07.04.1931
Neðri deild: 40. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (321)

123. mál, dragnótaveiðar

Sigurður Eggerz [óyfirl.]:

Ég ætla aðeins að gera lítillega grein fyrir atkv. mínu um þetta mál, en ætla mér ekki að vera langorður. — Mér skilst svo, að ekki blási byrlega fyrir kolanum, ef þetta frv. er samþ. Fyrst er lýst, hvernig kolinn er veiddur utan landhelgi, en ef líka má veiða hann innan landhelgi, þá er aðstaða hans verri. Það liggur í hlutarins eðli, að hvað fínt sem þetta veiðarfæri er, þá er það skaðlegt fyrir kolann. Það þarf því enginn að vera í vafa um það, að með því að rýmka aðganginn að kolanum, verða lífsmöguleikar hans minni og árasin á hann meiri en áður.

Annað atriði er veiðin utan landhelgi, sem hefir verið aðalatriðið, því veiðin innan landhelgi hefir verið ógnar lítil; en hv. þm. N.-Þ., sem er sérfræðingur í þessu máli, hefir talað ýtarlega um þetta, svo óþarft er að bæta nokkru þar við, en enginn, sem talað hefir í þessu mali, hefir sannfært mig um það, að hann ætli að standa á móti þessu.

Hv. flm. syndi í ræðu sinni skýrt fram á, hve mikilsverður kolinn er, hverja þýðingu hann hefir og hve verðar hann er á markaðinum. Þetta er skýr ábending um, að sambandsjóð okkar noti sér þennan rétt. Enginn áfellist hana, þó hún geri það, en það má áfellast okkur fyrir að vilja tæma þessa kolauppsprettu okkar.

Atvinnuleysið þjáir allar þjóðir, einnig sambandsþjóð okkar, Dani; þeir kunna vel með dragnót að fara, og sem að líkindum lætur, færa þeir sér það í nyt, en það er auðvitað mál, að aðstaða kolans verður verri, ef bæði Íslendingar og Danir ráðast inn í landhelgi, og má þá búast við, að þessi gullnáma verði fljótlega tæmd. — Aðalatriðið er, að kolanum fækkar, vegna þess, hve veiðarfærin eru hættuleg.

Ég átti um daginn tal við fatækan fiskimann, og talaði hann einmitt um þetta frv. Sagðist hann hafa stundað dragnotaveiðar, og væri aðstaðan betri að stunda þær innan landhelgi, en aðstaða smábátaútvegsins hér til að taka þátt í veiðunum væri verri síðan varðskipið Þór hefði tekið þátt í þeim, því það seldi fiskinn svo ódýrt, — og sýndi hann mér fram á þetta með ýmsum rökum, en ég sagði: „Sýnist yður rétt að hleypa stærri þjóðum, sem koma með þetta veiðarfæri, inn í okkar landhelgi og láta þær eyðileggja fyrir okkur?“ Þá segir þessi fátæki fiskimaður, sem örðugt á uppdráttar og á í brösum við Þór: „Ef það er að óttast, að kolinn gangi til þurrðar, þá vonast ég til, að þér greiðið ekki atkvæði með þessu frumvarpi“.

Þetta segir þessi fiskimaður, þótt hann hefði hag af þessum veiðum; hann er ekki samþ. frv., ef hann heldur, að það verði hættulegt fyrir þjóðina. Ég vildi, að fleiri hugsuðu eins, og ættu allir að taka hann til fyrirmyndar.