13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (367)

89. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Ég bjóst ekki við, að þetta mál kæmi svo fljótt á dagskrá hér í hv. d. og hefi því ekki komið því í verk að leita álits bæjarstjórnar Rvíkur eða borgarstjóra um einstök atriði frv.

Hvað snertir brtt. hv. þm. Barð., þá get ég tekið það fram, að ég get verið samþ. a-lið brtt. um það, að sýslan fái að greiða atkv. um málið, en hinsvegar get ég ekki fallizt á síðara liðinn, sem mér virðist beinlínis segja það, að engin lög eigi að koma í framkvæmd um málið, ef ekki fæst samþykki allra aðilja. Mér finnst það algerlega rangt að ganga fram hjá yfirlýstum vilja allmikils hluta hreppsbúa í Seltjarnarneshreppi, sem hefir sent óskir sínar til Alþingis um að mega sameinast Rvík. Vegna mögulegs ósamkomulags milli aðilja finnst mér ekki ástæða til að koma með breytingar við frv., því að allvel er búið um það mál í frv. eins og það er. Þar er ákveðið, að skipa skuli gerðardóm til þess að gera út um málið, ef samkomulag fæst ekki milli aðilja, og í hann gerðardóm á hæstiréttur, sem almennt mun vera álitinn hátindur réttlætis í landinu, að skipa oddamann. Einnig virðist mér, að síðari liður brtt. 372, ef hann verður samþykktur, gefi hreppsnefndinni í Seltjarnarneshreppi undir fótinn með að álíta, að hreppurinn þurfi alls ekki að taka þátt í neinum samningum og því vera til þess að stórspilla frv. Af þessum ástæðum vil ég leggja á móti því, að b-liðurinn verði samþ.