09.04.1931
Neðri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (359)

89. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors:

Þetta mál er svo rætt hér á þingi, bæði nú og þó sérstaklega að undanförnu, að það er að bera í bakkafullan lækinn að fara að flytja langa ræðu um það nú. En mér þykir samt ekki hlýða að láta það ganga svo gegnum þessa umr., að ég mæli ekki fáein orð til viðbótar við þau höfuðrök, sem hv. frsm. minni hl. hefir borið fram.

Það er eitt í þessu máli, sem mér þykir undarlegast, og það er það, að öllum þeim, sem fylgja þessu frv., þykir það alveg gefið, að þessi skipting muni fara fram einhverntíma, fyrr eða síðar, og á því byggjast öll þeirra rök. Hv. 3. þm. Reykv., sem talaði síðast, sagði um þetta: „Þarna eru höfuðrökin“, ég hefi þetta orðrétt eftir hv. þm. Hann sagði þetta að loknum þeim ummælum, að skipulagsleysi í byggingum á þessum stað lenti fyrr eða siðar á Reykjavík, þannig, að það yrði kostnaðarsamt fyrir bæinn. Hann álítur þannig gefið fyrirfram, að málið hljóti að ná fram að ganga, fyrr eða siðar. En ég er alls ekki svo viss um, að þetta verði, og ég er ekki heldur viss um, að menn á þessu svæði óski þess, og eftir því sem ætlazt var til 1927, þá var bað tilgangurinn, að slík skipting færi aldrei fram, an þess að hlutaðeigandi hreppur óskaði eftir, hvað þá að það yrði þrátt fyrir mótmæli hreppsbúa. Ég skal játa það, að þeim lögum má breyta, en það er ólíklegt, að í því hafi orðið stefnubreyting á svo fáum árum, svo að nú eigi að þröngva kosti þeirra manna, sem fyrir fjórum árum átti sérstaklega að vernda. Hv. frsm. meiri hl. og hv. 1. þm. Reykv. áttu baðir sæti í allshn., þegar hún 1927 afgreiddi sveitarstjórnarlögin og gaf út um þau örstutt nál., þar sem ekkert er tekið fram nema að ákvæði 3. gr. séu svo mikilsverð, að ríka áherzlu verði að leggja á þau. En þau ákvæði eru það, að atvmrh. megi aldrei gera breytingar á hreppaskiptingu, nema hrepparnir sjálfir séu því samþykkir. Og þetta um sjálfræði hreppanna er ekki mal, sem á að vera breytingum undirorpið. Það er þess vegna undarlegt, þegar þeir menn, sem fyrir fjórum árum börðust fyrir sjálfræði hreppanna í þessum efnum, vilja nú taka það sjálfræði af þeim. Eins og hv. frsm. minni hl. tók fram, þá er það skýrt tekið fram í logunum, að það séu þeir fjárhagslegu hagsmunaaðiljar, sem verða að fá umsagnarrétt, áður en skipti fara fram.

Ég verð því að segja, að það er ekki eðlilegt, að slík frv. skuli vera borin hér fram ár eftir ár, an þess að nokkur ný rök komi fram, og ég mótmæli því, að nokkur ný rök hafi komið í málinu. Að vísu hefir komið fram áskorun frá 106 íbúum þessa hrepps, sem mæla með sameiningunni, en eins og hv. frsm. minni hl. sagði, þá er lítið tillit takandi til þess, af því að 69 af þeim eru alveg nýftuttir inn í þorpið og eru því hluti af Reykjavík, og því hafa þeir þar hagsmuni Rvíkur fyrir augum, en hafa ekki ennþá, sem vonlegt er, komið þar auga á hag hreppsins. En álit þeirra hreppsbúa, sem þar hafa lengur verið, má marka af því, að af þeim 350–400 íbúum, sem þar voru um áramótin 1929 og 1930, hafa einir 32 skrifað undir.

