08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (327)

123. mál, dragnótaveiðar

Jón Ólafsson [óyfirl]:

það er ekki gaman að eiga við slíkar röksemdir og ræðuhöld, sem hv. þm. N.-Þ. hefir flutt hér um tíma. Að mínum dómi kemur þar fram sama hugsunin og hjá karlinum hér í Vesturbænum, þegar átti að fara að gera höfnina hér í Reykjavík. Þá var það, að taka átti klett, sem guð hafði sett í fjöruna og látið standa þar frá ómunatíð. Og hann var svo afturhaldssamur karlinn, að hann áleit, að ekki gæti komið til mála að rota við þeim steini, sem guð hafði látið standa þarna svona lengi. Hann kvaddi heiminn með þeirri hugsun, karltuskan, að guð mundi vissulega í hefndarskyni láta rigna eldi og brennisteini yfir þennan bæ. Slíkar hugsanir sem þessar er ómögulegt að hafa orð um. Þær fordæma sig sjálfar.

Þá talaði hv. þm. um, að við hefðum einusinni veitt kola við bryggjurnar hér. Og skildist mér jafnvel á honum, sem hann væri hlynntur því, að við hyrfum aftur að því ráði.

Við lifðum einu sinni því auma þjóðlífi, að ekki voru aðrar leiðir til að afla fiskjar en að fara með háf eða poka með gjörð hér niður á bryggjur eða klappir. Við höfum nú bundið þá bagga, að við getum ekki snúið aftur til svo frumstæðra aðferða sem þessara. Við lifum sem betur fer ekki svo aumu lífi nú, að við förum að stunda atvinnu, sem ekki gefur okkur að éta.

Ég hefði viljað, að hv. þm. hefði tekið betur eftir orðum mínum í gær. Við Íslendingar hofum ekki nema 10% af veiddum fiski hér við land á móti Englendingum, og höfum því heldur ekki meira en 10% af veiddum kola.

Þessi hv. þm. og þm. Borgf. töluðu með lítilsvirðingu um íslenzka sjómenn, og að þeir gætu ekki lært að fara með „snurrevaad“. Sögðu þeir, að Íslendingar gætu ekki lært að fiska kola. mér finnst, að þeim hefði verið nær að viðurkenna hinn mikla dugnað Íslendinga og hæfileika þeirra til að fara með öll möguleg veiðarfæri, og þá jafnframt að fiska allra manna mest með þeim.

Þessi óvirðing, sem þarna kom fram, er auðvitað með öllu ranglát og á við engin rök að styðjast, og það nær vitanlega engri átt að bera það fram í þessari hv. d., að sjómenn okkar geti ekki lært að fara með „snurrevaad“, sem þó mun auðveldust allra veiðarfæra næst haldfærinu. Sérstaklega þegar þess er gætt, að okkar sjómenn eru taldir beztir og ötulastir fiskimenn á Norðurlöndum, og þó víðar væri leitað.

Ég meina, að hið eina, sem orðið gæti til þess að gera þátttökuna í kolaveiðunum almennari, sé það, að nota þá smábáta, sem við eigum, en fara ekki að ráðast í kaup á stærri skipum að svo stöddu, og flytja svo fiskinn ísaðan. Með þessu móti hygg ég, að við gætum aukið skarkolaveiðar okkar að miklum mun. Og ég býst ekki við, að hann hafi heldur neinar röksemdir á móti þessu.

Þá sagði hv. þm., að skarkoli hefði þekkzt hér lengi. Það má vel vera. En ekki held ég, að vert sé að gera mikið úr þeirri þekkingu, sem menn höfðu á honum áður en þeir fiskifræðingarnir Árni og Bjarni komu til. Má vera, að þm. kjósi sömu þekkingu á gildi skarkolans og meðferð, sem tíðkuð var um það leyti, sem ég kom hér fyrst til bæjarins. Þá höfðu Seltirningar það sem sé þannig, að þeir báru skarkolann á túnin hjá sér. Og viðvíkjandi vísindunum, þá finnst mér alldjarft af honum að slá því föstu, að þau hafi ekkert að segja í þessu mali. Við vitum það eingöngu fyrir atbeina vísindamanna, að skarkolinn er að ganga til þurrðar hér við land. Það ætti því að vera skylda okkar að ráða okkur á hann, áður en útlendir menn, sem hafa betri skipakost, ljúka við að útrýma honum.

