07.04.1931
Neðri deild: 40. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (317)

123. mál, dragnótaveiðar

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég tel ekki ástæðu til að vera langorður uni þetta frv. En af því mér virðist talsverður vígahugur í sumum hv. þm. út af því, finnst mér sanngjarnt að búa í haginn fyrir þá, sem á eftir taka til máls, með nokkrum orðum, láta þá fá eitthvað að glíma við.

Efni þessa frv. er fyrst og fremst það, að lengja tímann, sem dragnótaveiðar í landhelgi eru leyfðar, úr 3 upp í 7 mánuði á ári. Nú eru þær leyfðar frá 1. sept. til 1. des., en í mínu frv. er lagt til, að þær verði leyfðar frá 1. agúst til marzloka.

Annað nýmæli frv. er það, að jafnframt því, að veiðitíminn er lengdur, sé ráðh. heimilað að ákveða með reglugerð möskvastærð nótanna, lágmarksstærð þess fiskjar, sem hagnýta megi úr afla dragnóta. Er það til að koma í veg fyrir, að ungviðið sé drepið að óþörfu. Slík ákvæði hafa aðrar þjóðir sett, þar sem stunduð er samskonar veiði og hér er um að ræða, og hefir það reynzt vel.

Í þriðja lagi gerir frv. ráð fyrir, að 8. gr. laganna falli burt. Hún er þess efnis, að ráðh. skuli vera heimilt, eftir tillögum hlutaðeigandi héraðsvalda, að lengja þann tíma ársins, sem dragnótaveiðar í landhelgi eru bannaðar, frá því, sem lögin ákveða. Á fiskiþingi hefir þetta mál verið mikið rætt, og var þar samþ. að skora á Alþ. að fella úr lögunum þessa gr.

Þegar lög þessi voru til umr. á þingi 1928, töldu margir illa farið að hallast að því ráði, sem með þeim var upp tekið. Og óánægjan með þau hefir farið vaxandi. Sjómenn víðsvegar um land telja þau valda miklum skaða, en álíta þau hinsvegar til því nær einskis gagns.

Tvær ástæður voru til þess, að bannaðar voru dragnótaveiðar í landhelgi. Önnur sú trú manna, að dragnótaveiðar spilli veiðiskap almennt og eyðileggi fiskstofninn. Hin: ótti landsmanna við það, að Danir notuðu sér svo mjög þá aðstöðu, að hafa sama rétt til dragnótaveiða í landhelgi og við sjálfir, að þeir myndu bera okkur ofurliði í þessari grein fiskveiðanna, ef hún væri ekki þröngum takmörkum bundin.

Hvað fyrra atriðið snertir, þá mun það ekki vera ofmælt, að flestir, sem þessu efni eru kunnugir, telji óttann við það, að notkun dragnóta spilli veiðiskap almennt, sömu vitleysuna og það, þegar menn álitu þau veiðarfæri, sem nú eru mest notuð, línur og þorskanet, hættuleg veiðiskapnum. Þessi hjátrú varð svo mögnuð, að það var jafnvel bannað um eitt skeið að nota þorskanet og línur hér við Faxaflóa. Ég held, að allir núlifandi menn séu á þeirri skoðun, að óttinn við notkun þessara veiðarfæra hafi ekki haft við nein rök að styðjast, og sama mun reynslan sýna um óttann við dragnótaveiðarnar. Engar sannanir eru fyrir því, að þær eyði fiskstofninum fremur en aðrar veiðiaðferðir. Dragnótin er létt og veigalítið veiðarfæri, sem ekki er hægt að nota nema þar, sem er mjúkur og slettur botn. Þorsksilin hafast aftur á móti við á ósléttum og grýttum botni, svo ekki er mikil hætta á að dragnótirnar grandi þeim.

Um hitt atriðið, að Danir mundu flykkjast hingað og bola okkur frá að hafa hagnað af dragnótaveiðum, er svipað að segja. ég veit ekki betur en Danir hafi yfirleitt sama rétt til fiskiveiða hér við land og við sjálfir, og hefir þó reynslan hvergi synt, að þeir stæðu betur að vígi en við, enda yrði það harla óeðlilegt. Reynslan hefir þvert á móti sannað, að við stöndum Dönum miklu framar í fiskveiðum hér við land, jafnvel líka kolaveiðum með dragnót. Þá 3 mánuði, sem kolaveiðar með dragnot eru leyfðar, veiða Danir ekki nema 1/3 á við okkur. En þegar þeir telja sig hafa hag af að senda hingað skip til að veiða kola þennan stutta tíma, sem dragnotaveiðar eru leyfðar, þá hljótum við að hafa af okkur stórfe með því að stunda ekki slíkar veiðar það sem hægt er. Það er engin ástæða til að óttast, að við fórum halloka fyrir Dönum fremur, þó veiðitíminn sé lengdur.

