17.03.1931
Neðri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í C-deild Alþingistíðinda. (2071)

145. mál, einkasala á síld

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Út af fyrirspurn hv. þm. Ísaf. um það, hvort það komi ekki fyrir í Vestmannaeyjum, að kaupdeilur rísi milli sjómanna og útgerðarmanna þá er þess að geta, að mest hefir borið á þeim deilum í „Alþýðublaðinu“, en ekki í Vestmannaeyjum. Undanfarin tvö til þrjú ár hafa einstakir pólitískir spekulantar, af sama sauðahúsi og hv. þm. Ísaf., gert ítrekaðar tilraunir til þess að koma af stað kaupdeilum í Eyjunum, og Alþýðublaðið hefir jafnan róið þar undir eftir beztu getu og bannað sjómönnum að fara til Eyja á vertíðinni, en allt hefir komið fyrir ekki. Tilraunir þessar hafa enn ekki borið árangur, og þess er að vænta, að svo verði og framvegis, enda eru sjómennirnir í Eyjunum þroskaðri en svo, að þeir láti illa innrætta, ábyrgðarlausa æsingaseggi eyðileggja atvinnumöguleika þeirra og bjargarvonir.

Kröfurnar hafa verið auglýstar í Alþýðublaðinu, sem alltaf hefir verið fúst að auglýsa þær, og hampað af flokki hv. þm., en deilurnar hafa fallið um sig sjálfar, því að þessir æsingamenn, sem árlega reyna að stofna sjómannaverkfall í Vestmannaeyjum, hafa verið virtir að vettugi af sjómönnum, eins og bréfin, sem dreift hefir verið í sama tilgangi út um allt land hafa verið virt að vettugi af mönnum í sveitum, sem þau hafa átt að fæla frá að leita sér atvinnu í Eyjum.

Þetta er sá ófriður og þær kaupdeilur, sem hv. þm. Ísaf. hélt, að flokksbræður sínir hefðu komið þar fram. En þeim hefir aldrei orðið nokkuð ágengt í því máli, og verður vonandi aldrei. Hagsmunir sjómanna og útgerðarmanna í Eyjum fara saman. Þeir skilja það hvorirtveggja, og á því stranda verkföllin, sem Alþýðubl. básúnar út, að eigi að koma í byrjun hverrar vertíðar.