07.03.1931
Efri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Jón Baldvinsson:

Ég veit nú ekki, hvað af því, sem hv. 6. landsk. flutti hér fram, getur talizt rök fyrir hennar máli, fram yfir það, sem búið var að segja áður. Það skyldi þá helzt vera dylgjurnar, er fólust í ræðu þm. og áttu sennilega að beinast gegn mér, að þetta væri allt af falsi og lævísi gert, sem ég hefði borið fram, og þar sem ég hefði talað um, að ég vildi veita prestunum stuðning, þá væri það ekki af heilindum mælt, því að brtt. mínar mundu skapa þeim erfiðari aðstöðu.

Ég veit ekki, hvaða rétt hv. 6. landsk. hefir til þess að vera með slíkar dylgjur. Það eina, sem gæti réttlætt það, er, að hún hafi ekki treyst sér til þess að svara ýmsu af því, sem ég bar fram um störf íhaldsins og afstöðu í þessum málum. (GL: Það kom ekkert málinu við!). Jú, það kemur málinu mikið við. Og ef hv. þm. hefir fylgzt svona vel með um það, hvernig þingið hefir hagað sér gagnvart prestum, að það hafi sparkað í þá frá öllum hliðum, þá gæti hún séð, að þeir fengu fyrir nokkrum árum launauppbót; og ef hún rannsakaði það nánar, mundi hún sjá, að mitt atkv. réði því, að breytingarnar komust áleiðis. Ég hefi því í verkinu sýnt fulla velvild til prestastéttarinnar að því er launakjörin snertir. Og ég hugsa, að hún mundi heldur þurfa að leita í sínum flokki og berjast í honum, til þess að fá hann til að veita prestunum lífvænleg laun, heldur en að bregða okkur Alþýðuflokksmönnum um það.

Fleira var það ekki, sem hv. þm. sagði, er svara þarf, annað en það, að hún sagðist heldur vilja hætta á að láta frv. fara fram eins og það er nú og eiga á hættu, að það felli, heldur en að draga úr því. En ég held sannast að segja, að ég fari fullt eins nærri um hvernig málinu mundi tekið hér í þinginu. Hv. þm. veit, hver tregða hefir verið hér í d. Við 2. umr. var rétt að það slysaðist í gegn við margendurtekna atkvgr. Þegar svo byrjar hér í Ed., held ég að ganga þess verði erfið í Nd.

En þeir um það, sem álita það betur fallið. það breytir ekki afstöðu minni til brtt., og ég vona, að þær verði samþ., þótt þær dragi eitthvað úr frv. Það er betra fyrir prestana að fá einhverja bót þótt af skornum skammti sé, heldur en að allt frv. falli.

Þar sem hv. þm. sagði, að prestarnir væru hraktir og hrjáðir og væru skotspónn fyrir dómum almennings, þá held ég, að það sé ofmælt. Hitt er ekkert undarlegt, að þegar prestarnir segja eitthvað hneykslanlegt í stólnum, þá sé talað um það á eftir, því að menn hafa ekki leyfi til að standa upp í kirkjunni og andmæla. Þetta verða þeir að þola, fyrst þeir eru svo einvaldir að geta haldið ræður sínar an þess að nokkur geti orðið til andsvara. En þar sem þeir eru góðir og dugandi menn, hafa þeir verið í miklum metum hjá almenningi. Hitt er eðlilegt, að þeir lélegri hafi orðið að sæta dómum. Það er eðlilegt, því að almenningur hér á landi er frjálslyndur í trúmálum og kann illa þröngsýnisstefnunni sem íhaldsflokkurinn hefir gert að flokksmáli til þess að troða upp á þjóðina, þó að hún eigi ekki neina stoð í óbreyttum íhaldsmönnum, heldur þyki hentugt mál hjá foringjunum til að nota á vissum tímum.