Það er rétt, að ég geri tilraun til að sýna hv. þdm. , fram á, hvað hér er um mikið hagsmunamál að ræða. Árni Friðriksson fiskifræðingur hefir samið skýrslu um lifnaðarháttu kolans og kolaveiðar við strendur Íslands. Ætla ég með leyfi hæstv. forseta að skýra frá og lesa upp nokkur atriði úr henni, og byrja þá á byrjuninni.

Í sambandi við þá trú manna, að dragnótaveiðar spilli veiðiskap, segir fiskifræðingurinn, að skarkolinn hafist við aðeins þar, sem er slettur og mjúkur leirbotn, en á þeim stöðum lifi þorskaseiðin ekki. Fullyrðir hann því, að óttinn við, að dragnótaveiðar eyðileggi fiskstofninn, sé ástæðulaus. Fiskifræðingurinn segir, að við suður- og vesturströnd landsins byrji kolinn að hrygna í marz og þar sé hrygningartímanum lokið síðast í maí. En norðan og austanlands, þar sem sjórinn er kaldari, byrjar hrygningartíminn í maí og stendur yfir fram í júlí eða byrjun ágúst. Ef menn vilja athuga frv., sjá menn, að kolinn er friðaður einmitt um hrygningartímann, frá marz til júlíloka. Kolinn er grunnsævisfiskur og lifir ekki á meira en 100 m. dýpi; annarsstaðar er hans ekki að leita.

Ég hefi tekið upp yfirlit úr árbók, sem hagstofan hefir gefið út um fiskveiðar 5 þjóða í Evropu, sem ég skal lesa upp fyrir deildina. Þar er og reiknað út, hvað þessar þjóðir hafa fengið fyrir kg. af heildaraflanum að meðaltali. Árið 1327 hafa Íslendingar veitt 249410 þús. kg. af fiski alls, sem hefir verið að verðmæti 33729 þús. kr., meðalverð 13,6 au. Danir veiddu sama ár aðeins 83951 þús. kg., eða 1/3 á við veiði okkar Íslendinga, og seldu aflann fyrir 40280 þús. kr., eða fyrir 7 millj. kr. meira en við Íslendingar fengum fyrir okkar afla, sem var þrefalt meiri að vöxtum og þyngd. Danir fengu 48 au. fyrir hvert kg. að meðaltali. Svíar veiddu 79640 þús. kg. og seldu aflann fyrir 32894 þús. kr.; meðalverðið var 41,3 au. Þjóðverjar veiddu 240333 þús. kg. og fengu fyrir aflann 66742 þús. kr.; meðalverð 27,8 au. á hvert kg. Bretar veiddu 1020729 þús. kg. og seldu aflann fyrir 379G95 þús. kr.; meðalverð 37,2 aurar.

Á þessu yfirliti sést, að við Íslendingar fáum ekki helming verðs fyrir kg. á við það, sem Þjóðverjar fá, ekki nálægt 1/3 á við Dani, tæpan 1/3 á við Englendinga. Þetta liggur í mörgu. Fyrst og fremst í því, hvernig fiskurinn er verkaður og hvar hann er seldur, en jafnframt mikið í því, eftir hvaða fiski er sótzt. Það sýnir sig, að þær þjóðir, sem sækjast eftir öðrum fiski en þorski, fá hæst verð fyrir sinn afla. En hinar, sem eingöngu hirða um síld og þorskveiðar, fá lægst. Við Íslendingar leggjum minnsta stund á að veiða kolann, sem er langverðmætasti fiskurinn.

Þetta verður ljóst, ef menn athuga yfirlit yfir kolaveiðar hér við land. ég hefi hér skýrslu frá fiskifræðingi Íslands um skarkolaveiðar Íslendinga og annara þjóða hér við land á árunum 1919–'28. Bretar veiddu árið 1919 92.6% af öllum kola, sem veiddur var við landið það ár. Íslendingar 6,4%, en aðrar þjóðir til samans 1%. Árið 1924 veiddu Bretar 88,9%, Ísl. 6,2%, aðrar þjóðir 4,9%. — 1926 veiddu Bretar 83,2%, Ísl. 10,3%, aðrar þjóðir 6,5%. 1928 veiddu Bretar 81%, Ísl. 9,3%, aðrar þjóðir 9,7%.

