07.03.1931
Efri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Jón Baldvinsson:

Það var auðséð á atkvgr. við 2. umr. um þetta frv. hér í d. um daginn, að einhver tregða var í hv. þm. með að afgreiða frv. áfram. Þetta var nú raunar mjög skiljanlegt. Ákvæði þessa frv. eru einmitt á þá leið, að telja verður hér um bil víst, að þau dragi stóran dilk á eftir sér fyrir ríkissjóðinn, með auknum útgjöldum. Hér er ekki eingöngu um að ræða hin beinu útgjöld, sem leiða kann af frv., ef það verður að lögum. heldur miklu meira. Það virðist full ástæða til, að aðrir embættismenn vilji einmitt fara í kjölfar prestanna og vilji fá lögákveðinn styrk fyrir fleiri stéttir embættismanna en prestastéttina.

Hv. þm. Snæf. benti á það við 2. umr., að ekki mundi minni ástæða fyrir lækna heldur en presta að fá sett lög um utanfararstyrki sér til handa, og því verður ekki neitað, að þar eru talsvert rík rök að baki, því að það er vitanlegt, að læknunum, og ekki síður þjóðinni, er þess full þörf, að þeir nái að fylgjast með framförum á sviði læknislistarinnar, eigi síður en prestum í sinni fræðigrein.

Ég hefi verið hikandi með að ljá frv. þessu fylgi í því formi, sem það nú er, þó að ég sé því í aðalatriðum meðmæltur. Hefi ég því ráðizt í að koma fram með nokkrar brtt. við frv. í því augnamiði að gera það aðgengilegra með því að draga nokkuð úr styrkveitingum. Eru brtt. mínar á þessa leið:

Við 1. gr. vil ég gera þá breyt., að árlega sé tekin inn í fjárlög sú upphæð, er hæsta má veita í allt á því ári í utanfararstyrki presta. Það ætti að vera föst regla, að öll útgjöld ríkisins væru ákveðin í fjárlögum. Með því hefði þingið meira vald á fjármálunum. Þegar mörg lög eru samþ., er bakað geta ríkissj. útgjöld, sem hvergi standa í fjárlögum, en eru þó fyllilega lögmæt, er engu hægt um að þoka, hvernig sem stendur á fyrir ríkissjóði, ef stj. á ekki að komast í andstöðu við sett lög, og eftir á hefir þingið ekkert vald til að blanda sér inn í það, hve mikið fé er veitt. Samkv. frv. eins og það liggur fyrir gæti stj. veitt prestum á hverju ári samtals 10 þús. kr. utanfararstyrki, og þannig mun það alltaf verða, ef frv. yrði samþykkt óbreytt. Brtt. mínar eru í 5 liðum, og legg ég mesta áherzlu á breyt. við 1. gr., sem ég hefi nú þegar talað um og er í fám orðum sú, að árlega verði ákveðið í fjárlögum, hver upphæð skuli veitt til utanfarar presta, sem þá yrði ákveðin eftir ástæðum í hvert sinn.

Brtt. við 2. gr. er í samræmi við þá fyrstu og er á þá leið, að í stað 4 mánaða komi „eigi skemur en 2 mánuðir“. Vegna þess að styrkur getur orðið takmarkaður við lægri krónutölu en ákveðið er í frv., virðist eðlilegt, að linað sé á kröfunni um tímalengdina.

Brtt. við 3. gr. er á þá leið, að binda ekki styrkveitingu til hvers einstaklings við 2 þús. kr., heldur allt að þeirri upphæð. Mundu jafnvel 1500 kr. sem styrkur vera mikill stuðningur fyrir þann, sem sigldi, sérstaklega ef ekki væri um nema 2 mán. dvalartíma að ræða. Ég ætla og, að það sé ekki venja að veita hærri styrk en 1500 kr. til slíkra utanfara sem þessara. Og ég hygg, að sá prestur, sem fengi það háan styrk, mundi þá ekki sjá í að leggja eitthvað fram sjálfur, ef honum væri það áhugamál að sigla.

