17.03.1931
Neðri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í C-deild Alþingistíðinda. (2069)

145. mál, einkasala á síld

Pétur Ottesen:

Þar sem hv. þm. Ísaf. hefir nú talað sig „dauðan“, þá skal ég ekki raska ró hans í gröfinni. Aðeins vil ég benda á það, að það eru ekki einungis líkur, heldur fyllsta vissa fyrir því, að þetta fyrirkomulag, sem bent er á í till. okkar, nefnilega að sjómenn og útgerðarmenn skipi sjálfir stjórnina, muni gefast betur en núverandi stjórnarfyrirkomulag. Hér er um að ræða algerlega sameiginlega hagsmuni beggja aðila, a. m. k. hvað snertir línu- og mótorbátaútgerðina. Það er þess vegna ótvíræð vissa fyrir því, að góð samvinna takist milli þessara höfuðaðila, því að báðum er það óskipt áhugamál, að stj. Einkasölunnar takist sem bezt.

Hv. þm. Ísaf. reyndi ekki að klóra í bakkann út af þessu kryddsíldarhneyksli einkasölunnar, sem gert hefir verið að umtalsefni undir þessum umr. En í stað þess reyndi hann að skella skuldinni á einn af framkvæmdarstjórunum. Það hefir nú verið bent á, að með þeirri kosningaraðferð, sem útflutningsnefndin hefir haft við kosningu framkvæmdarstjóra, þá ber meiri hluti n., þeir hv. þm. Ak., Böðvar Bjarkan og Steinþór Guðmundsson, fulla ábyrgð á þeim mönnnum, sem kosnir voru í framkvæmdarstjórnina, því að minni hl. n. var synjað um það sjálfsagða réttlæti, að hlutfallskosning væri viðhöfð. Þessi framkoma meiri hl. að hrifsa með frekju og ofbeldi til sín öll ráð, en bera hinn sjálfsagða íhlutunarrétt minni hl. fyrir borð, er ein meginorsök þeirra miklu og margvíslegu mistaka, sem orðið hafa á rekstri Einkasölunnar, og það er því stjórnin og sósíalistar, sem bera ábyrgð á verkum þessa umrædda manns, og yfirleitt á öllum óhappaverkum þessa fyrirtækis. Það er þýðingarlaust fyrir hv. þm. Ísaf. að reyna að velta þeirri ábyrgð yfir á herðar annara.

Hv. þm. var eitthvað að tala um það, að sérstakur stjórnmálaflokkur stæði að baki þessum till. Þessu vil ég eindregið mótmæla; það eru allir stjórnmálaflokkar, sem að þessum till. standa, enda er málið í sjálfu sér ópólitískt. Það er sameiginlegt áhugamál sjómanna og útgerðarmanna alstaðar á landinu án tillits til þess, í hvaða flokki þeir eru, að fá málum þessum hrundið í hagkvæmara horf, og með það fyrir augum og með eindreginn stuðning hinna réttu aðila að baki eru þessar till. fluttar fram.