23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í C-deild Alþingistíðinda. (2008)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Sigurjón Á. Ólafsson:

Af því að ég óska eftir, að þessari umr. málsins geti verið lokið í dag, skal ég reyna að vera stuttorður. Vildi ég þó beina nokkrum orðum til hv. þm. Vestm. Honum hefir að vísu verið svarað allrækilega af hv. þm. Ísaf., en af því að sumum atriðum í ræðu hans var sérstaklega beint til mín, ætla ég að svara honum nokkru.

Bæði hv. þm. Vestm. og fleiri hafa látið í ljós, að ekki væri viðeigandi að tala svona mikið um þetta frv. við þessa umr., og hv. þm. Vestm. virtist vilja gefa mér sök á því, að deilt væri hér um málið. En sannleikurinn er sá, að eigi færri en fjórir hv. þm. hafa andmælt frv., að vísu hóflega, allir nema hv. þm. Vestm. Og ég er fyrir mitt leyti sammála hv. þm. N.-Þ. um það, að ekki sé nema gott, að sem flestir láti í ljós álit sitt á þessu máli, áður en það fer til nefndar. Það léttir starf n. að geta vinzað úr ýmsum skoðunum, sem fram hafa komið. Er ég þakklátur hv. þm. N.-Þ. fyrir ýmsar bendingar, er hann gaf í þessu máli.

Hv. þm. Vestm. talaði eins og hann hefði einn vit á þessum hlutum, og brá okkur jafnaðarmönnum um, að við bærum ekki skyn á útflutning fiskjar eða annað, sem útgerð varðar. Þótt við fáumst ekki við fisksölu eða útgerð sjálfir, reynum við þó að fylgjast með þeim efnum eftir föngum, og getum leitað til sérfróðra manna um allt, sem þau mál varðar, og gerum það. Mér er heldur ekki kunnugt um, að hv. þm. Vestm. hafi verið neinn frömuður í því til þessa, að flytja út ísvarinn fisk. Þó að hann tali digurbarkalega, hefir hann enga þekkingu fram yfir okkur hina í þessum efnum.

Hv. þm. Vestm. sagði, að ég hefði látið svo um mælt, að ekki ætti að flytja út nýjan fisk með öðrum skipum en þeim, er ríkið leigði eða keypti. Ég tók það einmitt fram, að nota ætti innlend skip í þessar ferðir, ef til væru og hagkvæmt þætti, t. d. Eimskipafélagsskipin, þegar þau færu beint til Englands. Hitt er annað mál, hvort rétt er að nota fiskiskipin í þessar ferðir eða ekki. Til þess máls get ég ekki tekið fullkomna afstöðu að sinni, hygg þó, að þau séu of dýr í rekstri til þess.

Hv. þm. Vestm. sagði, að með þessu máli væri verið að sparka í okkar gömlu góðu viðskiptamenn í Miðjarðarhafslöndunum. Hv. þm. Ísaf. hefir þegar fullsvarað þessari fjarstæðu. Útflutningur á nýjum fiski miðar einmitt að því að draga úr saltfiskframleiðslunni, sem virðist vera full nauðsyn á, og tryggja þar með fiskmarkaðinn í Miðjarðarhafslöndunum betur en áður. Annars myndi ég ekki harma það, þótt við værum ekki jafnbundnir Spánverjum á þessu sviði og við nú erum. Þeir hafa þegar sett okkur stólinn fyrir dyrnar og þröngvað upp á okkur vinum, og ef aðstaða okkar gæti batnað svo gagnvart Spáni, að við þyrftum ekki að hlíta þeirri kúgun, væri mikið unnið.

Hv. þm. Vestm. sagði, að ekki væri hægt að senda út nýjan þorsk, vegna þess að ekki fengist saltfiskverð fyrir hann. Þetta leyfi ég mér að vefengja. Hér í Reykjavík og á Vestfjörðum hefir þessi fiskur verið keyptur á 12 au. kg. af honum slægðum. Það verður 66 kr. skippundið, ef miðað er við, að það svari til 550 kg. af fiski upp úr sjónum slægðum. — Um þetta efni er farið hér eftir skýrslu Fiskifélagsins. Ef gert er ráð fyrir, að söltun og verkunarkostnaður nemi 22 kr. á skippund og salt 10 kr., ætti saltfiskurinn að vera kominn upp í 98 kr. á skippund. Hv. þm. Vestm. segir, að ekki borgi sig að láta fiskinn fyrir þetta. En mér er þó kunnugt um, að Vestmannaeyingar hafa fengið 2 au. minna fyrir kg. af sínum fiski en borgað hefir verið í Rvík og á Vestfjörðum, og þótt borga sig vel.

Hv. þm. Vestm. sagði, að búið væri að skipuleggja síldveiðarnar, og nú ætti fiskurinn að fara sömu leiðina. En þess er að gæta, að deilan um síldareinkasöluna stendur alls ekki um það lengur, hvorki af hálfu hv. þm. Vestm. eða annara, hvort einkasala skuli vera á síld eða ekki, heldur hverjir ráða skuli einkasölunni. Hv. þm. Vestm. og jafnaðarmenn eru sammála um, að skipulag á síldarsölunni sé nauðsynlegt. Um það er ekki deilt lengur.

Hv. þm. Vestm. sagði, að ég væri hræddur við útlendinga, en þeir hefðu þó orðið að féþúfu fyrir Vestmannaeyjar. Ég skal ekki þræta fyrir, að eitthvað geti verið hæft í því, en mín skoðun er sú, að arður af fisksölu eigi að ganga beint til fiskimannanna sjálfra. Þar eiga að eigast við sá, er framleiðir vöruna, og sá, er kaupir hana. Hlutverk milliliðsins er óþarft hér sem viðast annarsstaðar. Að vísu getur ávalt komið fyrir, að eitthvert tap verði á einstaka farmi, en það getur aftur unnizt upp á næsta farmi, og mikið meira en það. Ég veit ekki, hvort það er satt, en heyrt hefi ég, að hv. þm. Vestm. sé eitthvað í makki við erlent félag um sölu svona fiskjar. Ef þetta er rétt, fer afstaða hans að verða skiljanleg. Hér er þá verið að ganga inn á hans eigin hagsmunasvið?

Eins og ég tók fram í upphafi máls míns, tel ég ekki nema gott, að málið sé rætt frá sein flestum hliðum, áður en það fer til nefndar. Ég vil undirstrika það, að höfuðtilgangur frv. er tvennskonar, að víkka og tryggja fiskmarkaðinn og hjálpa fiskimönnum til að fækka milliliðum og útiloka spekúlanta. Ég vona að þingið beri gæfu til að stuðla að þessu.