13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (379)

89. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors:

Ég skil ekki þá speki, sem 1. og 2. þm. Reykv. eru með, að þeim finnst það goðgá, að ég haldi því fram, að ákveðinn hluti úr hreppnum sé sérstakur tekjustofn hrepps og sýslu. Hugsið þið ykkur, að miðhluti Rvíkur væri skilinn frá öðrum hlutum bæjarins. — Haldið þið það væri ekki betra fyrir þá menn, sem þar stunda atvinnu og eiga þar lóðir, að vera út af fyrir sig, heldur en að vera gjaldstofn 28 þús. manna? Alveg það sama gildir um Skildinganes. — Aftur á móti væri verra fyrir Rvík að missa þennan hluta bæjarins, eins og það er verra fyrir Seltjarnarneshrepp og sýsluna að missa þennan hluta hreppsins, sem lagður yrði undir Rvík. Ég hefi aðeins synt fram á, að þarna er stór gjaldstofn fyrir hreppinn og sýsluna. Um þetta á ekki að þurfa að ræða, því þeir menn, sem ég á í deilum við, hljóta að skilja þetta. En annars er það svo, að þeir í hreppnum vilja hafa sitt sjálfstæði til að ákveða án íhlutunar Alþingis, hvort þeir ganga undir Rvík eða ekki.

Það er óþarft af hv. þm. Barð. að taka það fram, að hann hafi ekki borið fram þessar till. mín vegna. Ég hafði ekki hugmynd um, að hann væri að hugsa um þessar till., fyrr en ég las þær.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að hann væri andvígur allri kúgun í þessu efni, en þetta frv. verður alltaf kúgun, meðan réttir aðiljar vilja ekki láta þennan hreppshluta af hendi. Hreppurinn og sýslan eru aðiljar, sem ekki vilja ganga inn á innlimunina. Það er ekki heldur ljóst, hvað íbúarnir vilja í þessu efni; það hafa ekki komið fram óyggjandi rök fyrir því. Það eru 106 af 400–500 manns, sem segjast vilja innlimast, og þar af eru 70 innflytjendur. Ef heildin af mönnum, sem verið hafa lengi í hreppnum, vill samþykkja þetta, því þá ekki að fá hluta af þeim til að láta umsögn falla um það. Af 100 innflytjendum eru 70 með frv., en einir 36 af 300–400 eldri íbúum hreppsins. þetta bendir til þess, að íbúarnir vilji ekki sameinast Rvík. Ég álit því, að þetta sé kúgun.

Ég játa það, að það er erfitt að ákveða andvirði hluta, en það er augljóst um þetta, sem hér á að ganga kaupum og sölum, að það er að hækka í verði ár frá ári, en óvíst, hve mikið. Það er ekki rétt ályktað hjá hv. þm., að Rvík eigi allar rætur þess vaxtar, sem þarna verður, og jafnvel þótt það væri rétt, þá er ekki víst, að hann fái meiri hl. þd. til að draga þá ályktun, sem hann sjálfur dró, að af því mætti ráða, að það eina rétta væri að samþykkja frv. Því ef svo er, þá má segja, að þróun Gullbringu- og Kjósarsýslu hafi átt rætur í þróun Rvíkur, og með sama rétti má segja, að Rvík megi leggja undir sig þær sýslur landsins, sem henni þóknast og svo stendur á um. Ég álít, að þetta sé nokkuð hál braut, sem þessi og þvílíkur hugsunarháttur mundi leiða hv. þm. inn á.