13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (377)

89. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Hákon Kristófersson:

Ég hélt, að þessi brtt. mín mundi ekki valda svo miklum umr. ég þakka hv. 2. þm. G.-K. fyrir hin lofsverðu ummæli hans í minn garð, og er það rétt hjá honum, að þessi till. sé mér lík; ég hefi gert hina ýtrustu tilraun til samninga, en hitt veit hv. þm., að engar umr. hafa farið fram okkar á milli um þetta, og er ég enginn sendisveinn hv. 2. þm. G.-K. í þessu máli. Þetta vil ég taka fram sökum þess, að mér er ekki grunlaust um, að miður góðgjarnir menn hér í hv. deild líti svo á, að ég hafi flutt brtt. mínar samkv. beiðni hv. 2. þm. G.-K. Hv. 1. þm. Reykv. talaði um, að þetta væri fleygur, en þetta er sú hreinasta aðstaða, sem verið getur, að miða að því, að samningar fáist. Hv. þm. segir, að það sé engin kúgun, þótt lambið sé tekið frá fátæka manninum. Hv. þm. er auðsjáanlega vel að sér í biblíunni. En aðstaða mín er svo hrein í þessu máli, sem verið getur, því að ég vil vinna að vinsamlegu samkomulagi, og þá um leið því, að lambið sé ekki tekið frá fátæka manninum. Um það, hvort um tekjumissi er að ræða fyrir Seltjarnarnes, veit ég ekki, en ég býst við, að það sé ekki af óeigingirni, að Rvík vill fá þennan hluta hreppsins, og þau fríðindi, sem þar hafa vaxið upp, kannast ég ekki við, að séu Rvík að þakka. Þar hafa setzt að mörg rík félög, sem hreppurinn hefir tekjur af. Ég býst varla við, að þau hafi gert það fyrir Rvík að setjast þarna að.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði um það, hvað ég gerði í málinu, ef ég væri hér staddur á næsta þingi, og þá sýndi sig, að ekki næðist samkomulag. Það er vel farið að hafa þann fyrirvara, ef ég yrði hér á næsta þingi, — en þá lofa ég því, að ef hv. 2. þm. Reykv. kemur fram með sanngirni, þá skal ég hugsa til málsins með velvilja, og vænti ég þess, að þá verði gott samkomulag milli mín og hv. þm., en ég mun þó reyna fyrst þessa leið.