08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (328)

123. mál, dragnótaveiðar

Benedikt Sveinsson:

Hv. 3. þm. Reykv. er ekki beinlínis minnisgóður, ef hann man það ekki, að það var ég, sem stóð einn uppi, er menn vildu leggja niður félagið í vetur. Þá var það ég, sem tvo daga samfleytt varpaði allþungum ásökunum á stjórnina. Því að vitanlega var það fyrir illa og óheppilega stjórn félagsins, að mönnum kom sú hugsun, að leggja bæri það niður. En það var sakir áhuga míns og trúar á nauðsyn slíkra félaga, sé þeim vel stjórnað, að ég barðist fyrir því, að félagið fengi að lifa og starfa áfram og þá jafnframt, að það fengi nýja og betri stjórn. Og ég vildi aðeins benda hv. þm. á það, að hafi hann verið á þessum fundum, þá er honum algerlega óþarft að núa mér því um nasir, að ég hafi ekki sýnt núv. stj. Fiskifélagsins fulla einurð, bæði nú í vetur og endranær.