18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

65. mál, kirkjuráð

Hákon Kristófersson [óyfirl.]:

Ég hefi ekki neitt sérstakt að athuga við ræður þeirra hv. þm. V.-Ísf. og hv. 1. þm. Reykv. Þær voru byggðar á skoðun þeirra á þessu máli, og við því er ekkert að segja. En ég vil sérstaklega beina því til hv. 1. þm. Reykv., að ég álit, að hér sé um einskisvert smáatriði að ræða fyrir prestastéttina, til þess að draga athyglina frá aðalatriðinu, sem er: hækkuð laun. Ég held, að andlegu og líkamlegu lífi þeirra væri betur borgið á hann hátt en með stofnun kirkjuráðs.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Vestm., að kirkjumálaáhugi hæstv. dómsmrh. virðist hafa vaxið mjög upp á síðkastið, þ. e. a. s. ef hugur fylgir máli. (Dómsmrh.: Ef tilgáta hv. þm. Vestm. er rétt, eru það frv., sem eiga að tala fyrir kosningarnar).

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að kirkjuráðið gæti orðið til þess, að fram kæmu kvartanir og vandræðamál, sem ekki kæmu fram ella. Ég er hissa á, að slíkur gáfumaður sem þessi hv. þm. er skuli láta aðra eins endemisvitleysu út úr sér. Heldur hann, að prestar landsins séu þeir heiglar, að þeir liggi á vandræðamálum í söfnuðum sínum og láti þau ekki koma fram í dagsins ljós?

Hv. þm. sagði ennfremur, að núv. biskup hefði blasið nýju lífi í synodus. Má þá ekki búast við, að þetta líf haldist og áhrif synodusar fari vaxandi ? ég er alveg ósamþykkur hv. 1. þm. Reykv. í því, að ráð eins og kirkjuráðið verði hagstæðara fyrir prestastéttina en þeirra eigin þing. En það, sem máli skiptir her, er það, að þingið má ekki láta villa sér sýn með smáatriðum, heldur stefna beint að því marki að hækka laun presta og bæta kjör þeirra.