14.03.1931
Neðri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (237)

111. mál, opinber vinna

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Víðast hvar erlendis hafa verið tekin í lög ákvæði um vinnutíma og kaupgjald í opinberri vinnu. Þetta frv. gengur í sömu átt.

Hér er farið fram á, að vinnudagur verði ákveðinn 9 stundir, en þó er leyft, að lengur sé unnið með vissum skilyrðum, enda teljist það eftirvinna, sem unnið er fram yfir þennan tíma.

Erlendis er vinnudagur í opinberri vinnu víðast 8 stundir og sumsstaðar jafnvel styttri, ekki nema 5–6 stundir. Við flm. höfum þó ekki gengið lengra en þetta. Á Siglufirði er vinnutími ákveðinn 8 stundir í bæjarvinnu. Í öðrum kaupstöðum er vinnutíminn 9–10 stundir.

Það liggur í augum uppi, að hið opinbera hefir í senn góða aðstöðu og ber skylda til að ganga á undan öðrum atvinnurekendum með góðu eftirdæmi í þessum efnum. Það skiptir miklu máli, að vinnutíminn sé ekki of langur, ekki aðeins fyrir verkamenn, heldur einnig atvinnurekendur. Reynslan hefir sannað, að jafnmiklu eða meiru er afkastað í 9 stunda vinnu og 10 stunda vinnu. Og á þennan hátt græða verkamenn eina dýrmæta klukkustund til hvíldar eða tómstundaiðkana.

Annað höfuðatriði frv. er í því fólgið að ákveða nánar en verið hefir um kaupgjaldið í opinberri vinnu. Í sumum bæjum hafa risið upp deilur um þetta efni, og hefir þeim lyktað með því, að bæjarsjóðir hafa fallizt á að greiða það kaup, sem almennt gildir á staðnum. En í vegagerð, brúagerð og vitabyggingum hefir verið öðru máli að gegna. Þar hefir engin föst regla gilt um kaupgjald, heldur virðist vegamálastjóri hafa lagt alla áherzlu á að þrýsta kaupinu svo niður sem unnt er, og jafnvel gengið þar lengra en svíðingslegustu atvinnurekendur. Ég þarf ekki að fara neinum orðum um það, hve ósæmilegt er að nota opinbera vinnu til þess að halda kaupgjaldi í landinu niðri. Hið minnsta, sem hægt er að fara fram á, er, að hið opinbera láti kaupgjaldsmálin afskiptalaus og greiði það kaup, sem almennt gildir, taxta verklýðsfélaganna, og meira er ekki krafizt hér. Í símavinnu hefir aftur á móti verið haldið sama kaupi um land allt.

Ég vil benda á, að á Hellisheiði hefir munað 20–30 aur. á tímakaupi manna í vegavinnu, eftir því, hvaðan þeir eru af landinu. Þetta nær vitanlega engri átt, og verður þegar að kippa því í lag.

Vænti ég þess, að frv. verði að lokinni umr. vísað til allshn.