Við 4. gr. vil ég gera þá brtt., að fella niður 2. málsgr. hennar, af þeirri ástæðu, að það ákvæði bakar ríkissjóði aukin útgjöld. Í þessari gr. er gert ráð fyrir því, að ef nágrannaprestur geti ekki þjónað kalli þess prests, er færi utan, þá skuli kirkjustj. sjá um og kosta prest til að þjóna brauðinu á meðan. En ég tel, að kirkjustj. ætti ætíð að geta komið því svo fyrir, að nágrannaprestar þjónuðu kallinu. (JónJ: Hvernig yrði það í Grímsey?). Ég geri ráð fyrir, að presturinn í Grímsey mundi fara utan að sumarlagi. En væri hann aftur á móti svo „flott“ að fara utan að vetrarlagi og dvelja yfir veturinn á heitari stöðum, t. d. suður í Monaco eða Ítalíu, kristilegri kirkju til uppbyggingar, þá hefði hann sennilega ráð á því að kosta þjónustu embættisins á meðan. En þetta var nú útúrdúr, sem hv. 3. landsk. gaf tilefni til. — Ég álít, að það sé ástæða til að fella þetta ákvæði niður úr 4. gr. Þetta styðja og þau ummæli hv. þm. Snæf., að læknar, er styrk fá til utanfarar, njóti ekki þessara hlunninda, heldur verði þeir að greiða þeim, er starfar fyrir þá, meðan þeir eru í utanför.

Þá kem ég að síðasta atriðinu, brtt. við 5, gr. Ég álit, að það sé ekki heppilegt að yfirfæra til næsta árs þá umsækjendur frá fyrra ári, sem ekki fengu þá styrk. Sennilegt er, ef frv. þetta verður að lögum, að flestir prestar sæki um styrk. Mun stj. þá áreiðanlega komast í nógu mikinn vanda við að velja úr umsækjendum, þó að ekki séu bundnar hendur hennar með því að flytja umsækjendur til frá ári til árs. Till. mín er þá sú, að fella gr. þessa niður úr frv., þar sem hún virðist aðeins mundu verða til þess að auka stj. vanda.

Er þá lokið mínum brtt. Vænti ég þess, að deildin fallist á þær að athuguðu máli. Og ég hugsa einmitt, að prestunum væru þær kærkomnar, ef þeir vissu, hver forlög frv. annars munu búin. Því að jafnvel þó að það kynni nú að hafast í gegn óbreytt hér í deildinni, þá má ganga út frá því vísu, að því yrði slátrað í Nd.

Læt ég þá útrætt um frv. að þessu sinni. Ég get gjarnan bætt því við sem almennum umr. um þetta mál, að ég tel, að stj. hefði átt að hafa frv. nokkru víðtækara en það er, með því að einskorða það ekki við eina stétt embættismanna, heldur láta það ná til fleiri, t. d. lækna, sem að vísu er nú ætlaður nokkur styrkur í fjárlögum til utanfara, og fleiri manna, er þyrftu að kynnast menningu stórþjóðanna í sínum sérfræðigreinum, svo sem sýslumanna, póstmanna, sem sannarlega veitir ekki af að fylgjast með, og símamanna, er nauðsynlega þyrftu að fylgjast sem bezt með hinum hraðfara teknisku framförum á því sviði, — og svona mætti lengi telja. Við Íslendingar. erum enn tiltölulega afskekkt þjóð og einangruð, þrátt fyrir bættar samgöngur við útlönd, símasambönd, útvarp og fleira þessháttar. En úr því gætum við mikið bætt með því að senda kunnáttu menn þjóðarinnar utan, til þess að kynna sér nýjungar, er þjóðinni mættu að gagni koma. Eðlilegra hefði verið, að stj. hefði fært frv. í þetta form, heldur en að binda það svo mjög við eina stétt. Ég sé ekki eftir þessu fé handa prestunum. Það er rétt, eins og tekið hefir verið fram áður hér í deildinni, að í þeirra hópi hefir þjóðin átt marga nýta menn. Þrátt fyrir þessar breytingar, vil ég samt veita prestunum stuðning, til þess að þeir geti farið utan og kynnt sér nýjungar. Það veldur kannske hneykslun að segja, að prestar skuli kynna sér nýjungar, því að sumir mega ekki heyra það nefnt, en ég sé nú ekkert á móti því.

