14.03.1931
Neðri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (244)

111. mál, opinber vinna

Bernharð Stefánsson [óyfirl.]:

Hv. flm. segist vilja ganga að því, að ákveðið sé, að verkamenn ráði sjálfir kaupi sínu. En ég veit ekki betur en að svo sé nú. Ég þekki þess ekki dómi, að verkamenn séu teknir nauðugir í opinbera vinnu. Þegar ákveðin er vinna og kaup, er þeim í sjálfsvald sett, hvort þeir vilja vinna eða ekki. Ég vildi óska, að hv. flm. og flokksbræðrum hans væri alvara með þetta. En í fyrrahaust var dálítið annað uppi á teningnum, þegar flokksbræður hans komu inn í Eyjafjörð í bílum, til að reka menn úr vinnu, af því að kauptaxti þeirra var ekki viðurkenndur á Akureyri. Því er ekki nema gott til þess að vita, ef jafnaðarmenn ætla nú að fara að taka upp hina regluna.

Hv. flm. sagði, að enginn hefði gott af að vinna meira en 9 stundir á dag. En í sveitum landsins verður þessu ekki við komið og einyrkja bændur framfleyta ekki lífinu, nema með langtum lengri vinnutíma.

Þegar þannig stendur á, að hreppsbúum bráðliggur á að fá þann veg, sem verið er að leggja, þá hugsa sveitamennirnir, sem við hann vinna, mest um það að ljúka verkinu af, því að þeir finna það, að þeir eru að vinna fyrir sjálfa sig. Þeir eru líka allflestir einyrkjar, sem eiga óhægt með að vera lengi burtu frá heimilum sínum, og mundi því vera það mjög fjarri skapi að vinna aðeins 8 eða 9 tíma á dag. Annars nenni ég ekki að svara frekar öllum þeim fjarstæðum, sem komu fram í ræðu hv. flm.