Það er ekki nema vitleysa, að sameiningin sé sérstaklega gagnstæð hagsmunum lóðaeigenda í þeim hluta hreppsins, sem innlima á. En ég skil vel, að aðrir lóðaeigendur þessa hrepps séu því mótfallnir, að þessar lóðir séu teknar af hreppnum. Lóðaeigendur í Skildinganesi mega vel þar við una, en fyrir aðra gjaldendur hreppsins og sýslunnar er þetta veigamikið fjárhagsatriði, þar sem þeir bera 50–60% af öllum útsvörum, 23600 kr., og á yfirstandandi ári munu þeir greiða milli 60 og 70% af öllum gjöldum. Mér er líka ljóst, að það er ekki óeðlilegt, þó að sýslan nú vildi einhverntíma síðar selja þessi fríðindi, að sýslubúar samt vilji gjarnan, að það dragist eitthvað að gera þá samninga, því að eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði, þá munu þau verða þeim mun dýrari, sem lengur dregst að festa kaupin. Þetta er hagsmunamál Reykjavíkur, en ekki Seltjarnarneshrepps, en það er ekki svo mikið hagsmunamál Reykjavíkur, að heill bæjarins sé undir því komin, því að ef svo væri, þá gæti verið, að mætti athuga, hvort ekki skyldi meta meira hagsmuni bæjarins en sýslunnar. Ég er ekki svo lokaður fyrir hagsmunum Reykjavíkur, enda er engin ástæða fyrir mig til að vera það.

Ég get ekki samþykkt það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að íbúar á þessu svæði lifðu eingöngu á atvinnu frá Reykjavík. Eins og hv. þm. veit, þá er þar sjálfstætt togarafélag, og í sambandi við það er stórmikil atvinna, en auk þess reka þar atvinnu tvö útgerðarfélög, sem eiga heimilisfang í Reykjavík. Vinnukrafturinn kemur frá mönnum, sem eru búsettir á þessu svæði, en fjármagnið frá Reykjavík. Ég veit ekki, hvort á að þakka þetta meira fjármagninu úr Reykjavík eða vinnukraftinum frá Skildinganesi, það gæti orðið deilumál á milli hv. 2. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykv.

Þá kom hv. 3. þm. Reykv. með nýtt skjal, sem ég vissi ekki, hvað átti að sanna. Hv. 3. þm. Reykv. áleit eftir því sem mér skildist, að það væri frá lóðaeigendunum, en mér skilst eftir því sem á skjalinu stendur, að það sé frá íbúum í húsum í Þormóðsstaðalandi; en það getur verið, þó að ekkert standi undir, að lóðaeigendurnir séu samþykkir þessu. En hver hefir skrifað þetta? Já, þar þekki ég nú rithönd hv. 3. þm. Reykv. Hann hefir skrifað þetta og borið það síðan á milli húskarla sinna þar suður frá, og því marka ég ekki mikið, þó að hann hafi getað fengið einhverja til að setja nöfn sín á blaðið.

Hv. þm. sagði, að ráð hefði gleymzt að láta eiginkonur þeirra manna, sem skrifuðu á skjalið, setja þar nöfn sín líka, og þess vegna hefðu nöfnin getað orðið margfalt fleiri. Það hljóta þá að vera eintómir soldánar, sem lifa í fjölkvæni, sem þarna búa. Þetta kemur víst flestum á óvart, og er nú annað tveggja, að eitthvað er ávant siðferðinu í landareign hv. þm., eða hann seilist helzt til langt til raka fyrir sínum lélega málstað.

Eins og málið liggur fyrir nú, þá hafa engin ný og frambærileg rök komið fram, sem gætu breytt afstöðu þingsins. Ég leyfi mér því að vænta þess, að um þetta mál verði ekki langar umr., og þingið geti haldið þeirri afstöðu, sem það hefir áður tekið og fellt frv.