27.03.1931
Neðri deild: 35. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í C-deild Alþingistíðinda. (2053)

139. mál, mannafli á eimskipum og mótorskipum

Jón Auðunn Jónsson:

Út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði um fjölgun manna á togurunum, þegar vökulögin voru sett, skal ég geta þess, að hann mun hafa á réttu að standa að því er saltfiskveiðar snertir. Aftur á móti þegar um ísfiskveiðar er að ræða, getum við ekki vegna vökulaganna komizt af með færri en 20–21 menn á togarana, en á slíkum veiðum hafa Englendingar ekki nema 14 menn á hverju skipi og Þjóðverjar 13.

n., sem fær frv. þetta til meðferðar, verður að athuga það vel, að ef útlendingar geta komizt af með færri menn á skipum sínum hér heldur en við höfum á okkar, þá getur það hnekkt mjög siglingum okkar. Ég get nefnt glöggt dæmi. Þýzkir togarar hafa nokkrum sinnum komið til Vestfjarða og keypt fisk af bátum til útflutnings. Á þeim hafa aðeins verið 9–10 menn. Til slíkra ferða þyrftum við 16 manna skipshöfn, ef frv. þetta væri samþ. Værum við þá alls ekki samkeppnisfærir við útlendinga um þá atvinnu. Þetta vona ég, að hv. n. geri sér fyllilega ljóst.