Mótstöðumenn þessa máls eru mjög hræddir við það, að Danir taki einhvern ofurlítinn skerf frá okkur jafnhliða því, sem við sjálfir veiðum, og virðist það vera eitur í þeirra beinum. Hér kemur sama hugsunin fram og hjá þeim mönnum, sem vilja banna öðrum að njóta þess, sem þeir af menningarleysi og athafnaleysi ekki geta aflað sér sjálfir. Þess vegna, þegar hv. þm er að tala um að geyma kolann, gengur hann alveg framhjá vísindunum og þeirri reynslu, sem menn hafa fengið eftir miklar tilraunir, og heldur sér við sína gömlu skoðun, er hann telur, að kolinn muni aukast eftir vissan árafjölda. — (BSv: Ég sagði ekki árafjölda). Jú, ég held, að hv. þm. hafi verið að tala um árafjölda, en það skiptir nú ekki miklu mali. Hann talaði um, að kolinn væri að hverfa á Vestfjörðum. Allir fiskimenn vita, að fiskurinn er ekki alla tíð á sama stað, heldur hverfur hann einn góðan veðurdag af þessu miði og færir sig yfir á annað. Þeir vita, að fiskurinn er ekki staðbundinn inni á fjörðum allt árið.

Þá var hv. þm. að „citera“ Englendinga, að þeir vildu friða Faxaflóa, vegna þess að smálúðan væri að ganga til þurrðar. Það koma alltaf fram raddir um þetta, — hjáróma raddir. Menn hafa haldið, að fiskurinn sé eins og nokkurskonar kálfur í fjósi innan landhelginnar. Eins og grasbítur, sem lifi eingöngu á því, sem er við botninn, og sé mjög staðbundinn innan landhelginnar. Þessi skoðun er að vísu mjög almenn. En þó þykir mér kynlegt, að hv. þm. N.-Þ skuli dirfast að halda henni fram í þessari hv. d., meðan verið er að ala upp vísindi, sem sanna hið gagnstæða. Og yfirleitt er það þessi frumstæða skoðun, að fiskurinn lifi eins og grasbítur við botninn, sem einkennir ræður hv. mótstöðumanna frv. Vísindin segja, að átan svífi í sjónum um allt, og mun því nú tæplega á móti mælt.

Hv. þm. var að spyrja, hvað ég ætti við, þegar ég væri að tala um afkomu þjóða og að bæta hag þeirra með fiskiveiðum og öðru slíku, sem tekjur gefur ærnar í ríkissjóð. Auðvitað get ég ekki gefið neitt heildaryfirlit yfir það, hve mikið það mundi bæta hag þjóðarinnar, að menn færu að stunda kolaveiðar almennt. Hann getur kynnt sér, hve mikið við höfum grætt á kolaveiðum hingað til: Og ef við bættum við okkur 30–40% kolaveiði, þá myndi þetta gefa okkur margar millj. kr. tekjuauka og gera okkur hæfari til að standa undir byrðum þeim, sem þjóðfélagið leggur okkur á herðar. Og svona lauslega ályktað held ég, að við myndum brátt veiða helming alls kola, sem veiddur er hér við land, og þá er vist, að það myndi auka tekjur okkar stórum.

Hv. þm. N.-Þ. fór ómaklegum og óvirðulegum orðum um Fiskifélag Íslands og talaði mikið um, að því væri illa stjórnað. Það stendur nú ekki næst mér að fara að bera sakir af stjórn Fiskifélagsins, en ég kann alltaf illa við að bera sakir á fjarverandi menn, sem ekki hafa tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér. En ég skal játa, að mér þykir félaginu vel stjórnað, þótt ekki sé forsetinn leiðitamur eða þægur við dutlunga ýmissa manna og heraða. Og hann mun ekki ljá þeim málum fylgi sitt, sem hann telur að ekki eigi samleið með hagsmunum þjóðarinnar í eðli sínu. Það er eitt mál, sem hann er ákveðinn á móti og hefir lengi verið, en það er að banna dragnotaveiðar á sumum tímum árs. Hann álítur, að þetta bann sé sprottið af einskærri þröngsýni, ef ekki öðru verra.

Í Keflavík hafa þeir, sem sektaðir hafa verið fyrir veiðar of nærri línu, tekið sig saman og hafið mótmæli. Upp af þessu hefir risið sú alda, að það sé ótækt að taka ekki þann fisk, sem berst svo að segja upp í landsteina hjá mönnum, sú alda, að héraðið hafi ekki efni á því að láta kolann sveima hjá ár eftir ár án þess að tilraun sé gerð til þess að hagnýta sér hann, en íbúarnir séu í þröng fjárhagslega. Þarna kom sú stoðin, er fyrst hneig undir þetta frv., og ég er ekki í vafa um, að fleiri koma á eftir. En kolaveiðarnar koma aldrei að verulegu gagni fyrr en linað er á lögunum um dragnótaveiðar í landhelgi, eða þau eru brotin á bak aftur af þeirri fyrirlitningu, sem allir eiga að fyllast gagnvart jafnranglátum lögum. Þannig var það um netalögin hér áður, að menn vildu heldur láta setja sig í fangelsi en halda slík lög, sem hefta mjög framtak manna og sjálfsbjargarviðleitni.

Að lokum vil ég geta þess, að ég hefði kunnað betur við, að hv. þm. hefði borið þessar sakir á stjórn Fiskifél. á þeim fundi, er hann sat á síðast.