27.03.1931
Neðri deild: 35. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

Afgreiðsla þingmála

Magnús Torfason:

Áður en lengra er komið dagskránni, vil ég leyfa mér að geta þess, að ég á ferð fyrir höndum og mun því ekki eiga sæti hér á þingi næstu viku.

Nú vill svo til, að hér eru nokkur hafnarmál á ferðinni, sem ég býst við, að fari fyrir þingið meðan ég er í burtu. En þar sem ég hinsvegar býst ekki við, að 11. mál (lendingarbætur á Eyrarbakka) verði tekið fyrir án þess að ég sem flm. sé viðstaddur, en þar sem ég ennfremur geri ráð fyrir, að hin málin fari til 3. umr. á meðan ég er í burtu, vil ég leyfa mér að mælast til þess við hæstv. forseta og hv. form. n. og frsm. í málinu, að 11. mál á dagskrá fari til 3. umr. í þetta sinn umræðulaust og sé geymt þar til er ég kem aftur að austan. Ástæða mín fyrir þessu er m. a. sú, að ég býst við, að sumir úr hv. n. fari austur í páskafríinu til þess að skoða aðstæður á Eyrarbakka.

Samkv. þessu leyfi ég mér allra þegnsamlegast að fara fram á þetta, sem ég áður gat um.