09.04.1931
Neðri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (353)

89. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson) [óyfirl.]:

Þetta mál er ekki nýtt á Alþ. Það hefir verið hér áður og var þá fellt. Mér þykir líklegt, að þeir sömu menn, sem áttu að greiða atkv. um það á síðasta þingi, muni fara svipað með það í ár.

Það er leiðinlegt að tyggja upp ár eftir ár sömu ástæðurnar með eða móti einhverju frv. Ég geri þess vegna eins lítið og ég get að því, en vil víkja örlítið að því nýja í málinu, og svara nokkru af því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði.

Ég vil geta þess, að meiri hl. n. skipa 3 þm., og undir álit minni hl. hefir aðeins 1 skrifað, en hv. þm. V.-Sk. (LH) hefir óbundnar hendur um atkv. sitt og gerir sjálfur grein fyrir afstöðu sinni.

Ég hefi ekki orðið var við neina áskorun frá bæjarstjórn Rvíkur um þetta mál. Það hefir máske komið áður, en liggur áreiðanlega ekki fyrir þessu þingi. Mér finnst það eigi að vera það fyrsta, að fyrir liggi beiðni frá hlutaðeiganda, að hann kæri sig um þetta, ekki sízt, þegar fyrir liggja mótmæli. Hv. 2. þm. Reykv. minntist á mótmæli, sem komið hafa frá hreppsnefndinni sjálfri; þau liggja frammi í lestrarsal og eru jafneindregin og í fyrra. Í þessum upplýsingum er sagt, að 2 af þeim, sem á skjalinu eru, hafi skrifað sig bæði með og móti frv.; er lítið á slíkum undirskriftum að byggja. Ennfremur eru þarna nöfn 5 manna, sem ekki eru skráðir á manntalsskýrsluna frá í des. síðastl. Þetta eru vafalaust aðkomumenn, sem hafa aðeins staðið við 2–4 nætur, svo að ekki er hægt að segja, að þetta séu heimilisfastir menn.

Svo eru á skjalinu nöfn 27 manna, sem ekki hafa kosningarrétt til Alþingis vegna aldurs; þar af eru 15, sem ekki hafa kosningarrétt í sveitarmálum. Ég veit ekki, hvort þetta eru börn, en það er að minnsta kosti mjög ungt fólk.

En aðalatriðið er, að af þeim 160 íbúum, sem hafa skrifað undir, eru það 69, sem flutzt hafa inn í hreppinn á síðastl. ári, og hafa því ekki kosningarrétt í málefnum hans. Það er vitaskuld, að þetta eru menn, sem flutzt hafa þangað 1. okt., eru sjálfsagt leigjendur, og margir af þeim fara 14. maí eða 1. okt. M.ö.o. er þetta fólk, sem er á ferð og flugi fram og aftur, en einir 13, sem eiga fastan bústað í hreppnum; þar af eru 2, sem bæði eru með og móti frv. Aftur á móti liggur fyrir, eins og hv. 2. þm. Reykv. tók fram, yfirlýsing frá 42 fasteignaeigendum af þessu svæði; mönnum, sem annaðhvort ætla sér að vera þarna áfram, eða hugsa sér að eiga þarna fasteign, sem þeir í framtíðinni ætla sér að eiga sjálfir, eða selja og leigja öðrum.

Mér finnst þetta líkast sveitakritum, þannig að koma andmæli frá bændunum sjálfum, en meðmæli frá hjúunum. Hvort ætti að meta meira? Ég er viss um, að það, sem ræður úrslitum hér, er tryggð manna við jörðina, sem þeir ætla að eiga. Ég geri þess vegna ákaflega lítið úr þessari undirskriftasöfnun, sem meiri hl. flaggar með, en meira úr áskorunum og yfirlýsingum manna, sem eiga landið.

Nöfn nokkurra manna hneyksluðu hv. frsm. meiri hl. Það voru nöfn framkvæmdarstj. hlutafél. Titans og Baugs, Björns Árnasonar, Haralds Árnasonar og Thors Jensens. Ég get ekki séð annað en að þeir hafi sama rétt til að skrifa undir, þótt þeir búi þarna ekki nú.

