27.03.1931
Neðri deild: 35. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í C-deild Alþingistíðinda. (2050)

139. mál, mannafli á eimskipum og mótorskipum

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta frv. er búið að vera oft á dagskrá og er því sjálfsagt orðið hv. dm. allvel kunnugt. Í grg. er skýrt frá aðalefni frv. En ég skal bæta nokkrum orðum við. Frv. gengur út á það, að lögfesta mannafla á íslenzkum skipum, smærri sem stærri. Samt er ekkert ákvæði um loftskeytamenn, en það stafar af því, að skip eru ekki skyldug til að hafa loftskeytatæki. Aftur á móti eru sett ákvæði um háseta og kyndara. Og er það álit okkar flm., að það eigi ekki að vera undir hendingu einni komið, hve margir menn eru á skipi. Við viljum láta ákveða með lögum, hvað minnst megi vera á skipi. Í því er falið öryggi fyrir lífi farþeganna, öryggi fyrir skipi og farmi, að nægar hendur séu til bjargar, ef eitthvað ber út af.

Hér hjá okkur má kannske segja, að þetta hafi ekki komið að sök ennþá. Það er ekki hér að ræða um fiskiskipin; þar er yfirfljótanlegt fólk. Heldur eru það flutninga- og farþegaskipin, sem við er átt í frv.

Flestir munu játa, að hér við land eru siglingaleiðir hinar hættulegustu. Og ekki er að efast um, að sigling á norðanverðu Atlantshafi sé hættulegri en sigling um miðbik hnattarins. Frost, byljir og skammdegismyrkur stuðlar allt að því, að hér þarf á okkar skipum marga ötula og vana menn.

Í þessu sambandi vil ég einmitt benda á það, að okkar skip eru yfirleitt verr mönnuð en hjá öðrum þjóðum, enda þótt okkar menn séu harðgerðari og ötulli en flestra annara þjóða.

Vil ég vitna í dönsk skip hér við land, og eru þau betur mönnuð en ísl. skip, sem notuð eru til hins sama, m. ö. o. sigla hingað til lands. Og er mér kunnugt um, að Danir álíta, að fleiri menn þurfi á skip, sem sigla hér við land, en annarsstaðar. T. d. vil ég nefna e/s „Ísland“ Þar eru 9 menn á þilfari og 7 menn í vél, fyrir utan yfirmenn. Á okkar skipum sambærilegum eru 7 menn á þilfari og 5 í vél, þegar flest er.

Norðmenn settu lög um þetta efni 1918 og breyttu þeim nokkuð, er þeir gáfu út reglugerð 1922, þar sem gert er ráð fyrir fleira fólki á skipunum. Danir og Svíar eru nú á löggjafarþingum sínum að ræða löggjöf í svipaða átt og telja, að ekki sé fengið fullt öryggi fyrr en fólki sé fjölgað á skipunum og föst lagaákvæði séu til um þetta. Þessa þarf einnig hjá okkur. Við getum ekki lengur verið eftirbátar annara þjóða á þessu sviði, ef við viljum telja okkur siglingaþjóð.

Þá er hér í frv. og gert ráð fyrir 8 st. vinnudegi úti í sjó. Stefna sú hefir nú mikinn byr úti í heimi, og sumar þjóðir hafa þegar lögfest þetta. Rússar, Ástralíumenn og Frakkar hafa þegar gert það, og í fleiri löndum má búast við, að þetta verði lögfest fyrr en varir. Ef það verður gert hér á næstunni, þá er samkv. þessu frv. hægt að hafa nægan mannafla á ísl. skipum, enda er í frv. gert ráð fyrir lágmarki, sem alltaf má bæta við.

Vil ég svo vænta þess, að málinu verði vel tekið og verði sá sómi sýndur, að það verði látið fara í nefnd. En það yrði þá sjútvn., sem þetta heyrir helzt undir. Vil ég leyfa mér að leggja til, að því verði vísað til hennar að lokinni þessari umr.