18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

65. mál, kirkjuráð

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það var út af lítilsháttar misskilningi hjá hv. þm. Vestm., að ég vildi segja nokkur orð. Ég hélt því fram, að ósennilegt væri, að héraðsfundir eða prestar vildu kjósa menn í kirkjuráðið, sem væru búsettir langt frá Reykjavík. En náttúrlega geta þeir gert það, eins og frv. ber með sér. En það, sem helzt skiptir máli, er, að þessi nefnd kæmi oftar saman en einu sinni á ári. Þá er það sennilegt, að þeir vildu heldur, að menn gætu náð saman öðruvísi en með langri og erfiðri ferð. Meira en helmingur allra landsbúa eru á suðvesturhluta landsins, svo fyrir þá er hægt um vik. Ég hefði helzt kosið, að kirkjuráðsmenn þyrftu ekki að sækja langt að. Það er betra fyrir málefnið, að þeir geti náð vel saman. Fyrir því þurfa þeir ekki að vera í Reykjavík; 10 þús. íbúar eru á Suðurlandsundirlendi, svo ég taki það næsta ; þaðan er ekki erfitt að komast til Reykjavíkur með stuttum fyrirvara og á ódýran hátt. Annars vildi ég segja út af ræðu sama hv. þm., að ég get ekki séð, að biskup hafi ástæðu til að vera á móti þessari ósk prestanna. Hann á að verða formaður þessarar nefndar, sem eðlilegt er. Svo það er síður en svo, að prestar ætli að ganga fram hjá honum. Ég vil aðeins telja rök fyrir því, að um 75 prestar hafa skrifað mér nýlega og beðið þess, að ég gerði það, sem ég gæti, til þess að styðja þetta mál. Annars býst ég ekki við að sannfæra hv. þm. Barð. eða hv. þm. Vestm., fyrst þeir líta öðruvísi á málið. En ég held, að ég hafi fyrir mitt leyti komið með rök á móti þeirra rökum.