Það þarf ekki að taka það fram, að oddviti og hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps mælir eindregið á móti þessu frv., og sýslunefnd Kjósarsýslu gerir það einnig, því að þetta er sama sem að ræna Kjósarsýslu mjög verulegum hluta af sýslugjöldum hennar. Ég vil leyfa mér að gera þá fyrirspurn til hv. frsm. meiri hl., hvort hann hugsi sér, að sýslan fái bætur fyrir þetta, ef frv. þetta nær fram að ganga. Og ef halda á áfram og allt Seltjarnarnes, Viðey og Mosfellssveit verða lögð undir Reykjavík, hvar á Kjósarsýsla þá að fá tekjur sínar?

Það er ekki svo lítið, sem hér er um að ræða. Sýslugjöld Seltjarnarneshrepps hafa verið 50–60% af öllum sýslugjöldum Kjósarsýslu, og oddvitinn segir, að í ár verði þau sennilega um 70%. Það er engin smávegis blóðtaka, ef þetta frv. verður að lögum. Á þessu svæði býr um helmingur af íbúum Seltjarnarneshrepps, eða um 450 manns.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl., að Skildinganeskauptún væri nokkurskonar eyja inni í Rvík, og væri fyrir skattflóttamenn. Ég skil ekki, hvernig hann fer að halda slíku fram. Það var sýnt fram á það í fyrra, að útsvör í Skildinganeshreppi eru yfirleitt eins há og hér í Rvík. ég hefi fyrir mér upplýsingar um það, að útsvar á þessu svæði, sem nú á að innlima í Rvík, voru hér um bil 24 þús. kr. í fyrra. Þetta sýnir sannarlega, að það er ekki til mikils að flytja þangað til þess að losna við útsvör, enda eru þessir menn, sem hér er um að ræða, starfandi í Rvík og par af leiðandi fær hún hluta af útsvörum þeirra.

Að öllu þessu athuguðu virðist mér sanngirnin ekki mæla með því, að samþ. þetta frv., og ég hefi lítið „sympati“ með þeim kaupstöðum, sem að nauðsynjalausu eru að teygja anga sína út. Ég hefi ekki fengið upplýsingar um það, hvers vegna Rvík vill ná í þetta land. Er það af því, að Rvík ætli sér að hjálpa íbúum þessa svæðis? En jafnvel þó að það væri bezt fyrir þá að komast undir verndarvæng Rvíkur, þá eiga þeir menn, sem hlut eiga að máli, að fá að ráða um þetta sjálfir.

Þetta er nú það, sem sanngirnin mælir með og móti þessu frv. En svo eru og til lagaákvæði um þetta efni. Má þá fyrst og fremst nefna sveitarstjórnarlögin. Þar er sagt, að forsrh. hafi heimild til þess að skipta og sameina og breyta hreppamörkum. Ennfremur segir þar, að eigi megi neina breytingu gera á þessu, nema eftir beiðni hreppsnefnda þeirra, er hlut eiga að máli, og meðmælum sýslunefndar, nema þegar svo stendur á sem í 4. gr. segir. Hér segja sveitarstjórnarlögin sjálf, að ekki megi breyta þessu, nema það sé samþ. af hreppsn. og sýslun. En í 4. gr. laganna segir svo, að ef kauptún eða þorp hefir yfir 300 íbúa, hafi það rétt til að fá sérstaka sveitarstjórn. Nú stendur svo á, að í þessu þorpi eru um 450 íbúar, og hefir það því rétt til að verða sérstakt kauptún, þegar íbúar þess vilja. Auk þessa eru í sveitarstjórnarlögunum ýms ákvæði um það, að málefnum, sem varða hreppa eða sýslur sérstaklega, skuli ekki ráðið til lykta, nema fengið sé álit hreppsins og sýslunnar um þau. Nú hefir ekkert álit verið fengið frá Kjósarsýslu og um álit frá Seltjarnarneshreppi hefir ekki verið beðið, en hann hefir sent mótmæli óbeðið. (HV: Voru þau ekki pöntuð?). Það getur verið, að hv. frsm. meiri hl. hafi pantað þau, ég hefi ekki gert það. —

Vona ég, að hv. d. verði sjálfri sér samkvæm og fari með þetta mál á sama hátt og í fyrra.