09.04.1931
Neðri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (358)

89. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jón Ólafsson [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Skagf. gaf mér í raun og veru tilefni til þess að sitja ekki algerlega hjá, því að hann for að spyrjast fyrir um það, hvaða nauðsyn bæri til þess, að Rvík fengi Þormóðsstaði og Skildinganes. Menn geta ekki sagt að nú sem stendur sé þetta svo mikil nauðsyn. En þeir, sem lengra sjá en út fyrir sitt asklok, þykjast sjá, að á sínum tíma komi að því, að þessir blettir verði lagðir undir lögsagnarumdæmi Rvíkur, og þá verður búið að byggja þar alveg skipulagslaust, svo að það lendir á bænum að kaupa upp hús, sem búið er að setja niður á röngum stöðum. Þarna er nauðsynlegt að gæta þessa hagsmuna bæjarins, og skammsýni manna í þessum efnum er alltaf að koma fram.

Önnur aðalástæðan fyrir þessari nauðsyn er sú, að ýmsir, sem menn kalla „braskara“, eru að leitast við að fá fé til þess að byrja hafnargerð suður við Skerjafjörð og vofir yfir, að þetta geti komizt í framkvæmd. Við Reykvíkingar höfum lagt mikið fé í hafnargerð hér og erum ekki búnir að greiða það fé til fulls enn. En þegar þessi höfn er fullgerð, getur hún tekið öll skip á þessu svæði. Þetta gæti því orðið stórkostlega hættulegt fyrir Rvík, sem á að standa skil á láninu til hafnargerðarinnar.

Undirskriftir manna má gera tortryggilegar á margan hátt. Hreppsnefndin getur hæglega sagt, að þessir menn hafi ekki verið í hreppnum og þeir hafi ekki kosningarrétt o. s. frv. Það er að vísu rétt, en það er einmitt vegna þess, sem hv. 2. þm. Reykv. tók fram, að það sannar ekki nema það, að þessi staður er svo óaðskiljanlegur bænum, að leigjendur flytja þar á milli þessa tvo aðalflutningsdaga á árinu, 14. maí og 1. okt., án tillits til þess, að þeir eru að flytja milli hreppa. Þessi flutningur er eins tíður og á milli Austur- og Vesturbæjar, svo að það er eins og hér sé um hluta af Rvík að ræða.

Hv. þm. gleymdi því líka, að ég tala hér fyrir hönd eigenda og ábúenda á 20 dagslátta svæði. Ég veit ekki, hvað Skildinganesland er stórt, en ég held, að það sé ekki meira en 2/3 stærra. En svo fyrir utan þá, sem eru á þessum lista, standa þeir, sem ekki vissu um þessar undirskriftir. Þá skal ég um leið geta þess, að þeim, sem skrifuðu undir þetta skjal, laðist að setja nöfn kvenna sinni á skjalið líka, en það hefði fjölgað tölunni stórlega. Eigandinn hefir ekki skrifað undir, en umráðamaðurinn stendur hér og segist vera þessu fylgjandi.

Hv. 1. þm. Skagf. hefir í því, sem hann hefir tínt til sínu máli til stuðnings, synt, að þessir hreppar gjalda 24 þús. kr. til hreppsfélagsins. En alla sína atvinnu hafa þeir í Reykjavík og eru að öllu leyti upp á Reykjavík komnir. Þetta fé er því alveg úr Reykjavík runnið. Ég tala nú ekki um vegina. Þeir nota þá alveg eins og bæjarbúar og jafnvel meira, því að þeir koma flestir akandi til bæjarins.

Á þennan stað hefir farið til þessa of mikið fé frá bæjarfélaginu, því að ýmsir þeir hafa dregið sig þangað undan réttum skottum hér, sem vilja ekki standa undir þeim framförum, sem hér hafa verið gerðar, og þeim álögum, sem þær hafa í for með sér. Þeir hafa flúið þangað til að reyna að hafa þar eitthvað betra. Það er líka eðlilegt, þeir sem hafa landið, til þess að þeir geti notað það til þess arna. En það er jafneðlilegt, að þingið líti hér á hag fjöldans fremur en hag þessara fáu manna. Þó að ég vilji virða mikils landsréttindi manna yfirleitt, þá er ég ekki fastur á því, þegar um er að ræða lóðir, sem þarf til húsabygginga, en okrað er á þeim frá mörgu sjónarmiði.

Mér finnst, að þeir, sem á móti þessu máli eru, líti ekki nægilega réttum augum á þörf bæjarins. Og ég held, að segja megi í þessu máli, að það sé bæði útlátalaust og sjálfsagt að hlynna að bæjarfélaginu á þennan hátt. Það er ekki á neinn hátt neinum til baga, nema þessum fáu landeigendum, sem vilja halda sér fyrir utan bæinn með sína skika. En ég geri ekkert úr því, þar sem hrepps- og sýslufélagið og Reykjavík eru þeir réttu aðiljar, og þorpsbúar sækja allar sínar tekjur til Reykjavíkur, hverju nafni sem nefnast, nema hvað „Shell“ hefir þar nokkra starfsemi, en skipar þó upp í Reykjavík. En mér finnst bresta á fullan skilning á þessu fyrir Reykjavíkur hönd, og að þm. sé ekki sárt um, þó að þessu sjálfsagða réttlæti sé eitthvað vikið við.