16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í C-deild Alþingistíðinda. (2056)

145. mál, einkasala á síld

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég þarf ekki að telja upp allar þær till. og samþykktir, sem úr ýmsum áttum hafa drifið að nú síðustu mánuðina, þar sem menn hafa lýst yfir óánægju sinni yfir Síldareinkasölunni. Alstaðar hefir komið fram mjög sterk óánægja yfir rekstri hennar og óskir um ýmsar breyt. á fyrirkomulagi hennar. Ég skal m. a. geta þess, að á Ísafirði var haldinn fundur í vetur og þar var samþ. till. á þá leið, að ef útvegsmenn fengjust ekki til þess að gera út, þá fengi Einkasalan heimild til þess að fara að reka útgerð. Þetta sýnir einna bezt, hve mikið vantraustið er orðið á þessum atvinnuvegi undir stjórn Einkasölunnar, þegar menn fara að gera ráð fyrir, að þeir aðilar, sem hingað til hafa gert út, muni leggja árar í bát. Slík till. hefir mér vitanlega aðeins komið fram á þessum eina stað, og hvort sem hún er heppileg eða ekki, vildi ég benda á hana til þess að sýna, í hvílíkt óefni er komið.

Starfsár Einkasölunnar eru nú orðin þrjú. Sjútvn. hefir margbeðið um að fá skýrslur um hana, en form. hennar hefir ekki tekizt að fá þær enn. En nýlega var útbýtt hér skýrslu yfir starf Einkasölunnar á síðasta ári. Eitt m. a., sem þar er tekið fram, eru ummæli Péturs Ólafssonar framkvæmdarstj., á bls. 47, með leyfi hæstv. forseta: „Um jafnmikið fyrirtæki sem Einkasalan er og þar sem svo margskonar og ólíkra hagsmuna þeirra, er við hana eru riðnir, er að gæta, er ekki við öðru að búast en að mjög skiptar skoðanir hljóti að verða um ýmsar framkvæmdir, ekki sízt, þar sem allskonar pólitísk íhlutun, því miður, hefir seilzt allt of mikið með hramm sinn inn á verksvið Einkasölunnar“.

Það er nú vitanlegt orðið, og höfum við flm. þessa frv. bent á það áður í þessari hv. d., að pólitísk áhrif á þennan atvinnuveg séu og hafi verið, síðan Einkasalan var sett á stofn, allt of mikil. Við bentum þegar í byrjun á þá hættu, er stafaði af því, að stjórnarmenn Einkasölunnar væru ekki valdir með það fyrir augum, hvort þeir hefðu þekkingu í þessari grein til brunns að bera, heldur í hvaða pólitískum flokki þeir væru. Það er nærri óhjákvæmilegt annað, eftir þeim reglum, sem nú gilda um kosning útflutningsnefndar, en að svo fari, sem farið hefir, að hér yrði ekki lögð fagþekking til grundvallar, heldur yrði farið eftir öðrum mælikvarða.

Einn af forstjórum Einkasölunnar segir hér í skýrslunni, að ekki sé við öðru að búast en að skiptar skoðanir hljóti að verða um ýmsar framkvæmdir hennar. Jafnvel þótt hér væri um fyrirtæki að ræða, sem segja mætti, að vel hefði verið stjórnað, þá myndu vitanlega koma fram skiptar skoðanir um ýmsar stjórnarframkvæmdir. En hér er ekki um skiptar skoðanir að ræða af hálfu þeirra manna, sem eiga við Einkasöluna að búa, þ. e. útgerðarmanna, sjómanna og verkamanna. Ég tala ekki um forstjóra Einkasölunnar og aðra dándismenn, sem hafa fengið fríðindi á kostnað annara manna. Þeir telja líklega fyrirkomulagið gott, og una vel við sinn hlut. En hjá hinum réttu aðiljum eru ekki skiptar skoðanir; frá þeim koma einvörðungu gagnrýnandi og fordæmandi skoðanir á stjórn og framkvæmdum Einkasölunnar. Það sýna samþykktir sjómanna fyrir norðan og vestan, og það sýnir fundur útgerðarmanna, sem haldinn var fyrir skemmstu í Reykjavík út af þessu máli.

