17.03.1931
Neðri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í C-deild Alþingistíðinda. (2067)

145. mál, einkasala á síld

Sigurður Eggerz:

Það skal ekki verða löng ræða. Áður þótti það gefast vel, þegar við örðugar afturgöngur var að eiga, að tala við þær latínu. Og mér dettur þetta gamla ráð í hug nú í sambandi við Síldareinkasöluna okkar. „Praeterea censeo, Karthaginem esse delendam“. Hvað sem öðru líður, þá legg ég til, að Síldareinkasalan verði lögð niður. Við höfum nú hlýtt á ræðu hv. þm. Vestm., og ég verð að segja það, að ég varð alveg agndofa, er hv. þm. fór að segja frá einu atviki, í sambandi við Síldareinkasöluna, atviki, sem var þess eðlis, að mér varð á að grípa fram í fyrir ræðumanninum og spyrja, hvort það væri virkilega satt, sem hv. þm. var að segja. En hv. þm. las þá upp staðfesting á þessu í sjálfu blaði eins framkvæmdarstjóra Einkasölunnar. Þetta atvik sýnir það glöggt, hvað komið getur fyrir innan vébanda slíkrar stofnunar sem Síldareinkasölunnar, og hverju maður má búast við í framtíðinni. Allir vita það, hversu miklu máli það skiptir fyrir litla þjóð eins og okkur íslendinga, sem mjög erum upp á aðrar þjóðir komnir um markaði og viðskipti, að okkur takist að skapa okkur góða markaði erlendis fyrir framleiðslu okkar. Hingað til höfum við verið helzt til tómlátir um það, að afla nýrra markaða erlendis, en nú átti svo sem að fara að bæta úr því, og var nú ætlunin að leita markaðs fyrir íslenzka síld í Ameríku. Það var í sjálfu sér lofsvert af Einkasölunni að reyna þetta, — en hvernig tókst þetta svo í framkvæmdinni? Jú, það er tekin söltuð síld, sem var orðin alveg ófær útflutningsvara, og skoluð upp og krydduð, og síðan er þetta sent til Ameríku, til þess að „reklamera“ íslenzka kryddsíld í hinum mikla Vesturheimi. Ég veit nú ekki, hvað mönnum kann að sýnast um þvílíkt tiltæki, en í mínum augum er ekki hægt að kveða upp harðari áfellisdóm, dauðadóm yfir þessu fyrirkomulagi, ef slíkt á að geta komið fyrir aftur. Ég dáðist að þeirri ró og þeirri stillingu, sem hv. þm. Vestm. sýndi, er hann skýrði þingheimi frá þessu reginhneyksli. Ég mun að vísu greiða atkv. með þessum till., sem hér liggja fyrir, af því að þær eru sennilega heldur til bóta, en hvenær sem ég sé þess nokkur líkindi, að síldareinkasalan verði afnumin með öllu, þá mun ég verða fyrstur manna til þess að greiða atkv. með þeim till., sem þar að hita. Og ég er sannfærður um það, að sá tími kemur brátt, að Síldareinkasalan fylli mæli synda sinna og menn sannfærist um, að bezt sé að afnema hana með öllu.