09.04.1931
Neðri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (351)

89. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ.

Við fyrri umr. málsins var skorað á mig af hv. 2. þm. G.-K. o. fl. að sýna það, sem við ætti í þessu máli. Ég skýrði þá frá, að til væru áskoranir til Alþingis frá 80 íbúum úr Skildinganeslandi, um að sá staður væri lagður undir lögsagnarumdæmi Rvíkur, en síðan hefir undirskriftatalan aukizt upp í 104. Hinsvegar hafa komið áskoranir frá 42 mönnum um, að þessi hluti Seltjarnarneshrepps verði ekki lagður undir Rvík, en bæði er það, að þetta er miklu minni tala en hinna, og svo hitt, að þarna er fjöldi undirskriftarmanna, sem ekki eiga heima í Skildinganesi, svo að þeim kemur málið ekki við. Því til sönnunar vil ég geta þess, að meðal undirskriftarmanna eru Thorsarnir (Kveldúlfur), Har. Árnason kaupm., Samvinnufél. Haukur, Eggert Clæssen, h.f. „Baugur“ og „Titan“, sem ég hélt, að væri dautt. Það er auðsætt, að allt hefir þurft að tína til, til að ná þessum nöfnum. Það er enginn vafi á því, að lávarðurinn þarna syðra hefir gert allt, sem hann hefir getað, til að varna því, að áskoranir um innlimun Skildinganess yrðu sendar. Hann hefir lagt fast að mönnum að undirskrifa ekki, og þeir, sem hafa keypt land af honum, hafa staðið höllum fæti gagnvart honum, en samt hefir það sýnt sig, að það er mikill meiri hluti, sem vill þetta.

Þá hefir komið umsögn frá oddvita Seltjarnarneshrepps, og er hann á móti þessu, en sjálfsagt er að meta meira þörf og vilja íbúanna sjálfra og höfuðstaðarins.

Hv. 2. þm. G.-K. hefir haldið því fram, að margir af undirskrifendum hafi nýlega flutzt suður. Það er ekkert við því að segja, því að ör fólksflutningur hefir verið þangað héðan, og auk þess hefir mikill fjöldi flutzt þaðan hingað, svo að ekki er að undra, þótt þessi staður sé skoðaður sem hluti af Rvík, og búast má við, að ekki verði allir grónir þar, sem þangað koma.

Innlimunin á Skildinganesi í lögsagnarumdæmi Rvíkur er líka nauðsynleg fyrir Reykjavík, svo að þessi staður sé ekki sem eyja þarna, þar sem skattflóttamenn geta haldizt við.

Þá hafa Skildinganesbúar við ýmis óþægindi að stríða vegna vatnsskorts og rafmagnsskorts. Það er allt í ólagi hjá þeim. Það þarf ekki annað en líta á byggingarnar, — engar byggingarreglur eru settar. Úr þessu verður að bæta á einhvern hátt. Engar eru varnir gegn eldsvoða á þessum stað, og er þó mestallt byggt úr timbri og í mesta skipulagsleysi. En verði ekki úr því bætt, verða brunabótagjöld skjótlega úr hófi keyrandi. Það er þess vegna engu síður nauðsynlegt fyrir hreppinn að laga þetta heldur en Reykjavík.

Ég ætla svo ekki að mæla meira fyrir þessu “frv. að sinni. Það á að vera orðið deildarmönnum ljóst, að ekki gengur að halda þessum hluta Seltjarnarneshrepps lengur fyrir utan Reykjavík. Hér er ekki um að ræð innlimun sveitar í bæ, því að þarna búa 800 manns í kauptúni á litlum bletti og fer stöðugt fjölgandi, svo að hér er einungis að ræða um innlimun útbæjarhverfis Rvíkur í höfuðstaðinn.