05.03.1931
Efri deild: 16. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Jón Þorláksson:

Ég vil einungis leiða athygli hv. n. að því, að mér skilst, að 5. gr. frv. geri allmikinn rugling á því, hvað margir fái utanfararstyrk, hvort sem það er miðað við 1. gr. frv. eða brtt. n. við 1. gr. Ég skil bæði frvgr. og brtt. svo, að ekki sé bundið við að veita 5 prestum utanfararstyrk árlega. Og ef brtt. verður samþ., þá er því slegið föstu, að ekki þurfi að veita nema 2 prestum utanfararstyrk árlega. Ef nú t. d. 3 prestar sækja eitt ár, og þeim er öllum veittur styrkur, þá má samkv. 5. gr. frv. veita 7 prestum næsta ár. En sæki nú 5 eða fleiri eitt ár og ekki er veitt nema 2 eða 3, þá er ekki gert ráð fyrir, að veita megi fleirum fyrir þá sök næsta ár. Það sýndist þó ekki minni ástæða til að nota ákvæði 5. gr. undir þeim kringumstæðum. Þetta er ósamræmi, sem þarf að laga. Vil ég skjóta því til hv. n., að hún athugi þetta til 3. umr.