08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (329)

123. mál, dragnótaveiðar

Haraldur Guðmundsson:

Þessar umr. eru þegar orðnar alllangar, og þar sem ég vildi heldur, að heim lyki í dag, þá mun ég að þessu sinni verða mjög stuttorður.

Hv. þm. Dal. talaði í gær, eins og hans var von og vísa, af miklum mannkærleika. Hann talaði eins og göfuglyndur dýraverndari um, hve ljótt væri að ofsækja saklausan kolann og vildi ekki með nokkru móti láta ráðast á þann kola, sem innan er landhelginnar. Og þótti honum næsta nóg að taka þann kola, sem utan hennar var. Annars skal ég leiða þetta hjá mér. Hitt vil ég taka fram, að mér finnst hagkvæmt og sjálfsagt að láta kolann í friði um þann tíma, sem hann er að hrygna, og sömuleiðis, að möskvastærð notanna sé ákveðin þannig, að ungviði sé ekki grandað, svo sem drepið er á í frv. og grg. þess.

Þá sagði hv. þm. eina undurfagra smásögu um göfuglyndan fátækan sjómann, sem hann hitti hér á einhverri rakarastofu. Sagði hann, að sjómaðurinn hefði fyrst í stað verið því fylgjandi að lengja veiðitímann á þann hatt, sem gert er ráð fyrir í frv. En eftir að hann hafði heyrt röksemdir hv. þm. Dal., þá hafi hann gefið þessum hv. þm. leyfi til þess að greiða atkv. móti frv., til þess að forðast að „stórþjóðir“( !) eins og Danir og Færeyingar ginu yfir þessum tekjustofni þjóðarinnar. Og átti sjómaðurinn að hafa talað eitthvað á þessa leið: „Þó ég ef til vill geti grætt á þessu persónulega, þá vil ég heldur vera laus við þann hagnað en stofna á þennan hátt þjóðarhagnum í voða“. Þetta er svo sem nógu fallega mælt af þessum fátæka sjómanni. Annars býst ég við, að hv. dm. muni ásamt mér hafa litla trú á dæmisögum sem þessari.

Hér er um mikið fjárhagsatriði að ræða. Og það mun viðurkennt af öllum, að mikill hluti bátaflotans, sem telur 700–800 mótorbáta, hafi góð skilyrði til að stunda veiðar með „snurrevaad“. En það er rétt, sem hv. þm. Dal. gat um eftir sjómanninum, að mótorbátunum myndi veitast erfitt að leita kolans á togaramiðum.

Hv. þm. Borgf. neitaði því, að ástæða væri til að minnast á mótbárurnar, sem á sínum tíma komu fram gegn notkun lóða og þorskaneta, í sambandi við þetta mal. Ég minnist á þær aðeins til að sýna, hvað ýmsar kerlingabækur og vitleysur geta náð miklum tökum á mönnum í einstökum landshlutum, þegar hreppapólitík eða eitthvað þesskonar kemst að mér skildist hv. þm. ekki álita hafa verið neina ástæðu til að banna notkun lóða og þorskaneta, en héraðsmenn hans voru á annari skoðun um það árið 1699. Þá var gerð samþykkt um að banna notkun þessara veiðarfæra á þeim miðum, sem Akurnesingar sóttu til. Þá hafa menn verið sannfærðir um, að hún væri stórhættuleg fiskveiðunum. Í framtíðinni mun bann gegn dragnótaveiðum verða talið álíka mikil vitleysa eins og samþykktirnar gegn notkun loða og þorskaneta áður fyrr eru taldar nú. Árið 1859 samþykktu Álftnesingar að hætta lóðaveiðum um tíma, og 1882 voru þorskanet bönnuð við allan Faxaflóa. Það var sagt, að þessar „vélar“ hræddu þorskinn til hafs, — eyðilegðu veiðina o. s. frv. Var yfirleitt sami söngurinn út af þessum veiðiaðferðum þá eins og nú er út af dragnótaveiðunum.

