13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (376)

89. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég sagði ekki, að hv. Alþingi ætti að hafa kjark til þess að greiða atkv. með frv., heldur að það þyrfti að sýna hreinar línur. Það þarf líklega álíka mikinn kjark til þess að greiða atkv. með og móti frv.

Mér þykir vænt um að hafa fengið greinilegt svar frá hv. 1. þm. Skagf., þó að ég sé ekki ánægður með svarið. Ég hélt, eftir orðum hans í fyrri ræðu, að hann ætlaði að verða með frv., þegar útséð væri um samninga, en nú er það skýrt komið fram, að hann ætlar aldrei að vera með því, fyrr en samþykki allra hlutaðeigenda er fengið. Ef allir hugsa svo, þá er það bersýnilegt, að það er algerlega ómögulegt fyrir lögsagnarumdæmi að fá löggjafarvaldið sér til aðstoðar í nokkru tilfelli.

Hv. 2. þm. G.-K. talaði um, að það væri enginn leikur fyrir hreppinn og sýsluna að afhenda annan eins tekjustofn. Það liggur nú nærri, að þetta verði að teljast svo ósæmilegt tal, að það sé naumast viðeigandi hér á þessum stað, að tala um menn eins og tekjustofn, sem hreppurinn og sýslan eigi aðeins að hafa til að græða á sem einskonar mjólkurkýr. Ef þessu er bókstaflega svona farið, þá fer að verða ofur skiljanlegt, hvers vegna hreppurinn vill ekki missa þessa menn, og hvers vegna þeir aftur á móti vilja gjarnan losna. — Hv. þm. var að tala um það, að ómögulegt væri að segja, hvers virði þetta land væri. En það er engin mótbára. Þeir óhlutdrægu menn, sem kjörnir verða til þess að meta þetta land, þeir geta náttúrulega alveg eins metið það of hátt eins og of lágt. Við vitum það allir, að þess vegna skaðast menn og ábatast af viðskiptum, að ekki er alltaf rétt metið. Af því skaðast menn og ábatast af viðskiptum, að þeir geta ekki sagt fyrir vist um verðið á hlutunum. En þessi óvissa mælir einmitt með sameiningunni við Rvík, því að verðbreytingin stafar beinlínis héðan. Það eru ekki líkur til, að Seltjarnarneshreppi eða Gullbringu- og Kjósarsýslu geri nokkuð til, að haggist verð þessa svæðis. Það er einmitt Rvík, sem á að gjalda eða njóta þess, sem breytist þar. Ef þarna fjölgar fólki og gjöld verða meiri, er það einungis vegna legu þessa staðar í útjaðri Rvíkur. — Hv. 2. þm. G.-K. talaði um lambið fátæka mannsins; orð hans vekja meðaumkun, en hún minnkar, þegar á það er litið, að það er annar, sem á að ala lambið. Þegar bær er þarna til orðinn vegna Rvíkur, miðast vöxtur hans við hana, og þá eru það aðrir, sem hirða afraksturinn af því. Einmitt allt þetta tal um það, hvers virði þetta svæði sé, mælir með því, að það verði lagt undir lögsagnarumdæmi Rvíkur.

Ég skal svo ekki þreyta þetta mál meira; ég hefi lítið barizt fyrir því, en hefi treyst á sannsýni hv. þm., að þeir sjái, að ekki verður spyrnt á móti broddunum, og sanngirni þeirra, að þeir samþykki þetta, því málinu er að smáaukast fylgi, — og að tala um kúgun í þessu sambandi, er firra ein.

Í stríðinu voru það vissir landshlutar, sem menn voru í vafa um, hvar ættu að lenda. Þá voru það nokkrir menn, sem innleiddu sjálfsákvörðunarrétt þeirra manna, sem bjuggu á svæðinu.

Ef um kúgun er að ræða í þessu sambandi, þá er það einungis það að ganga á móti vilja þeirra manna sjálfra, sem svæðið byggja. Eftir þeirra vilja verður að fara.