13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (374)

89. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Ég vildi gjarnan beina sömu spurningu til hv. þm. Barð., er hv. 1. þm. Reykv. beindi til hv. 1. þm. Skagf., um, hvort hann mundi á næsta þingi, ef hann nær kosningu, samþ. lög svipuð þessu frv., ef engir samningar hefðu tekizt á yfirstandandi ári, og vænti ég ekki standi á svari hv. þm., og því ótvíræðu. Annars langaði mig til að fá dálítið nánari útskýringu á ummælum hv. 2. þm. G.-K., þar sem hann var að tala um þetta umrædda land eins og einskonar gjaldstofn fyrir Seltjarnarneshrepp og Kjósarsýslu til þess að græða. Það er eitthvað einkennilegt fyrirkomulag, ef útsvör og sýslusjóðsgjöld úr þessum hluta hreppsins geta skoðazt sem hreinar tekjur. Ef þessu er svo farið, sem helzt er að skilja af ræðu hv. þm., þá fer það ekki að verða neitt undarlegt, þó að hreppnum þyki sárt að sleppa nesinu, og að íbúarnir þar vilji fegnir komast í samband við Reykjavík, ef þeir eru notaðir sem tekjustofn, er gefur af sér 24 hús. kr. á ári, án þess að fá nein hlunnindi í staðinn fyrir þetta fé, eða að hreppurinn eyði engu fé til þeirra þarfa. Hv. þm. var að tala um 450–500 íbúa á þessu svæði, sem flestir hafi ekkert látið til sín heyra. Það getur verið, að íbúarnir séu þetta margir, ef talin eru börn niður að fæðingu, en nú hafa komið undirskriftir um 200 manna, sem mæla með frv. Hinsvegar hefir mótstöðumönnum frv. ekki tekizt að fá nema um 40 menn og félög til þess að mæla á móti því, og eru þar með taldir lóðaeigendur, sem búa hér í bænum, en eiga lóðir þar suður frá. Vilji íbúanna er ótvíræður, og það er hart, ef Alþingi ætlar enn einu sinni að láta hann eins og vind um eyrun þjóta.