09.04.1931
Neðri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (357)

89. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Ekkert af því, sem hv. þm. V.-Sk. sagði, sýnist þess eðlis, að hann hefði ekki getað sagt frá því í n. Hann hafði nægan tíma til að láta þetta álit sitt í ljós í n., og er mér því óskiljanlegur þessi dráttur.

Hann vitnaði í það, að meiri hl. af þessum mönnum, sem undir hafa skrifað, hafi aðeins verið búsettir þarna part úr ári. Að vísu segir í áliti oddvitans, að nokkrir hafi flutzt þangað árið 1930. En þar sem íbúatalan þarna hefir vaxið um nálægt 100 manns á ári núna síðustu árin, þá hlýtur alltaf nokkur hluti manna þar að vera nýfluttur.

Hv. 1. þm. Skagf. hélt hjartnæma ræðu um bændur þarna. Ég veit ekki, hvaða bændur hann hefir átt við, því að þarna mun varla vera nokkur maður, sem lifir á landbúnaði. En kannske hefir hv. þm. átt við lóðaeigendur þarna, þá Thor Jensen, h/f Baug, Shell o. fl. Bað eru ef til vill hagsmunir þessara „bænda“, sem hv. þm. vill vernda.

Það var ætlazt til þess, að sérstakur listi gengi á Þormóðsstöðum, en hann hefir ekki komið ennþá. (JÓl: Jú, hann er hérna). Ég geri fyllilega ráð fyrir því, að þeir séu þar sömu skoðunar og hinir.

Þá talaði hv. frsm. minni hl. um það, hve útsvörin væru mikil úr þessum hluta Seltjarnarneshrepps. Þetta segir í rauninni ekkert. Útsvara þarf með til þess að greiða kostnað, en þegar búið er að taka þetta land undir Rvík, þá þarf hreppurinn ekki lengur að leggja í eins mikinn kostnað og áður, svo að ekki er vist, að hann tapi nokkru á þessu.

Hvað viðvíkur sýslusjóðsgjaldinu, þá skal ég viðurkenna það, að það fellur niður. Ég er ekki kunnugur því, hvernig það er, þegar hreppur er lagður undir annað lögsagnarumdæmi, hvort þá eru greiddar nokkrar skaðabætur.

Ég nenni ekki að fara lengra út í þörf Rvíkur á að fá þetta land. Bæjarstj. Rvíkur hefir í mörg ár samþ. að skora á Alþ. að leggja þetta land undir bæinn, en það hefir alltaf daufheyrzt við því. Menn þurfa ekki annað en líta á kort af Rvík og nágrenni hennar til að sjá, að þetta á að tilheyra henni. Rvík hefir vaxið allt í kringum þetta svæði og henni er nauðsynlegt að fá það, þótt ekki væri nema til að skipuleggja það.

Þá óttast menn einnig, eins og ég gat um, að ósamræmi geti komizt á um sveitargjöld á nærliggjandi stöðum, Og geti því verið, að einhverjir flyttu þangað í skattflóttaskyni. Nokkrir menn hafa þegar gert það. Og allir hljóta að sjá, hversu hættulegt það er fyrir Rvík, að menn búi þar og stundi atvinnu sína í bænum, en svo sé ekki hægt að leggja á þá hér. Nytu þeir þá allra hlunninda hér, án þess að greiða nokkur gjöld.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að í sveitarstjórnarlögunum væru ákvæði um þetta. Þau lög eru engin stjórnarskrá. Ef við setjum nú lög um þetta, þá ganga þau auðvitað fyrir.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta. Það er alkunnugt, frá hverjum andstaðan til þessa máls er komin. Það er frá heim fáu landeigendum, sem ég gat um áðan, og þykir mér það merkilegt, ef orð þeirra mega sín meira en vilji flestra íbúa Skildinganeshrepps.