Skarkolaveiði hefir þessi ár við Ísland numið í smálestum: árið 1919 6765 smál., 1923 6323 smál., 1926 6526 smál., 1928 6455 smál. Hluti Íslendinga þessi ár af veiðinni hefir orðið árið 1919 um 400 smál., 1926 670 smál., 1928 601 smál. af 6455 smál., eða 9,3%, eins og áður er sagt. Af þessu sest, hve mikils — eða réttara sagt lítils — við njótum af skarkolaveiðunum hér við land. Aldrei náð meiru en 9,3% af kolaaflanum, verðmesta fiskinum. Eftir skýrslu hagstofunnar hafa Íslendingar veitt árið 1927 688 smál. af skarkola og fengið fyrir hvert kg. 90 au., eða h. u. b. sjöfalt á við meðalverð. Um veiðiskap Dana hefi ég aflað mér upplýsinga. Árið 1927 höfðu Danir 4 skip hér við land og veiddu samtals 230 smál. af skarkola, eða 1/3 á við veiði okkar þá. Fyrir kg. fengu þeir tæpa 90 au., sama og við Ísl. Árið 1928 höfðu Danir einnig 4 skip, veiddu 95 þús. kg. og fengu 1 kr. fyrir kg. 1929 höfðu þeir einnig 4 skip, veiddu 125 þús. kg. og fengu fyrir kg. 1.09 kr. Mér er ekki kunnugt, að til sé sérstök skýrsla yfir veiði Færeyinga hér við land. En þeir eru taldir með öðrum þjóðum í skýrslu fiskifræðingsins, og með leyfi forseta ætla ég að lesa nokkur orð úr skýrslu hans. Hann segir: „Það eru Bretar, sem eru að eyða skarkolanum okkar. Þeir fá árlega um 80–90% af öllum skarkola, veiddum við Ísland, eða með öðrum orðum, þegar við Íslendingar sjálfir og allir útlendingar við Ísland, aðrir en Bretar, veiðum 1 eða 2 skarkola, veiða Bretar einir 8–9 kola. Við erum því að friða kolann okkar fyrir útlendinga, sérstaklega Breta, því sjálfir veiðum við ekki nema 1/10 hluta á móti útlendingum, eða varla það að jafnaði. Þetta er þeim mun meira áberandi, þegar þess er gætt, að við veiðum langmest allra þjóða af flestum öðrum nytjafiskum vorum hér við land, eins og sjá má á þessum tölum: Árið 1927 veiddu Íslendingar 164783 smál. af þorski, en Bretar, sem komu ná næstir, veiddu þá hér 104683 smál. Sama ár veiddu Ísl. 51371 smál. af síld, en Norðmenn, sem komu næstir, fengu 18528 smál. En af skarkola veiddu Ísl. þá aðeins 688 smál., en Bretar 6488 smál.“ — Að lokum vil ég lesa upp niðurlagsorð skýrslu fiskifræðingsins um notkun dragnotar: „Það er óþarfi að lýsa dragnótinni hér og nægilegt að taka það fram, að hún er handhægt og ódýrt veiðarfæri, sem getur gert fátækum fiskimönnum það fært að nota björgina, sem oft er við bæjardyrnar, an mikils mannafla eða kostnaðar. Dragnót er einungis hægt að nota á sand- eða leirbotni, því hún er veikgerð og þolir hvorki grýttan botn né þaragróður. Hún getur því ekkert mein unnið þaragróðrinum, sem reyndar er lítils virði fyrir útgerðina, og það mjög óbeinlínis. Ungviði þorskins og annara bolfiska getur hún ekki grandað svo neinu nemi, af þeim ástæðum, sem nú skal greina: Í fyrsta lagi er þorskurinn ekki við land, nema á meðan hann er á unga aldri, þegar hann er svo lítill (um 20 cm.), að hann getur hæglega smogið vanalega dragnot. Í öðru lagi hefst hann helzt við á þara og grjóti meðan hann er á grunnsævi, eða einmitt á þeim stöðum, sem dragnotaveiðum verður ekki komið við. Það er með öllu ómögulegt, að dragnótin geti eyðilagt „botninn“ eða lífsskilyrði fiskanna, þar sem hún er notuð, því bæði er það, að hún nær litlu af þeim dýrum, sem að gagni mega koma sem fiskfæða, og svo er hitt, að slíkum dýrum er engin hætta búin, þótt þau kæmu inn í skipið, því að þau lifa alveg eins vel fyrir það, þegar þeim er kastað út aftur. Niðurstaðan í mínum augum getur aðeins orðið ein. Og hún er sú, að með þeirri lagasetningu, sem nú er gildandi, höfum við af okkur ársárlega mikið fé, sem auðvelt er að taka með litlum tilkostnaði við strendur landsins. Þetta er því meira glapræði, sem meira og meira er unnið að því að flytja fiskinn ísvarinn á útlendan markað. Það sýnir sig, að útlendir togarar eru fengsælli en íslenzkir, þar sem þeir fáa 9 fiska meðan Íslendingar fá 1.

Við erum, eins og fiskifræðingurinn segir, að friða kolann í landhelgi handa útlendingum, sem veiða fyrir utan landhelgi, og stundum jafnvel innan landhelgi, og þeir mest, sem frekastir eru og ásælnastir.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta nú, en vil mælast til þess, að frv. verði, að umr. lokinni, vísað til sjútvn., og vil ég biðja þá n. að athuga, hvort ekki er hægt að segja gerr en í frv. stendur, hvað er dragnót. Skilgreiningin er tæpast nógu skýr. Ég vænti þess, að n. vilji taka þetta til athugunar um leið og hún athugar frv.