Því verður ekki leynt, að á síðustu tímum hefir verið reynt af vissum flokki í landinu að halda þeirri skoðun fram í blöðum, og þó einkum á þrengri fundum, að Alþýðuflokkurinn væri flokkur guðleysingja, sem vildu niðurníða alla sanna trú. Þetta hefir verið notað mikið sem kosningabeita, sérstaklega við bæjarstjórnarkosningarnar í vetur, að ég ekki tali um allar greinarnar um guðleysið í Rússlandi, sem á líklega að benda til þess, að Alþýðuflokksmenn ætli að framkvæma eitthvað svipað hér.

Sem betur fer, hefir þessi þröngsýnisstefna ennþá ekki átt langan aldur á landi hér. Um og eftir aldamót ríkti hér talsvert víðsýni í trúmálum, og „innri missionin“, bókstafstrúin eða vítisstefnan svokallaða, átti hér formælendur fáa. Þó var vitað, að í nágrannalöndum okkar, t. d. Danmörku, átti hún sér mikilsmegandi forvígismenn. Einkum átti hún ríkt fylgi við dönsku hirðina. Þá var uppi í Danmörku preláti nokkur, Vilhelm Beck, sem predikaði vítisstefnuna óspart fyrir dönsku þjóðinni. En þetta náði ekki að festa rætur hér, heldur þvert á mót og ýmsir frjálslyndir menn, bæði innan klerkastéttarinnar og utan, töldu stefnuna illa. Mér skildist á þeim árum, að þeir menn, sem mest áhrif höfðu í stjórnmálum, væru frjálslyndir í trúarefnum og teldu ekki, að bókstafstrú biblíunnar væri eina sáluhjálpin.

Þetta hefir því miður breytzt, þegar hinir frjálslyndari menn fellu frá, því að þótt það væri íhaldsstefna, sem réði þá, var hún ekki orðin „organiseruð“. En þegar íhaldsstefnan var búin að skipuleggja sig og var orðin ákveðinn stjórnmalaflokkur, þurfti hún á því að halda að nota trúarbrögðin til þess að gera andstæðinga sína tortryggilega. Íhaldsmönnum er að vísu dálítil vorkunn að taka þetta upp, því að þá skortir góð rök og góðan málstað; en fallegt er það ekki. Og sérstaklega hugsa ég, að þeim verði erfitt að standa fyrir máli sínu þar, sem þessir hlutir eru rökræddir opinberlega. Það getur verið, að á fámennum fundum megi tala til tilfinninga manna um hryðjuverk, sem pólitískir andstæðingar séu að fremja, en það er ekki hægt þar, sem rökræður fara fram, og það því síður, sem allir flokkar hafa innan sinna vébanda menn, sem viðurkenna ekki einhverjar kenningar kirkjunnar. Íhaldsflokkurinn á fjölda manna, sem eftir kenningum hans og baráttuaðferðum eru trúníðingar. Í Alþýðuflokknum eru margir, sem ekki vilja játa bókstafstrúna. En það eru einnig til í öllum flokkum menn, sem eru sannir trúmenn.

Ég kem fram með þessar hugleiðingar í sambandi við frv. um styrk til utanfara presta, til að sýna, að ég vil alls ekki setja fót fyrir, að þeim verði veittur slíkur styrkur. Ég býst við, að flokksmenn mínir vilji það einnig, þótt við viljum ekki ganga svo langt sem í frv. er gert ráð fyrir, og sem gersamlega er vonlaust um að koma fram.

Ég vísa til þess, sem ég hefi sérstaklega talað um brtt., og vænti þess, að þær finni náð fyrir augum hv. dm.