18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

65. mál, kirkjuráð

Magnús Jónsson:

Ég kvaddi mér hljóðs fyrir nokkru síðan. Mér virtist, sem hv. þm. Barð. ætlaði að vera sá eini, sem tæki til máls um þetta frv. við þessa umr. og hv. frsm. menntmn. var ekki viðstaddur. En forseta hafði skotizt yfir, að ég hafði kvatt mér hljóðs, og þegar röðin kemur að mér, get ég vel fallið frá orðinu, því umr. hafa síðar leitt í ljós það, sem ég vildi sagt hafa. Ég tek undir með þeim, sem ekki hafa mikið álit á þessari stofnun, sem nú er verið að setja upp. mér finnst mikið af orðatiltækjum og orðagjálfri í þessu, sem ég kann ekki að meta.

Ég verð að segja hið sama og hv. þm. Barð., að það, sem bagar presta nú, er ekki skortur á kirkjuráði, heldur á lífsviðurværi. Launamál presta verður að leysa, og meðan það er ekki gert, er frv. sem þetta hálfgert ömmufrv. eða hégómafrv. En samt get ég ekki tekið undir það með hv. þm. Barð., að sjálfsagt sé að fella frv. þetta. Gagnsemi þess fer eftir því, hverjir sæti kunna að eiga í kirkjuráðinu. Það er ómögulegt að neita því, að ráð, sem skipað er að áhugasömum og ágætum prestum og safnaðarmönnum, geti komið fram ýmsum þörfum og góðum umbótum á sviði kirkjumálanna. Og ekki virðist nein hætta vera á ferðum, þó að þetta ráð kynni að brjóta upp á ýmsum nýmælum. Það myndu jafnan vera nægilega margir þröskuldar á leið slíkra nýmæla.

Eins mætti vænta þess, að ef biskup landsins væri á einhvern hatt atkvæðalítill, sökum áhugaleysis, elli eða sjúkleika, gæti kirkjuráðið orðið til úrbóta. Og duglegur og áhugasamur biskup myndi geta haft margvíslegan styrk og „moralskan“ stuðning af kirkjuráðinu, er hann vildi hrinda áfram umbótum, sem mótspyrnu kynnu að mæta annarsstaðar.

Eitt er enn, sem mælir með stofnun slíks ráðs, og í mínum augum hið mikilsverðasta, og það er, að líklegt má teljast, að gegnum það kæmu fram ýmsar kvartanir og vandræðamal, sem menn búa yfir og myndu ella þegja yfir. Kirkjuráðið gæti þannig orðið einskonar málpípa fyrir fólkið, og á þennan hatt mætti lækna ýmsar meinsemdir, áður en þær græfu svo um sig, að það yrði um seinan. Einmitt þetta, að fólkið eigi auðvelt með að láta óánægjuraddir sínar koma opinberlega fram, er í mínum augum aðalkostur hins „demokratiska“ fyrirkomulags, sem annars er fremur losaralegt og formlaust.

Það hefir verið vitnað í synodus undir þessum umræðum. Ég er hræddur um, að fæstir hv. þdm. geri sér grein fyrir, hvað synodus er í raun og veru. Menn halda, að það sé einskonar kirkjuþing, en svo er ekki. Synodus er í rauninni ekki annað en skyldusamkoma presta og prófasta hér í grenndinni til að afgreiða viss mál, og til þess þarf ekki nema nokkrar klukkustundir. En síðustu biskupar og þó einkum sá biskup, sem nú er, hefir blásið lífi í samkomuna og gert hana að einskonar kirkjuþingi, sem staðið hefir í nokkra daga. Synodus er því orðið svipað fundarfélagi, sem að vísu getur rætt málin, en hefir ekki löghelgað vald. Úr þessu mætti e. t. v. bæta með löggjöf, en þó má vel vera, að fullt eins heppilegt sé að fylgja hér hinum enska sið og láta venjuna helga, að gerðir synodusar séu teknar til greina.

Ég tel engan vafa á, að synodus fengi aukin áhrif gegnum kirkjuráð, enda er beinlínis ráð fyrir því gert í frv., að ákvarðanir kirkjuráðs þurfi samþykki synodusar við í vissum tilfellum. Líklegt er, að synodus gæti fengið kirkjuráðið til að bera fram ýmsar tillögur sínar, og væri þeim þá vegur greiðari eftir en áður.

Ég get satt að segja ekki séð annað á móti þessu frv. en kostnað þann, sem af því leiðir og hv. þm. Barð. gerði einkum að umtalsefni. Þó dettur mér ekki í hug að halda, að hér sé um stórfelldan kostnað að ræða.

Hv. þm. Barð. fór ekki rétt með, er hann sagði, að kirkjuráðsmenn ættu að fá kostnað sinn greiddan eftir reikningi. Í frv. stendur, að þeir skuli fá greiddan framlagðan kostnað og aðstoð. Ráðið verður ekki launað. Þótt nokkrir menn komi saman í nokkra daga, ætti ekki að þurfa að leiða af því annan verulegan kostnað en ferðakostnað eins eða tveggja manna, því að mér dettur ekki í hug að ætla eða ætlast til, að kirkjuráðsmenn verði ekki valdir hvar sem er af landinu.

Ég get því ekki seð ástæðu til að neita þessu frv. um samþykki, þar sem það er komið fram samkv. óskum prestastéttarinnar, og margt virðist benda til, að það geti orðið kirkju- og kristnilífi í landinu til þrifnaðar.