Það er að vísu rétt, að ofurlítið stendur öðruvísi á um dragnótirnar heldur en lóðirnar og þorskanetin, þar sem ekki er alveg útilokað, að þær geti drepið ungviðið. En úr þeirri hættu er dregið með því ákvæði frv., að setja skuli ákvæði um möskvastærð dragnótanna og um hvað hirða megi smæstan fisk. Sumstaðar eru líka hafðar grindur í dragnótunum, sem þenja netið út, svo að það sigtar fiskinn þannig, að ungviðið smýgur. Hv. þm. veit, að það eru togararnir, sem mest drepa af kolanum, bæði utan landhelginnar, og því miður innan hennar líka. Botnvörpurnar sigta ekki fiskinn, þær taka allar stærðir og eyðileggja ungviðið. Þar er því um meiri hættu að ræða heldur en af dragnotaveiðum.

Hv. þm. Borgf. var á sömu skoðun og hv. þm. N.-Þ. um það, að Danir væru miklu leiknari í að nota dragnótir heldur en við íslendingar og að þeir mundu verða búnir að eta upp allan kolann áður en við værum búnir að læra að veiða hann, ef veiðitíminn væri lengdur. En ég vil benda á, að það kemur fleira til greina við veiðarnar heldur en það að kunna að draga nótina. það er líka betra að vera kunnugur miðunum, straumum o. s. frv. Þar hygg ég, að við stöndum heim mun betur að vígi en Danir, sem þeir kunna að vera vanari að nota dragnótir. Það er því engin ástæða til að búast við, að Danir eða Færeyingar taki okkur fram á þessu sviði, og reynslan mun sanna það sama þar um dugnað íslenzkra sjómanna sem í öðrum greinum fiskiveiðanna.

Hv. þm. Borgf. viðurkenndi, að nokkur gróði myndi verða að því í byrjun að taka hér upp dragnotaveiðar. En hann álítur það stundarhagnað, sem ekki borgi sig að nota, og eins er um hv. þm. N.-Þ. En mér finnst það undarlegt, að hann virðist jafnframt álita, að úr því að kolinn sé að ganga til þurrðar, þá muni hann verða nytjafiskur hér í framtíðinni, þó að núgildandi lögum sé haldið óbreyttum. Ef svo er, eftir hverju er þá að búa? Er ekki sjálfsagt fyrir okkur að nota hagnaðinn af þessari veiði meðan tími er til, ef hún verður hvort sem er þrotin eftir 12 ár, þegar sambandslögin falla úr gildi?

Að lokum vil ég beina nokkrum orðum til hv. þm. N.-Þ. Hann vill véfengja það, að uppi séu óskir um það meðal fiskimanna, að tíminn, sem dragnótaveiðar í landhelgi eru leyfðar, sé lengdur. ég skal ekki deila við hann út af því, hvern dóm hann leggur á gögn mín um það efni. En gögn þau, sem hann ber fram um hið gagnstæða, er harla lítils virði. Um fundinn á Norðfirði ber þess að gæta, að honum var hóað saman til að andmæla frv. mínu, þó hann reyndar snerist á hina sveifina. (BSv: Mér var ekki kunnugt um það).

Um skeytið frá hv. þm. til sýslumannsins á Sauðárkróki vil ég endurtaka það, sem ég sagði í dag; ég tel það mjög villandi. Það gefur alranga hugmynd um það, sem hér er á ferðinni. Það segir, að eftir frv. eigi landhelgin að vera friðuð þann tíma, sem dönsk veiðiskip séu bundin annarsstaðar. Ég veit ekki, hvað hv. þm. meinar með þessu. En ég geri ráð fyrir, að tilgangurinn með því að setja slíkan uppspuna í skeytið sé sá, að vekja ótta manna um það, að hér sé verið að afla sambandsþjóð okkar fríðinda, til skaða fyrir okkur sjálfa. Frv. gefur alls ekki tilefni til þess. Ef hægt er að segja, að dönsk veiðiskip séu sérstaklega bundin annarsstaðar einhvern tíma ársins, þá er það tímabilið ágúst–september, þegar veiðar eru mest stundaðar við Grænland; m. ö. o. allan þann mánuð, sem frv. gerir ráð fyrir, að leyfistíminn til dragnótaveiða sé færður fram. Hv. þm. hefir því snúið sannleikanum við.

