt kolann utan landhelgi sér til hagsmuna.

Það er eins og það gægist alstaðar fram, að kolinn sé verðmætari, ef hann er veiddur innan landhelgi heldur en utan. En annars fæ ég kannske tækifæri til þess að minnast nánar á þetta atriði síðar.

Kolanum hér við land er skipt í smákola, miðlungskola og stórkola. Fyrir nokkrum árum var aðeins 1% af öllum þeim kola, sem veiddist, smákoli, en nú er það 22%. Stóri kolinn gengur mjög til þurrðar, eins og sjá má á þessu, og má búast við, að hann fari mjög bráðlega eins og heilagfiskið, ef farið er einnig að urga hann upp úr griðastöðum landhelginnar.

Hv. 4. þm. Reykv. lagði nokkra áherzlu á það, að erlend félög væru farin að stunda kaup á fiski hér, og mundu þau því aðeins gera það, að þau hefðu arð af því, en sá arður mundi falla til landsmanna, ef þeir flyttu fiskinn út sjálfir. En þessi útflutningur er enn í svo smáum stíl, að ekkert verður um það sagt, hvort það muni borga sig fyrir Íslendinga að halda úti þremur föstum skipum til þess að flytja fiskinn út, þótt fáein útlend skip hafi stundum haft arð af tækifæriskaupum á nýjum fiski í einstaka beztu veiðistöðum.

Hann tók það og fram, að enn væri óséð, hverskonar skip væru hentugust til þessara ferða. En það verður ekki unnt að ákveða fyrr en reynslan hefir sýnt það. Allmikla reynslu höfum vér þó, þar sem togarar vorir ganga alllangan tíma hvers árs til Englands með ísfisk.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að útlendingar hefðu meiri reynslu og þekkingu á þessu til þess að renna á vaðið. Það er að mörgu leyti rétt. En ég veit ekki, hvernig hann hugsar sér að koma því fyrir, að fá þá til að koma hingað og kaupa hér fisk víðsvegar á smáhöfnum eftir föstum ferðaáætlunum.

Ég ætla ekki að segja meira um þetta að sinni, en skal geta þess, að mér þykir vænt um ýmsar þær aths., sem hér hafa verið gerðar, því að þær gera nefndinni hægara fyrir að ráða fram úr þessum vanda, þegar þar að kemur.