17.03.1931
Neðri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í C-deild Alþingistíðinda. (2061)

145. mál, einkasala á síld

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég sé ástæðu til að segja hér með nokkrum orðum af fundi, sem haldinn var á Ísafirði í vetur með sjómönnum og útgerðarmönnum til að ræða um Síldareinkasöluna. Á þeim fundi voru samþ. ýmsar till. til umóta á Einkasölunni og að síðustu till. þess efnis, að skora á þingið að afnema Einkasöluna, ef ekki fengjust umbætur á fyrirkomulagi hennar. Á þessum fundi var bent á fjölda agnúa, sem á skipulagi Einkasölunnar eru.

1) Að útlendir kaupendur réðu meiru en matsmenn um það, hvort síld væri söltuð eða ekki.

Sjómennirnir bentu á mörg dæmi þess, að hinir útlendu kaupendur hefðu lagt bann við, að sú síld yrði söltuð, sem matsmennirnir höfðu talið ágæta vöru. Fannst þeim þetta með öllu óhæft og sögðu, að það hefði oftar en einu sinni leitt til þess, að orðið hefði að fleygja síldinni í sjóinn.

2) Að verkafólkið gerði allt of háar kröfur.

Var í þessu sambandi bent á það, að svo gæti farið, að skipin fiskuðu helmingi minna en þau gætu, vegna þess að of dýrt yrði að afgreiða þau, þar sem kaupgjaldið hefði verið 3 kr. á tímann frá kl. 6 á laugardagskveldi til kl. 6 á mánudagsmorgun.

3) Að síldarstúlkurnar hefðu svo mikið kaup, að þeir, sem síldina fiskuðu, fengju ekki jafnmikið og þær.

Þótti mönnum þetta mjög ranglátt. Voru þess mörg dæmi síðastl. sumar, að sjómenn, sem ráðnir voru upp á 40% af afla, bæru minna úr býtum en stúlkurnar fyrir að kverka síldina.

4) Að fyrirkomulagið á síldarsölunni væri allt í handaskolum.

5) Að kostnaðurinn við Einkasöluna væri svo mikill, að ekki næði nokkru tali.

6) Að margir matsmannanna hafi aldrei komið að síldarverkun og kynnu því engin skil á að meta síldina.

Bent var á ýmsa fleiri agnúa á Síldareinkasölunni á áðurnefndum fundi, en ég sé ekki ástæðu til að rekja það frekar. Var það einróma álit fundarins, að þessu yrði ekki kippt í lag með öðru móti en því að losa Einkasöluna undan þeim pólitísku áhrifum, sem hún nú er undir. Það má vera, að menn geti greint á um það, hvorir eigi að ráða meiru um stj. Einkasölunnar, sjómenn eða útgerðarmenn, en um það getur enginn ágreiningur orðið, að ástandið er ómögulegt eins og það er nú. Sjálfir sjómennirnir eru óánægðir með fyrirkomulagið eins og það er, hvað þá útgerðarmenn, og heimta að breytingar séu gerðar á því.