Það er rétt hjá hv. þm., að Danir hafa stofnað fiskveiðabanka, sem veitir ódýr lán. En ég hefi talsvert lesið um áætlanir Dana um að auka fiskiveiðar sínar og hvergi séð gert ráð fyrir, að veiðar við Íslandsstrendur ættu að verða mikill þáttur í þeim.

Hv. þm. mun vita, að hinum nýja banka í Danmörku er ekki sérstaklega ætlað að styðja stórskipaútgerð. Hann á fyrst og fremst að koma fiskverkun par í landi í betra horf, styðja verzlun og iðnað í sambandi við fiskveiðarnar.

Bæði hv. þm. Borgf. og hv. þm. N.-Þ. telja eitthvert samband á milli þess, hvort við fáum að friða Faxaflóa alveg fyrir botnvörpuveiðum, og hvort þetta frv. verður samþ. Þetta er ekki annað en hugarórar hv. þm., það er ómögulegt að finna neitt samband þarna á milli. Í frv. er gert ráð fyrir, að kolinn sé friðaður fyrir dragnotum allan hrygningartímann, og svo er hann vitanlega friðaður í landhelgi allt árið fyrir botnvörpum, eins og aðrar fisktegundir. Dragnótirnar eru ekki sambærilegar við botnvörpurnar að því er eyðingu fiskstofnsins snertir. Þó má vel vera, að það borgaði sig að friða sérstaka staði fyrir dragnótum, ef rannsóknir syndu, að þar yxi kolinn upp fremur en annarsstaðar. En nú eru engar rannsóknir til, sem styðja það, að einn stað beri að friða öðrum fremur. Að friða þess vegna landhelgina alla, það nær engri átt.

Hv. þm. N.-Þ. var enn að spyrja um það, þó því sé margsvarað, hvers vegna Íslendingar hafi ekki gefið sig meira en þeir hafa gert að kolaveiðum, ef þær séu svo arðvænlegar sem af er látið, því Englendingar veiði hér miklu meiri kola en við sjálfir. Mig furðar á, að hv. þm. skuli spyrja um jafnaugljóst atriði og þetta. Allan þann tíma, sem íslenzku togararnir eru á saltfisksveiðum, hafa þeir lítið við kola að gera; það borgar sig ekki að sækjast eftir honum til að verka hann á sama hátt og þorskinn. Eins er um síldveiðitímann. Það er aðeins þegar togararnir veiða í ís, sem kolinn kemur þeim að notum, og þá hafa þeir ekki verið eftirbátar útlendinga um að ná í hann.

Nú er þetta að breytast, eins og bent er á í grg. frv. Gert er ráð fyrir, að reglubundnar ferðir hefjist til að flytja ísfisk héðan til útlanda, og þá er það íslenzkum sjómönnum lífsspursmál að geta veitt þennan verðmesta fisk, kolann, á sem auðveldastan hátt; áður var þeim ekki til neins að veiða hann, nema sér til matar. Þetta vona ég, að hv. þm. skilji. Dragnótir má ekki nota nú nema 3 mánuði ársins, og auk þess hangir það yfir sjómönnum eins og svipa, að þær verði bannaðar þann tíma líka. Það er því ekki nema eðlilegt, þó bátaeigendur hugsi sig tvisvar um áður en þeir kaupa þetta veiðarfæri auk annara. Ef þeir mættu nota það í 7 mánuði, mundu þeir ekki hika við að afla sér þess, þegar þeir jafnframt fá aðstöðu til að koma kolanum í verð. Vona ég, að hv. þm. þurfi nú ekki að spyrja oftar um þetta, og að hann falli nú frá því, að það stafi af klaufaskap ísl. sjómanna, hvað lítið hefir verið veitt af kola hér undanfarin ár, og að þeim sé ekki trúandi til að komast upp á að veiða með dragnót.

