17.03.1931
Neðri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í C-deild Alþingistíðinda. (2063)

145. mál, einkasala á síld

Pétur Ottesen:

Í þessum umr. hefir verið vitnað í ummæli manna og samþykktir víðsvegar að af landinu viðvíkjandi því, hvernig stj. Einkasölunnar hefir leyst hlutverk sitt af hendi. Drap hv. flm. sérstaklega á eina fundarsamþykkt frá Ísafirði, þar sem það kom fram, að ástæða mundi til að taka til athugunar, hvort ekki væri rétt að breyta til um stjórnarfyrirkomulag Einkasölunnar. Hv. þm. Ísaf. vildi draga úr þessu, og hélt hann því fram, að samþykktirnar á Ísafirði hefðu fallið mjög á aðra sveif. Vil ég í þessu sambandi benda á till., sem samþ. var á Akranesi. Hljóðar hún á þessa leið:

„Fundurinn lýsir eindregið óánægju sinni yfir framkvæmdum Síldareinkasölunnar á umliðnum árum, en skorar jafnframt á Alþingi að breyta ákvæðum um skipun stj. Einkasölunnar þannig, að útvegsmenn og sjómenn fái meiri íhlutun um hana en þeir hafa nú“.

Menn sjá af þessari till., að þetta frv. fellur, heim við skoðun þingmálafundarins á Akranesi, og Akurnesingar kunna nokkur skil á þessum málum, því þeir stunda allmjög síldveiðar á sumrum, og íbúar þessa staðar eiga því mikið undir því komið, að þeir, sem standa fyrir Einkasölunni, leysi starf sitt sæmilega af hendi.

Út af þeim ummælum hv. þm. Ísaf., að með frv. væri í burtu kippt þeim áhrifum, sem sjómenn hefðu nú á stj. Einkasölunnar, skal ég taka það fram, að mér þykir þetta harla undarlega mælt hjá hv. þm., þegar þess er gætt, að af þessu 24 manna fulltrúaráði, sem á að kjósa menn í stj. Einkasölunnar, eiga að vera 8 menn kjörnir af sjómannafélögunum í landinu. Það er náttúrlega rétt, að þeir hafa þarna ekki meiri hl., en hinsvegar er öllum ljóst, að þeir hafa meira en lítinn íhlutunarrétt um skipun stj. Ennfremur má benda á, að samkv. núgildandi lögum skipar Alþingi meiri hl. útflutningsnefndar og hefir þar því yfirtökin. Þar sem útgerðarmenn ráða aðeins vali eins manns, þá hafa þeir engin afgerandi áhrif á það, hvernig stj. einkasölunnar er skipuð, og þar sem verkalýðsfélögin hafa ekki heimild til þess að skipa nema einn mann, hafa þau heldur engin tök á því, hvernig stj. hennar er skipuð.

En það, sem sérstaklega vakti fyrir okkur, sem stöndum að þessum breyt., er vitanlega það, að þegar stj. Einkasölunnar er skipuð af þeim mönnum, sem sérstaklega eiga sína hagsmuni undir því, að þetta fyrirtæki takist vel, þá er fengin fyllsta tryggingin, sem hægt er að fá, fyrir því, að vel sé vandað til um val á mönnum í stjórn þessa fyrirtækis.

Nú vel ég benda á það, að þegar litið er á útgerðarmenn annarsvegar og sjómenn hinsvegar, þá falla hagsmunir þessara beggja aðilja alveg saman a. m. k. á smærri síldveiðiskipum, línuveiðiskipum og mótorbátum, því að hásetarnir eru ráðnir með þeim kjörum að fá vissan hlut af aflanum, en um verðmæti hans fer mikið eftir því, hvernig á er haldið af stjórn einkasölunnar.

Ég held, áð þeir menn, sem vilja halda Einkasölunni, hljóti að verða sammála um að búa svo um alla hnúta þar, að hún geti komið að sem beztu liði.

Út af ummælum hv. þm. Ísaf. um, að með þessari breyt. væri að einhverju leyti öðru en hvað stjórninni viðkemur skert sú trygging, sem nú er samkv. gildandi lögum, þá vil ég benda honum á það, að þau ákvæði, sem nú lúta að því að tryggja þennan atvinnurekstur, eru algerlega óskert. Þau eru í tveim atriðum: að takmarka söltun síldar, og að skipuleggja söluna.

