19.03.1931
Neðri deild: 28. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í C-deild Alþingistíðinda. (2035)

130. mál, notkun bifreiða

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ákvæði slysatryggingarl. um slysatryggingar bifreiðarstjóra eru mjög óákveðin, og er helzt svo að skilja, að þeir, sem eiga bifreiðar, séu ekki skyldir til að tryggja sjálfa sig fyrir slysum, þó að þeir hinsvegar séu skyldir til að tryggja þá, sem með bifreiðum þeirra aka, fyrir slysum eða skemmdum á eignum. Nú eiga flestir íslenzkir bifreiðarstjórar bíla sína sjálfir, a. m. k. er svo um flestalla vörubílastjóra, og er þetta því mjög óeðlilegt, enda er það ósk bifreiðarstjóra yfirleitt, að þessi skyldutrygging nái til allra, jafnt bifreiðaeigenda sem annara, og höfum við hv. 1. þm. N.-M. því flutt þetta frv. Mætti að vísu bæta þessu inn í slysatryggingarl., en af ýmsum ástæðum þótti okkur flm. hentara að fella þetta inn í þessi lög.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um svo einfalt mál, en vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til allshn., að umr. lokinni.