07.04.1931
Neðri deild: 40. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (319)

123. mál, dragnótaveiðar

Sveinn Ólafsson [óyfirl.]:

Ég finn ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frv. að þessu sinni, sumpart fyrir það, að ég býst við að mér gefist kostur á að fast við það í þeirri n., sem það væntanlega verður sett í, en einkum vegna þess, að hv. þm. N.-Þ. hefir nú með ræðu sinni tekið nálega allt það fram, er ég vildi sagt hafa í þessu efni. ég get lýst því yfir, að ég vil einmitt undirstrika það, sem hv. þm. sagði um málið.

Það eru aðallega þrjú atriði, sem lagt er til í þessu frv., að breytt verði í gildandi lögum. Hið fyrsta er lenging veiðitímans, sem leiðir til þess að gera samkeppni Dana og Færeyinga við okkur Íslendinga haganlegri fyrir þá. Veiðitíminn var áður aðeins september- og októbermánuðir, en nú er ágústmánuði bætt við, og það til stórhagnaðar fyrir þessar þjóðir.

Annað atriðið er það, að heimila ráðh. að setja reglugerð um meðferð veiðarfæra á þessum skipum, og get ég vel fallizt á, að það sé þarft ákvæði.

Þriðja atriðið er niðurfelling 8. gr. laganna frá 1928, sem einmitt kveður á um rétt hinna einstöku héraða til þess að verja sínar landhelgilóðir. Það er augljóst, að hér er alveg sérstök ástæða til þess að taka tillit til hinna mörgu ákveðnu óska hlutaðeigenda um friðun miðanna, sem sýna svo glögglega, að það er alls ekki tímabært að fara að breyta eða fella niður ákvæði 8. gr.

Ég vil segja það út af ræðu hv. flm., að mér fannst hann ekki skýra rétt frá, hver reynslan væri í þessum efnum, því hann gekk alveg framhjá að tala um athafnir keppinauta okkar, Dana og Færeyinga, um þessa veiði. Færeyingar hafa að vísu fáir stundað þessa veiði hér fyrr en nú upp á síðkastið, en þeir eru nú farnir að sækja hana fastar, og Danir eru þegar farnir að sækja hingað af kappi. Það er alveg ljóst, að afleiðingin af rýmkun lagaákvæðanna yrði til þess, að þessar þjóðir mundu stórum auka útgerðina hér við land. Það vita allir, að kolaveiðin er talin dýrmæt veiði og því mjög eftirsóknarverð. Fiskiskýrslur Dana sýna það, að þessi veiði er þorrin þar, en fer mikið minnkandi við Færeyjar. Er það augljóst, hvaða áhrif það hefði, þegar þannig stendur á, að opna fyrir þeim landhelgina hér meira en þegar er.

Ég ætla þá ekki að tefja tímann með því að ræða þetta frekar. Ég býst við, að þeir, sem aðeins byggja á fiskiveiðaskýrslunum í þessu máli, telji okkur ekki dómhæfa, en við því er ekkert að gera, og verður að fara um þetta mál sem auðið er, en ég legg lítið upp úr niðurstöðum fiskiveiðaskýrslnanna.