27.03.1931
Neðri deild: 35. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í C-deild Alþingistíðinda. (2052)

139. mál, mannafli á eimskipum og mótorskipum

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir þær undirtektir við þetta mál, að hann vill þó lofa því að fara til n. Skal ég reyna að haga orðum mínum þannig, að langar umr. þurfi ekki að verða út af þeim.

Það var ekki nema að nokkru leyti rétt hjá hv. þm., sem hann hafði eftir mér, að aðrar þjóðir væru að koma á hjá sér samskonar löggjöf sem hér er um að ræða. Norðmenn eru t. d. þegar búnir að setja slík lög, og frv. í sömu átt mun nú liggja fyrir þingi Dana og jafnvel Svía.

Hv. þm. hélt því fram, að ég liti ekki á siglingasamkeppni okkar við aðrir þjóðir og áhrifin, sem það mundi hafa á hana að samþ. frv. mitt. En ég gat um það í ræðu minni áðan, að sú þjóð, sem mest keppir við okkur í siglingum, Danir, hefir fleiri menn en við höfum á okkar skipum á skipi, sem sambærilegt er við þau að stærð. Á e/s „Íslandi“ er 38 manna skipshöfn, en á Eimskipafélagsskipunum munu vera 27–28 menn. Ekki þarf að búast við, að Danir fari að fækka á sínum skipum, þó við ákveðum með lögum að fjölga mönnum á okkar skipum. Og þó frv. yrði samþ., þarf ekki að hafa eins marga menn á „Fossunum“ eins og eru á e/s „Íslandi“. Einnig vil ég benda hv. þm. á, að siglingasamkeppnin veltur að litlu leyti á stærð skipshafnanna. Þar kemur aðallega til greina, hvað skipin fá mikinn flutning, vörumagn, farþega, flutningsgjaldið sjálft, og að sjálfsögðu hvernig rekstri skipanna er hagað.

Hv. þm. vildi láta líta þannig út, að ég hafi dróttað að sjómönnum, að þeir gættu ekki skyldu sinnar, þegar þeir standa á verði. Það er langt frá því, að mér hafi dottið slíkt í hug. En því má ekki gleyma, að mjög mikið erfiði er oft lagt á þessa menn, þegar veður eru vond og við ýmsa erfiðleika að stríða, og kjör þeirra mundu batna, ef fjölgað væri á skipunum. Annars gerir frv. ekki ráð fyrir að yfirmönnum sé yfirleitt fjölgað á skipum. Það gerir ráð fyrir einum manni á hvern þriðjung sólarhrings til hvers starfs. Og þrír stýrimenn eru þegar á öllum flutningaskipum okkar, sem fólk flytja. Að því leyti, sem frv. gerir ráð fyrir stærri skipshöfnum en nú er, liggur það helzt í fjölgun háseta og kyndara.

Hv. þm. vitnaði til vökulaganna og kvað þau hafa kostað það, að fjölga hafi þurft mönnum um þriðjung á togurunum. Ég er hissa, að heyra hann halda þessu fram, af því hann á þó að vera þessum málum kunnugur. Það þurfti yfirleitt mjög lítið að fjölga mönnum á togurunum, a. m. k. ekki nálægt því um þriðjung. Nú eru á þeim flestum um 30 menn, en áður en vökulögin gengu í gildi voru það oftast 27–28. Stærstu togararnir munu að vísu hafa yfir 30 menn, en hitt er það algengasta.

Hitt skil ég vel, að hv. þm. sé yfirleitt á móti því að lögbinda nokkuð um þessi efni. Ég benti á, að það væri freisting fyrir þá, sem gera út skip, að fækka skipsmönnum þegar kreppir að. Ég er hv. þm. þakklátur fyrir, að hann játaði óbeinlínis, að svo væri. Það eitt tel ég næga ástæðu til að lögbinda, hvaða mannafli skuli vera á skipum, svo alls öryggis sé gætt í hvívetna.