Á fyrri þingum hefir verið drepið á helztu skakkaföllin, sem Einkasalan hefir orðið fyrir, bæði fyrir óheppilega sölusamninga, fyrir tunnuskort og ýmisleg hlutdrægnisverk, sem stjórn hennar hefir látið sér sæma að framkvæma. En þrátt fyrir það, að óánægja með Einkasöluna hafi alltaf frá upphafi látið á sér bóla, hafa þó aldrei komið jafnháværar raddir um misbresti og jafneindregnar kröfur um lagfæringu eins og nú. Og það er það, sem hefir knúð okkur, sem stöndum að þessu frv. á þskj. 145, til að bera fram nokkrar till. til breyt. á stjórnarfyrirkomulaginu, ef vera mætti, að þær yrðu til bóta á helztu stórgöllum þessarar stofnunar.

Ekki er fyrir það að synja, að raddir hafa komið fram um algert afnám Einkasölunnar, og getur vel verið, að það sé hið réttasta. En við flm. höfum ekki, að svo komnu máli, talið hentugt að krefjast þess, að Einkasalan verði afnumin. Hinsvegar vil ég skírskota til þeirrar ábyrgðar, sem alþm. hljóta að hafa á því, hvernig þessari atvinnugrein fyrir atbeina þingsins er nú komið. Það er því von okkar, að Alþingi vilji gera tilraun til að bæta úr ástandinu, sem nú er, (LH: Það var ólag á síldarútveginum áður!). Hv. sessunautur minn skýtur því að mér, að þetta hafi verið í ólagi áður. Þetta er alveg rétt, og ég ætla ekki að halda því fram, að þar hafi allt verið í sómanum, enda hefði engin ástæða verið fyrir löggjafarvaldið til þessara afskipta, ef ekki hefði verið álitið, að setja þyrfti einhverjar reglur um veiði og sölu þessarar vöru. Ég álít líka, að afskipti þingsins af þessum atvinnuvegi hafi verið nauðsynleg, þótt ég hafi ekki viljað hafa Síldareinkasöluna í því formi, sem hún var sett 1928. En þrátt fyrir það vona ég, að allir hljóti að sjá, að þegar afleiðingin af því, hvernig þingið hefir lagt grundvöllinn, er óhóflegt atvinnutjón, tap fyrir útgerðarmenn, og sú sorglega staðreynd, að við erum að missa markað í útlöndum, þá ættum við, og hv. sessunautur minn líka, að vera sammála um að breyta tilhögun Einkasölunnar. Og fram á það er farið með þessu frv. Aðalefni þess er að þeir, sem síldarinnar afla, sjómenn og útgerðarmenn, fái í sínar hendur aðalráðin yfir stjórn Einkasölunnar. Við álítum það réttara, því að þótt Pétur Ólafsson segi, að ríkið ábyrgist aðeins 500 þús. kr. fyrir kaup á tunnum, þá réttlætir það ekki hin miklu afskipti þingsins af stjórn þessa fyrirtækis. Mér finnst of mikill ábyrgðarhluti fyrir þingið að halda innan hinna pólitísku vébanda því valdi, sem í raun réttri á að vera í höndum síldareigenda, einkum þegar ljóst er orðið, að afskipti þingsins hafa orðið sjómönnum og útgerðarmönnum til mesta taps og niðurdreps.

Um það, hvernig fara kann í framtíðinni, ef sama áframhald verður, getur tæplega orkað tvímælis. Það er sennilegt, að það, sem vakað hefir fyrir sjómönnunum á Ísafirði, að einstakir menn hættu að gera út á síld, verði ofan á. Því að nú er sannarlega óglæsilegur hagur þeirra manna, sem atvinnu sína stunda við síldveiðarnar, hvort sem þeir hafa látið afla sinn í bræðslu eða söltun.

Það er ekki ætlun mín að fullyrða neitt um, að allir ágallar lagfærist í fljótu bili, þó að breytt yrði til um stjórnarfyrirkomulag. En með þessu frv. er lagður sá grundvöllur, að þeir aðilar, sem bera mesta ábyrgðina, eiga að ráða þar um mestu, og þeir geta þá ekki kennt öðrum um þau skakkaföll, sem fyrir kynnu að koma.