Það, sem hér er farið fram á, er því að bæta úr þeim mistökum, sem urðu á um setningu þessara laga hvað snertir skipun stj. Einkasölunnar. Það er ekkert annað, sem í þessu frv. felst.

Útflutningsnefndin, sem skipar framkvæmdarstjórnina, er að því er ég bezt veit þannig skipuð, að í henni eru tveir útgerðarmenn, m. ö. o., þeir menn, sem samkv. lífsstarfi sínu eru líklegri til þess að hafa einhverja þekkingu á þessari atvinnugrein, eru þar í minni hl. Að öðru leyti er útflutningsnefnd nú skipuð einum lögfræðingi, einum barnakennara og einum kaupfélagsstjóra. Framkvæmdarstjórnin er þannig skipuð, að í henni eiga sæti: Í fyrsta lagi kennari, sem áður var við eina af menntastofnunum þessa lands. Það kvað nú raunar vera búið að segja honum upp — en launin hirðir hann enn samt sem áður. Í öðru lagi er þar gamall útgerðarmaður og kaupmaður og í þriðja lagi kaupfélagsstjóri, sem í því starfi sínu hafði enga aðstöðu til að kynnast neitt útgerð eða verzlun með fiskafurðir.

Ég sé enga ástæðu til þess að fara að ræða um Síldareinkasöluna yfirleitt, eins og hv. þm. Ísaf. gerði. Hvað viðkemur horfunum með bræðslusíld, þá liggur hér fyrir annað frv. um að breyta líka til um stj. á bræðsluverksmiðju ríkisins, og má því bíða með að tala um einstök atriði þessa máls þangað til það frv. kemur á dagskrá.

Það er hinsvegar kunnugt, að allar horfur eru á því, að þeir menn, sem lagt hafa síld sína í bræðsluverksmiðju ríkisins, beri minna úr býtum en aðrir, sem látið hafa síld í aðrar bræðsluverksmiðjur. —

Hv. þm. Ísaf. saknar þess mjög í þessu frv., að ekki er gert ráð fyrir, að verkamenn, þ. e. þeir, sem vinna í landi, hafi íhlutun um stj. Á það hefir verið bent af hv. 1. flm., að réttmætt væri og eðlilegt, að þeir, sem afla og eiga verðmætin, hafi fyrst og fremst íhlutun um stj. þessa fyrirtækis í sínum höndum. Hv. þm. Ísaf. áleit, að frekar ætti að halda áfram á þeirri braut, sem gengið var inn á 1928, heldur en að hverfa frá henni. En ég vil benda á, að í skýrslu Péturs Ólafssonar, forstjóra Síldareinkasölunnar, reynir hann mjög að þvo hendur sínar af þeim áhrifum, sem afskipti verkamanna í landi hafa haft á stjórn og rekstur Síldareinkasölunnar. Það eru aðallega tvö atriði, sem verður að rekja, eftir því sem skýrslan ber með sér, til þess manns, sem hefir komið þannig fram, að telja verður hann fulltrúa verkamanna í landi. Í skýrslunni segir Pétur Ólafsson: „Að þessu hefir framleiðendum verið greitt kr. 7.00, að undanteknum nokkrum sjómönnum á Siglufirði, sem því miður hafði verið greitt 2 kr. meira pr. tunnu út á hlut þeirra. Þetta misrétti vil ég ekki taka að mér að verja, fremur en taxtahækkun þá, sem gengið var að á Siglufirði, þegar fram á söltunartíma var komið“.

Þessar ráðstafanir, sem P. Ól er að þvo hendur sínar af, ætla ég, að megi rekja til þess manns í stjórn einkasölunnar, sem virðist vera fulltrúi verkamanna í landi og reka þar þeirra erindi. Þetta bendir m. a. til þess, að yfirleitt hafi verið farið inn á töluvert varhugaverða braut með samþykkt löggjafarinnar um Síldareinkasölu ríkisins hvað það snertir, að aðrir en þeir, sem eiga aflann og afla hans, hafi íhlutun um rekstur þessa fyrirtækis.