Eins og nú er, verndum við kolann fyrir, innlendum mönnum, til þess að auka veiðiskap annara þjóða. Það eru botnvorpungarnir, sem mest veiða af kola hér, og þeir mest, sem freklegast brjóta landhelgilögin. Þeir fá mestan kola, sem mest sækja inn í landhelgina, inn á þá staði, sem bezt eru fallnir til dragnótaveiða. Handa þessum mönnum er verið að vernda kolann.

Hv. þm. hafa talað um, að Danir og Færeyingar mundu verða okkur hættulegir keppinautar, ef leyft væri að veiða kolann innan landhelginnar meira en nú er. Ég hefi gefið skýrslu um kolaveiðar Dana hér við land. Síðan hefi ég fengið upplýsingar um veiðar Færeyinga. Þeir höfðu hér einn „kútter“ til kolaveiðanna, sem veiddi 11 þús. kg. síðastl. ár, og auk þess tvo minni báta, sem ég hefi ekki skýrslu um, hvað mikið hafa veitt, en það mun hafa verið mjög lítið. Ég held það sé því ástæðulítið fyrir okkur að óttast, að Danir og Færeyingar verði okkur ofjarlar við þennan veiðiskap þann tíma, sem þeir eiga eftir að hafa sama rétt og við innan landhelginnar. Og það er undarlega mikil þröngsyni og hreppapólitík, að vilja hafa af okkur sjálfum stórkostlegan hagnað, af ótta við það, að um leið og við fáum eina krónu fái Danir e. t. v. 10 aura eða 12.

Mótorbátar hér við land eru nú orðnir 7 til 8 hundruð. Þó kolaveiði þessara bata ekki nema þrefaldaðist, væri það fleiri milljóna króna tekjuauki á ári fyrir bátaeigendurna. Hvaða vit er í að neita sér um að njóta þessa hagnaðar af ótta við það, að Danir fái um leið auknar tekjur af veiðum hér við land, sem svarar einum tíunda af tekjuauka okkar. Það væri eins og ef maður hengdi sjálfan sig til þess að fá högginn litla fingur af keppinaut sínum.

Ég þarf svo ekki fleira að taka fram um þetta mál. Hv. þm. N.-Þ. sagði eitthvað á þá leið, að ég og hv. 3. þm. Reykv. hefðum talað eins og við vildum helzt, að þorskveiðarnar legðust niður. Það er vitleysa, sem vitanlega nær engri átt. Hitt er annað mál, að af því þorskurinn er að falla í verði og hinsvegar útlit fyrir, að útflutningur á ísfiski aukist og verði tryggari, þá er enn brynni nauðsyn á því en áður, að menn fái að notfæra sér kolann.

Hitt er líka röng eftirtekt hjá hv. þm., að við hofum talað eins og við álítum, að kolanum mundi fjölga, ef leyft væri að veiða hann lengri tíma á ári. Þó geri og ekki ráð fyrir, að kolastofninn mundi ganga örar til þurrðar þó frv. sé samþ. heldur en hann gerir nú, ef hann þá er að hverra. Hrygningartími kolans yrði jafnt friðaður eins og nú. Það er lýðum ljóst, að það eru aðallega togararnir, sem eyða kolanum, togararnir, sem í landhelgi stelast, og þeir sækja þangað vegna hans. Dragnótirnar mundu ekki spilla kolaveiðunum teljandi, samanborið við botnvörpurnar, a. m. k. ekki ef möskvastærð þeirra væri ákveðin.