18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

65. mál, kirkjuráð

Hákon Kristófersson [óyfirl.]:

Svo að ég svari nú í sama tón og til mín var talað, þá kvaðst minn kæri vinur, hæstv. dómsmrh., vona það, að ég snerist svo við ræðu hans, að ég myndi fylgja þessu máli út úr hv. d. En ég verð að biðja hæstv. dómsmrh. afsökunar á því, að hann getur ekki snúið mér til fylgis við hégómamál sem þetta.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að í ráð þetta myndu oftast verða valdir menn búsettir í Reykjavík. En hvað þýðir það? Ekkert annað en að það á að fara að hlaða undir sérstaka menn, sem eru búsettir hér í bænum, en eru alls ekki betra maklegir en þeir, sem búa úti á landi. Það hefir verið svo undanfarið, að búnar hafa verið til ýmsar stöður handa mönnum, búsettum hér í bænum.

En þó að hæstv. dómsmrh. haldi því fram, að menn úr Reykjavík myndu veljast í raðið, þá sannar það ekkert, enda er ekki hægt að miða lagasetningu við skoðun eins einstaks mann. Og við hæstv. ráðh. hljótum að vera sammála um það, að til séu menn úti á landi, sem séu a. m. k. eins sjálfsagðir í þetta ráð og hinir, sem búa hér í bænum. (Dómsmrh.: Nálægt bænum). Já, höfum við nokkra menn hér „nálægt“, sem færir væru um þetta starf ?

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að þarna væri frumkvæði til þess að gefa prestum tækifæri til að fá nýtt verksvið. Ég segi nú eins og karlinn: „Engan veginn rengi ég séra Jens, en ótrúlegar þóttu mér sögur hans“. En ég sé ekki annað en þetta sé óþarft, ef góður hugur presta er fyrir hendi. Ég trúi því ekki, að þetta frv., þótt að lögum yrði, yrði nokkur máttarstoð fyrir hina íslenzku þjóðkirkju, sem ég ann alls góðs; ég trúi ekki á það, en það mundi gleðja mig, ef svo væri. En þegar til nefndar kæmi, yrði till. kannske ekki betur seð en t. d. till. kirkjumálanefndar og annara nefnda, svo árangurinn yrði ekki mikill. Ég er alveg viss um það, að þrátt fyrir hinn góða vilja hæstv. dómsmrh. að sýna prestum alla þá velvild, sem skylt er, þá nær sú velvild í þeirra garð ekki lengra en mín velvild. (Dómsmrh.: Þá erum við sammála). Gleður mig, að við skulum vera sammala. Ég hefi enga heimild til að rengja hæstv. dómsmrh. um það. En ég álít, að hér sé verið að byrja á skökkum enda, því þetta er einskis virði fyrir prestana, aðeins fyrir 4–5 menn. Það er rétt, sem hæstv. dómsmrh. segir, að kjör presta séu ósæmileg; svo framarlega sem þjóðin vill halda við kirkjum, á hún að launa prestana svo sæmilega, að þeir þurfi ekki að bera áhyggjur fyrir afkomu sinni. Þess vegna vil ég segja, að enginn skyldi vera fúsari en ég til að taka í hendur hæstv. dómsmrh. til að fara þá leið, en krókaleiðir vil ég ekki fara. Þó samþykkt verði á þessu þingi áætlun fyrir skrifstofukostnað handa prestum, þá er þetta ekki rétta leiðin. Þetta er krókaleið utan um raunveruleikann, sem er að hækka laun presta. Ef þjóðfélagið hefir ekki ráð á að launa prestana sæmilega, á það ekki að vera að burðast með þjóðkirkju. því ef mönnum er launað svo illa, að þeir þurfi að hafa aukastörf fyrir utan sitt embætti, þá verða þeir annaðhvort að vanrækja.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða meir um þetta, sem hæstv. dómsmrh. vildi láta bæði mig og aðra halda, að sér væri svo annt um. Þarf engar getur að því að leiða, hvernig málið fer, að það verður samþ. út úr deildinni. En ég vildi krossa mig, því laus vildi ég vera við að hafa átt þátt í framgangi slíks máls, sem, eins og ég hefi tekið fram, er einskisvert fyrir prestastéttina og þjóðina í heild sinni.