08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

Afgreiðsla þingmála

Bernharð Stefánsson:

Ég held, að hv. þm. Barð. hafi sýnt mér helzt til mikla virðing, er hann kallaði mig siðameistara þessarar hv. d. Ég hefi ekki lagt það í vana minn að vanda um við hv. þdm., né vera með aðfinnslur og ásakanir í garð þeirra. Ég þykist geta sagt þetta með góðri samvizku. En hvað þau orð snertir, sem ég lét falla áðan, þá var það alveg óþarfi af hv. þdm. að taka þau til sín, því að vitaskuld beindi ég ásökunum mínum til þeirra, sem ekki voru viðstaddir atkvgr. En úr því að ég hefi orðið upphafsmaður að þessum umr., og úr því að þær hafa beinzt í þennan farveg, þá get ég gjarnan gefið nánari skýring á því, hvað fyrir mér vakti. Ég taldi það skrípaleik að vera að baxa við atkvgr., þegar d. er svo fáskipuð, að hún getur varla talizt ályktunarfær. (PO: Nú, það er þá hæstv. forseti, sem á þetta allt). Ég áleit, að hæstv. forseti ætti að beita þeim ráðum, sem eru í hans valdi, til þess að fá þm. til þess að sinna þingstörfum, svo sem þeir eru skyldir til. (MG: Hvar er landsstjórnin?). Hv. þm. þarf ekki að spyrja mig um það, því ég veit ekki um það fremur en hann, enda hefi ég ekki það hlutverk að vakta stj., en vel má vera, að hæstv. stj. hafi öðrum störfum að gegna og sé því löglega forfölluð. Hinsvegar skal ég taka það skýrt fram, að ég átti ekki við þá, sem greiddu ekki atkv. af lögmætum ástæðum, því að ég tel það að vissu leyti þátttöku í atkvgr. að gera grein fyrir hlutleysi í atkvgr.