17.03.1931
Neðri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í C-deild Alþingistíðinda. (2066)

145. mál, einkasala á síld

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 1. þm. Reykv. bjóst við því, að þótt þetta frv. yrði að lögum, mundi samt verða áframhaldandi ólag á Einkasölunni eins og verið hefði. Ég skal náttúrlega ekkert fullyrða um, hvað mikið ólag kann að verða á Einkasölunni framvegis. Um það ólag, sem liðið er, verður ekki deilt. En ég vil segja hv. 1. þm. Reykv., að frv. er flutt af fullri einlægni og með það fyrir augum, að einmitt þessi breyt. á stj. Einkasölunnar sé sú skynsamlegasta til þess að ráða bót á helztu göllunum.

Hv. þm. Ísaf. var að tala um það, hverjir væru eigendur síldarinnar. Að mínum dómi eru það eigendur skipanna og þeir sjómenn, sem ráðnir eru upp á hlut. En þeir sjómenn, sem ekki eru ráðnir upp á hlut, geta hinsvegar ekki talizt eigendur síldarinnar, en þeir hafa þó töluverð áhrif á stj. þessara mála, með því að kjósa til aðalfundar. Þess vegna falla þessi orð hv. þm. Ísaf. um sjálf sig, þegar frv. er lesið í gegn. Hv. þm. lét ennfremur svo um mælt, að með þessum till. væri verið að gera tilraun til þess að fela andstæðum stéttum stj. fyrirtækisins. En þetta er fjarri öllu viti. Hv. þm. veit það ósköp vel, eða ætti að vita, að hér er alls ekki um andstæða hagsmuni að ræða, heldur þvert á móti sameiginlega hagsmuni. Það eru sameiginleg áhugamál bæði eigenda skipanna og sjómannanna, að vel veiðist, að reksturinn verði sem ódýrastur, og ekki sízt, að gott verð fáist fyrir aflann, og að þessu athuguðu er það næsta ólíklegt, að til árekstrar komi milli útgerðarmanna og sjómanna um sölu síldarinnar. Það er ávalt mjög villandi, þegar hv. þm. Ísaf. og flokksbræður hans eru að tala um andstæðar stéttir í landinu, með andstæða hagsmuni, áhugamál og lífsskoðanir yfirleitt. Þessu er áreiðanlega haldið fram gegn betri vitund. Sérstaklega er slíkt alveg augljós hlekking, þegar um síldarútveginn er að ræða, þegar sjómenn eru ráðnir upp á hlut af afla. Ef málið er fært á breiðari grundvöll, þá verður það öldungis augljóst, að hagsmunir útgerðarmanna og sjómanna fara saman í öllum verulegum atriðum, og er hér ekki einungis átt við þá sjómenn, sem ráðnir eru upp á hlut, heldur hina líka, sem kaup taka. Það, sem því hér er um að ræða með þessum till. okkar, er að leitast við að skipuleggja samvinnu milli þessara tveggja stétta, sem ekki geta án hvor annarar verið, en geta hinsvegar vel verið án þriðja aðilans, og á ég þar við þá menn, sem gera sér að atvinnu að ala á úlfúð og sundurlyndi eða jafnvel fjandskap milli þessara stétta og spilla allri samvinnu milli þeirra. Þessir menn eru hv. þm. Ísaf. og hans flokksbræður.

Verði það nú ofan á, að stj. Einkasölunnar verði áfram sú sama og nú er, þá er ég alveg sannfærður um það, að þessir tveir höfuðaðilar, sjómenn og útgerðarmenn, munu gera enn ákveðnari og róttækari tillögur um breytingar á fyrirkomulagi Síldareinkasölunnar, og það verður áreiðanlega ekki liðið til lengdar, að hundsa vilja og till. þessara höfuðaðila síldarútvegsins. Þess mun verða krafizt, að Síldareinkasalan verði afnumin með öllu, ef þessar breyt., sem mjög er í hóf stillt í till. okkar, ná ekki fram að ganga. Við höfum í till. okkar gengið miklu skemmra en margir hafa krafizt, og ætti þess vegna að geta orðið samkomulag um till. okkar, því að þær eru nokkurn veginn bil beggja og því sanngjarnt, að þeim sé sinnt.