Ég skal svo aðeins minnast lítillega á helztu till. Aðalbreytingin er sú, að öll útflutningsnefnd sé kosin af síldareigendum og sú kosning fari fram á þann hátt, sem venjulegur er t. d. í hlutafélögum og samvinnufélögum, þ. e. á aðalfundi. Þar eiga að mæta 24 fulltrúar, og samkv. venjulegri skiptingu á síldaraflanum virðist sanngjarnast, að 13 séu kosnir af útgerðarmönnum um allt land, 8 af sjómannafélögunum og 3 af stýrimannafélögunum, eftir nánari reglum, sem atvmrh. setur.

Í frv. er einnig gert ráð fyrir, að ef vill megi breyta um stjórn Einkasölunnar, þannig að aðeins verði einn framkvæmdarstjóri. Við viljum gefa útflutningsnefnd frjálst, hvort þeir eru einn eða fleiri. Það hefir komið fyrir, að ýmsar mjög misbrestasamar ráðstafanir hafa komið af því, að þarna voru 3 jafnvaldamiklir forstjórar; einn þeirra, sem var í Kaupmannahöfn, seldi sömu síldina og annar hafði selt á Siglufirði. Síldareinkasalan varð auðvitað skaðabótaskyld, og þær skaðabætur borgast af síldareigendum. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um afleiðingar núverandi skipulags.

Í frv. er gert ráð fyrir aðalfundi. Liggja fyrir því m. a. þau rök, að nauðsynlegt er að hafa einhvern sameiginlegan fund, þar sem gagnrýni komi fram á framkvæmdum stjórnendanna, og til þess að þeir geti bitizt, sem þurfa að bítast. Þeir mörgu fundir, sem hafa verið haldnir úti um land, eru sýnilegur vottur þess, að það vantar einhvern þann vettvang, þar sem aðilar geti rætt um síldarmálin. Svo er maður líka neyddur til að ræða ítarlega um þau á Alþingi, af því að slíkan aðalfund vantar.

Þetta eru aðalbreytingarnar.

Þó að ekki sé hér þröngsetinn bekkurinn, hafa þó nokkrir þm. bætzt við síðan áðan, og vil ég því aftur leyfa mér að benda á það, að fari svo, að Alþingi skirrist við að gera umbætur á fyrirkomulagi Síldareinkasölunnar, er ekki vafi á því, að þær raddir, sem hrópa á, að hún verði lögð niður, verða sterkari. Um afleiðingar þess, ef Einkasalan yrði lögð niður, skal ég ekkert segja, en við flm. þessa frv. höfum ekki séð okkur fært að leggja það til, af ýmsum ástæðum. Hinsvegar er það skylda Alþingis að gera þær umbætur á Einkasölunni, sem viturlegar mega þykja eftir reynslunni að dæma. Verða þm. að reyna að sameinast um það mark, hvaða skoðun sem þeir svo hafa á einkasölum yfirleitt. Fæ ég ekki séð, að það sé verjandi fyrir þingið að láta sem vind um eyrun þjóta allar þær kvartanir og áskoranir um fyrirkomulag Einkasölunnar, sem borizt hafa utan af landi. Þingið verður að gera einhverja tilraun til að ráða bætur á núverandi ástandi í þessum efnum, og að því vildum við flm. þessa frv. styðja. Frv. er í samræmi við óskir meiri hl. þeirra aðila, sem þetta mál skiptir mestu, en það eru sjómenn og útgerðarmenn. Þeir hafa séð, hve það hefir eyðileggjandi áhrif að hafa pólitíska yfirstjórn fyrir fyrirtæki sem þessu, og hversu hinar ýmsu framkvæmdir verða verri og ómögulegri, þegar starfsmennirnir, allt frá þeim efsta til þess lægsta, eru valdir eftir pólitískum verðleikum. Óska þeir því, að yfirstjórn Einkasölunnar verði fengin þeim réttu aðilum í hendur, sem eru þeir, er vöruna eiga. Sá maður, sem ekki hefir annara hagsmuna að gæta en að hefja laun sín, er ekki eins líklegur til að leggja sig í líma fyrir það fyrirtæki, sem hann starfar við, eins og eigandi fyrirtækisins sjálfur. Af þeim ástæðum leiðir og, að þeir eru líklegastir til að stiga spor til umbóta á fyrirkomulagi Einkasölunnar, sem hafa þar hagsmuna að gæta, sem hún er, auk þess sem þeir hafa bezta þekkingu á þessum atvinnuvegi til brunns að bera.

[Frh.]